Áramótaávarp bæjarstjóra

Stiklað á stóru

Góðir Seyðfirðingar og aðrir tilheyrendur – gleðilega hátíð.

Við áramót verður okkur hugsað til baka til þess sem fyrir bar á árinu sem er að líða. Við vonum að með nýju ári komi ný tækifæri. Við erum reynslunni ríkari. En þá skiptir líka máli að nota þá reynslu sem vannst til að gera enn betur.

Tíðarfar var ekki sérlega hagstætt á árinu. Fyrri hluti árisins þó mildur. En vor, sumar og haust heldur vætusamt. Reyndar svo mjög að knattspyrnuliðið náði með naumindum heimaleik á Garðarsvelli allt keppnistímabilið. Veturinn hófst svo af fullum krafti í nóvemberbyrjun og hefur lítið lát verið á.

Mikið vatnsveður gerði 23. og 24. júní. Því fylgdu skriðuföll og miklir vatnavextir sem ollu tjóni hjá eigendum fasteigna bæði íbúðarhúsnæði og fyrirtækja auk þess sem ræsi og götur skemmdust.

Með snarræði starfsmanna kaupstaðarins og íbúa tókst að draga verulega úr tjóni sem annars hefði orðið enn meira en þó varð.

Framlag fékkst úr ríkissjóði til viðgerða og hreinsunar sem ekki er lokið. Miðað hefur verið við að nýta efni sem til fellur við verkið til að bæta varnir eða í aðrar framkvæmdir.

Seint í nóvember kynnti bæjarstjórn á íbúafundi frumathugun vegna snjóflóðavarna undir Bjólfi í samstarfi við Ofanflóðasjóð og sérfræðinga sem unnið hafa að málinu. Í framhaldi verður unnið að umhverfismati og í framhaldi hönnun mannvirkja.

Áfram verður unnið að rannsóknum vegna ofanflóðavarna sunnan megin í Seyðisfirði á vegum Ofanflóðasjóðs með sérfræðingum á því sviði. Miðað er við að hættumat verði tekið til endurskoðunar í framhaldi af framangreindum aðgerðum.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ákvað síðsumars að vinna úttekt á jarðgangakostum til Seyðisfjarðar sem nokkuð víðtæk sátt virðist um að séu næsta jarðgangaframkvæmd á eftir Dýrafjarðargöngum.

Til þess var skipaður starfshópur. Gert er ráð fyrir að hann skili niðurstöðum sínum í febrúar.

Á vegum Vegagerðarinnar hefur verið unnið að jarðfræðiskýrslu vegna Fjarðarheiðarganga og er sú skýrsla væntanleg fljótlega.

Í október kynnti RARIK ohf. áform um að leggja af fjarvarmaveitu félagsins á Seyðisfirði. Af hálfu kaupstaðarins hefur verið unnið að athugun á mögulegum lausnum í þess stað.

Sú vinna fer nú fram í samstarfi kaupstaðarins og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fyrir hönd stjórnvalda. Stofnað hefur verið teymi fulltrúa ráðuneytisins, Orkustofnunar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem nú leggur mat á helstu kosti.

Það var sameiginleg niðurstaða fulltrúa kaupstaðarins og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að setja bæri í forgang skoðun miðlægra lausna áður en farið yrði að horfa til stakra lausna fyrir hverja fasteign.

Starfsemi kaupstaðarins hefur gengið vel á árinu. Miðað við útkomuspá í nóvember síðastliðnum stefnir í að útkoma ársins 2017 verði heldur jákvæðari en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins. Atvinnusstig var gott í bænum og vart tókst að manna öll störf.

Á árinu hefur verið unnið að endurgerð áhaldahússins sem jafnframt hýsir slökkvistöð kaupstaðarins. Breytingar hafa verið gerðar á fyrirkomulagi innanhúss og mun aðstaða starfseminnar sem þar er batna til muna frá því sem áður var.

Unnið var að endurbótum á húsnæði skólans og aðbúnaði til skólahalds. Bæjarbókasafn og skólabókasafn voru sameinuð undir eitt þak í húsnæði skólans.  Með flutningi bókasafnsins í skólann batnaði aðgengi að því til muna.

Við framkvæmdir og endurbætur hefur verið horft til þess að aðgengi fyrir alla verði bætt eins og kostur er.

Rekstur Félagsheimilisins Herðubreiðar hefur verið endurskipulagður í höndum nýrra rekstraraðila sem félagsheimili og menningarhús kaupstaðarins. Það er í samræmi við niðurstöður starfshóps sem vann að tilögum um starfsemi í húsinu með víðtæku samráði við félagasamtök sem nota félagsheimilið og íbúa. Óhætt er að segja að vel hefur tekist til.

Gert er ráð fyrir að hefja vinnu við endurbætur á ytra byrði hússins á næsta ári.

Þá hefur verið unnið að byggingu áningarstaðar við Neðri Staf við minnisvarðann um Þorbjörn Arnoddsson.

Aðsókn að minnisvarðanum og einstöku útsýni frá honum hefur aukist til muna og því full þörf á að bæta aðstöðu og öryggi á svæðinu.

Fjárhagsáætlun ársins 2018 gerir ráð fyrir jákvæðri útkomu á rekstri samstæðu kaupstaðarins. Gert er ráð fyrir nokkuð auknum framkvæmdum og að bætt verði í hvað varðar viðhaldsverkefni.

Gert er ráð fyrir að vinna áfram að lækkun skulda. Lífeyrisskuldbindingar hafa hækkað nokkuð verulega vegna þróunar á launamarkaði og munu hægja á lækkun skulda og skuldbindinga á næstu árum.

Árangurinn er samt farinn skila sér og því ástæða til bjartsýni á komandi árum.

Húsnæðismál hafa verið í brennidepli en skortur á íbúðarhúsnæði hefur ágerst og eftirspurn verið talsvert umfram framboð. Húsnæðisáætlun er í vinnslu og hefur bæjarstjórn samþykkt fyrstu drög hennar sem bíða nú uppfærslu. Þá er unnið á vegum sveitarfélaganna á Austurlandi að sameiginlegri húsnæðisáætlun fyrir Austurland. Með þessum áætlunum má gera ráð fyrir að forsendur skapist fyrir uppbyggingu virks húsnæðismarkaðar.

Verndarsvæði í byggð – Seyðisfjörður hefur verið í vinnslu á árinu. Svæðið sem unnið hefur verið með í ár norðan Fjarðarár er afmarkað við Bjólfsgötu, Oddagötu, Öldugötu, Norðurgötu og Vesturveg. Gert er ráð fyrir víðtæku samráði við vinnslu þess og eru íbúar hvattir til að kynna sér framkomin gögn vegna þess.

Í mars var gerður samningur við Landlæknisembættið um þróunarverkefnið Heilsueflandi samfélag.

Heilsueflandi samfélag tekur sérstaklega mið af næringu, hreyfingu, umhverfi og öryggi, geðrækt, líðan, félagslífi, lífsgæðum og lífsstíl. 

Í heilsueflandi samfélagi er stöðug áhersla lögð á að bæta bæði hið manngerða og félagslega umhverfi íbúa, draga úr ójöfnuði, og draga úr tíðni og afleiðingum langvinnra sjúkdóma með margvíslegu forvarnar- og heilsueflingarstarfi.

Það að hver og einn hugi að eigin heilsu er árangursrík og hagkvæm leið til að auka lífsgæði og því full ástæða til að hvetja til almennrar þáttöku í verkefninu.

Í dag fer ekki hjá því að eftir einstakri uppbyggingu samfélagsins á Seyðisfirði er tekið. Fjölbreytt atvinnulíf, mikill ferðamannastraumur, margvísleg þjónusta, öflugt menningar og listalíf og mikið félagsstarf og árangur í íþróttum svo eitthvað sé nefnt.

Það er ekki bara á landsvísu heldur á heimsvísu sem staðurinn er rómaður fyrir náttúrufegurð og einstakt mannlíf og umhverfi. Einkar jákvæð umfjöllun erlendra blaðamanna í víðlesnum fjölmiðlum á borð við Vouge og nú síðast í Marie Claire um staðinn staðfestir þetta svo ekki verður um villst. Ekki þarf að fjölyrða um hversu ánægðir ferðamenn sem hingað koma eru og þá jákvæðu mynd sem þeir draga upp á samskiptamiðlum.

Þessu hefur verið áorkað með vinnusemi þrautsegju og trú á möguleika til að byggja upp og sækja fram. Ekkert af þessu var sjálfgefið og því mikilvægt að hlúa áfram að til enn frekari árangurs.

Innan skamms gengur nýtt ár í garð. Framtíðin á nýja árinu er óráðin sem fyrr en óvissu fylgir líka eftirvænting um ný tækifæri, framfarir og enn betri árangur.

Ég óska ykkur gæfuríks nýs árs og þakka fyrir samstarf og samskiptin á árinu sem nú er að líða.