Aflétting á takmörkunum

Mánudaginn 4. maí

Næstkomandi mánudag, þann 4. maí verður takmörkunum á skólastarfi aflétt. Af því tilefni vill almannavarnardeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis árétta eftirfarandi.

  • Fjöldatakmarkanir og nálægðarmörk munu ekki gilda um nemendur í leik-, grunn- og tónlistarskólum. Þær gilda þó áfram um fullorðna í skólastarfi sem þurfa að gæta að 2 metra fjarlægð sín í milli og hámarksfjölda um 50 fullorðna í hverju rými.
  • Brýnt er að huga áfram að góðum sóttvörnum í skólunum; stuðla að hreinlæti, handþvotti og sótthreinsun á þeim svæðum sem margir ganga um og fylgja viðbragðsáætlun ef grunur vaknar um smit. Neyðarstig almannavarna er áfram í gildi.
  • Mælst er til þess að skólar og foreldrafélög skipuleggi ekki fjölmennar samkomur og takmarki almennt gestakomur fullorðinna í skólana; þetta á til dæmis við um útskriftir, tónleika, sveitaferðir, útilegur, vor- og sumarhátíðir og slíkt.
  • Svör við algengum spurningum um áhrif breytinganna á ýmsar hliðar skólastarfsins má finna á slóðinni mrn.is/skolastarf
  • Almennar fyrirspurnir um sóttvarnaráðstafanir frá stjórnendum fræðslu- og skólamála í sveitarfélögum skal senda á netfangið svandis@samband.is sem kemur þeim rétta boðleið í svörun.

Það krefjandi samfélagslega verkefni að sporna við útbreiðslu veirunnar hefur tekist vel að flestu leyti hingað til og fyrir það ber að þakka. Við vonumst til áframhaldandi góðrar samvinnu við ykkur því verkefninu er ekki lokið. Það krefst áfram töluverðs af okkur öllum, ekki síst úthalds og árvekni.