Alþjóðlegi netöryggisdagurinn 2019

6. febrúar

Á morgun, miðvikudaginn 6. febrúar, er alþjóðlegi netöryggisdagurinn.

Frá árinu 2001 hafa Barnaheill – Save the Children á Íslandi starfrækt ábendingalínu fyrir ólöglegt og óviðeigandi efni á neti, í samstarfi við Ríkislögreglustjóra. Ábendingalínan er hluti af SAFT verkefninu, (Samfélag, fjölskylda og tækni) og nýtur styrks frá Evrópusambandinu og úr ríkissjóði. Ábendingalína Barnaheilla er þátttakandi í samstarfi ábendingalína á heimsvísu í gegnum alþjóðasamtökin Inhope. Með þessu samstarfi er mögulegt að bregðast við þegar tilkynningar um ofbeldi gegn börnum hvaðanæva úr heiminum berast í gegnum ábendingalínuna.

 

Inni á heimasíðum Barnaheilla, lögreglunnar, SAFT og víðar má finna ábendingahnapp þar sem hægt er að senda tilkynningar um myndir eða myndbönd sem brjóta gegn friðhelgi einkalífs barna, svo sem myndir sem innihalda nekt eða sem sýna börn á kynferðislegan hátt.

 

Ábendingalínan og SAFT eiga gott samstarf við Facebook, Youtube, Instagram, Snapchat og Google og geta beitt öruggum og fljótlegum leiðum til að fá myndefni fjarlægt af þeim miðlum. Því getur verið gott að tilkynna myndefni þaðan í gegnum ábendingalínuna.

Barnaheill hvetja samfélagið allt til þátttöku í að vernda öll börn gegn ofbeldi.

 

Greinina má lesa alla á barnaheill.is

Höfundur greinarinnar er Þóra Jónsdóttir, lögfræðingur og verkefnastjóri hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi.