Félagsheimilið Herðubreið

Félagsheimilið HerðubreiðFélagsheimilið Herðubreið
Austurvegur 4
Sími : 770-2444
Netfang : info@herdubreidseydisfjordur.is
Vefsíða Herðubreiðar
Feisbúkk


Félagsheimilið Herðubreið hýsir ýmsa starfsemi, meðal annars árlega viðburði á borð við leiksýningar á vegum Leikfélags Seyðisfjarðar, Viskubrunn Seyðisfjarðarskóla, Lions bingó, jólaball Lions, LungA hátíð og árshátíð grunnskólans. Föst starfsemi svo sem mötuneyti grunnskólans, LungA skólinn og fleira hefur einnig starfsaðstöðu í Herðubreið.

Herðubreið er með tvo sali með sviði og getur hýst stórar veislur, dansleiki, ráðstefnur, fundi og fleira. Hægt er að panta veitingar af rekstraraðila. 

Umsjónar- og rekstraraðili hússins eru Celia Harrison og Sesselja Hlín Jónasardóttir.

Félagsheimilið Herðubreið  Bíósalur, Herðubreið

Matsalur, Herðubreið  Salur, Herðubreið    


Um Herðubreið

Árið 1923 var hlutafélagið Herðubreið stofnað í því skyni einu að koma upp samkomuhúsi á Seyðisfirði. Árið 1930 keypti hlutafélagið gamalt hús til kvikmyndareksturs, Bíóhúsið svonefnda. Þar var kvikmyndahús (þar sem við nú köllum Meyjarskemmu - FAS) í um aldarfjórðung eða þar til Herðubreið tók til starfa. Eftir 1940 batnaði hagur félagsins til muna, er hljómmyndavélar komu til. Af þessum rekstri hafði félagið góðar tekjur og hóf byggingu félagsheimilisins 1946. Húsið er reist samkvæmt teikningu Einars Erlendssonar, húsameistara með breytingum Gísla Halldórssonar, arkitekts sem einnig teiknaði innréttingarnar. Pétur Blöndal sá um uppbyggingu hússins ásamt pípulögnum og Garðar Eymundsson annaðist tréverk innanhús og málaði ásamt Jóni Brynjólfssyni. Húsið kostaði 1.300.000.- og var vígt 16. desember 1956. Um kvöldið var stiginn dans fram á nótt. Yngri hluti hússins er teiknaður af Gísla Halldórssyni en hann hefur teiknað fjölmörg mannvirki, þar á meðal mörg félagsheimili og íþróttamannvirki, m.a. Íþróttaleikvanginn í Laugardal og Laugardalshöllina ásamt fleirum. Einnig mætti nefna Lögreglustöðina í Reykjavík, Hótel Loftleiðir, Tollstöðvarhúsið í Reykjavík, Hótel Esju og verkamannabústaði í Reykjavík sem Gísli teiknaði ásamt samstarfsmönnum sínum.

Á síldarárunum fóru stórar samkomur fram í húsinu, allt að 1000 manns sóttu dansleiki þegar mest var og það var bíó oft á dag, alla daga. Ljóst var þá að stækka þurfti samkomuhús staðarins og var hafist handa við það árið 1963 að byggja við Herðubreið fyrir ágóðann af síldarævintýrinu. Þegar síldin svo síðan hvarf stöðvuðust framkvæmdir í nýju viðbótinni við Herðubreið um tíma. Það var ekki fyrr en árið 1973 að hægt var að klára bygginguna og þá var settur upp í húsinu fjölnota salur, m.a. hafði grunnskólinn þar aðsetur. Hann var þar með kennslustofur með færanlegum veggjum sem voru teknir niður þegar stórar samkomur voru haldnar í húsinu. Praktískt en óhentugt fyrir margar sakir. Íbúum hafði fjölgað mikið og hagur bæjarins vænkast að sama skapi. Síðar var því rými breytt í íþróttasal, lokað var fyrir fallegu gluggana í stóra salnum með spónarplötum en notað eftir sem áður fyrir stærri samkomur og þá með færanlegu sviði. Aðstaðan hefur því ávallt verið aðlöguð þeirri starfsemi sem þar hefur farið fram hverju sinni.

Árið 1999 var svo byggt íþróttahús samtengt þessum tveimur byggingum. Með því fyrirkomulagi töldu menn að hægt yrði að spara starfsmann. Sami starfsmaður átti að veita báðum húsunum forstöðu, það gekk þó ekki alveg sem skyldi og er reksturinn aðskilinn í dag. Það hefur verið ýmsum erfiðleikum bundið að halda úti starfsemi í félagsheimilinu. Kemur þar margt til, s.s. að það hafa orðið til veitingastaðir sem bjóða upp á afþreyingu og veitingar fyrir bæjarbúa og gesti. Ný tækni varðandi bíósýningar olli því að bíósýningar lögðust af, en bíóið starfaði þó í nokkur ár sem eina bíóið á Austurlandi. Með tilkomu pöbbamenningarinnar hafa sveitarböllin lagst af en það var stór tekjulind fyrir félagsheimilin og svo mætti lengi telja. Skaftfell miðstöð myndlistar er með ýmsar uppákomur en þó fyrst og fremst er varðar myndlist og ýmis félagsstarfsemi starfar nú í sínu eigin húsnæði s.s. eldri borgarar, slysavarnarfélagið, björgunarsveitin, Lions o. fl.


Fréttabréf nóvember 2018