Áramótaræða bæjarstjóra

Fyrsti og eini kvenkyns bæjarstjórinn á Seyðisfirði

Kæru bæjarbúar og gestir, gleðilega hátíð. 

Það er áhugavert að standa hér, fyrsta konan til að verða bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar og jafnframt síðasti bæjarstjórinn fyrir kaupstaðinn. Þessi áramót eru merkileg tímamót fyrir margt, fyrst og fremst fyrir það að kaupstaðurinn fer inn í sitt hundrað tuttugasta og fimmta starfsár og jafnframt hið síðasta sem sjálfstæður kaupstaður. Í vor munum við sameinast í 5000 manna sveitarfélag með góðum nágrönnum okkar á Fljótsdalshéraði, Borgarfirði eystri og Djúpavogi. Hér hafa ákveðið að sameinast sterkir íbúakjarnar, hver með sinn karakter sem er svo áhugavert að sjá þróast saman sem eina sterka heild. Stjórnsýslan kallar á þessar breytingar og ég tel að það sé afar farsælt að stíga það skref sjálfviljug og með eitthvað um það að segja.

Síðasta ár hefur á margan hátt verið ár undirbúnings fyrir sameiningu en einnig ár endurskoðunar og tiltektar í starfsemi kaupstaðarins. Árið hefur einkennst öðru fremur af nýjum áherslum á ýmsum sviðum, en þó fyrst og fremst er þetta árið sem margt nýtt lærðist.

Samgöngumálin hafa að vonum verið fyrirferðamikil. Verkefnahópur skipaður af samgönguráðherra skilaði af sér skýrslu með þeirri niðurstöðu að næstu jarðgöng á Íslandi skyldu verða undir Fjarðarheiði. Seinni hluta ársins kom svo út samgönguáætlun til næstu fimm ára og þar eru Fjarðarheiðargöng tilgreind sem næstu göng og er áætlað að hönnun ganganna hefjist árið 2020. Bættar samgöngur skipta miklu máli fyrir Seyðisfjörð, ekki bara fyrir íbúa hér í bæ heldur fyrir fjórðunginn allan, ferðamenn og atvinnustarfsemi. Mikilvægt skref í sameiningu sveitarfélaga sem og í þeirri viðleitini að þróa Austurland sem eitt atvinnusvæði. Í fyrrnefndri skýrslu var einnig lagt til að þar næstu göng yrðu til Norðfjarðar um Mjóafjörð og myndaði þar með hringtengingu sem er svæðinu svo mikilvæg. Ráðherra samgöngumála gekk svo langt í að leyfa sér að vona að þau göng gætu verið grafin á sama tíma og Fjarðarheiðargöngin. Ég veit að trúin flytur fjöll, hversvegna ekki að trúa því að ósk ráðherra rætist? Ég ætla að leyfa mér að trúa á þetta mikilvæga verkefni.

Húsnæðismál hafa verið mikið í deiglunni á árinu og hefur margt verið gert til þess að hreyfa við markaðnum. Húsnæðiskönnun var lögð fyrir íbúa og niðurstöður úr henni voru helstar þær að stór hluti eldri borgara myndi kjósa að flytja í þjónustuíbúðir og við það myndi koma mikil hreyfing á markaðinn. Seyðisfjarðarkaupstaður var tilnefndur sem eitt af sjö tilraunasveitarfélögum af ráðherra félagsmála í samstarfi við íbúðalánasjóð. En verkefninu er ætlað að styðja við stöðnuðum fasteignamarkaði. Beðið er eftir niðurstöðum með hvað nákvæmlega íbúðalánasjóður og félagsmálaráðherra mun gera fyrir Seyðisfjörð í þessu verkefni. Sú niðurstaða átti að liggja fyrir nú fyrir jól en birtist vonandi strax á nýju ári. Hér er á ferðinni afar mikilvægt skref og í raun grundvöllur í frekari atvinnuuppbyggingu og íbúaþróun í bænum. Bæjarstjórn ákvað að fella niður gatnagerðargjöld í von um að koma hreyfingu á markaðinn. Tveir aðilar hófu byggingu einbýlishúsa í haust og var það því ánægjulegt að geta stutt við þá aðila með niðurfellingu gatnagerðargjalda.

Mikil þörf er á viðhaldi á húsnæði kaupstaðarins, götum, gangstéttum og innviðum á sviði ferða- og menningarmála. Á árinu var gerð úttekt og kostnaðargreining á endurbótum á Sundhöllinni okkar. Þar er þörfin afar brýn. Það hefur því verið ákveðið að verja um 20 milljónum til viðgerðar á keri laugarinnar og svæðinu í kringum hana sem og að setja upp heitann pott utandyra. Ljóst er að endurbætur taka nokkur ár þar sem fjárhagurinn leyfir ekki annað en að það verði gert í áföngum.

Skólamálin hafa verið í brennidepli, bæði hvað varðar starfsemi og aðstöðu. Bæjarstjórn hefur sett það á stefnuskrá sína að bæta úr aðstöðu skólans. Á næsta ári verður gerð úttekt á aðstöðunni og farið í vinnu að úrlausnum. Til að byrja með er gert ráð fyrir að Steinholt verði selt og söluandvirðið notað í að kaupa lausa kennslustofu sem leysir vonandi brýnasta vandann á meðan annaðhvort verður byggður nýr skóli, rauði skóli kláraður eða þá að önnur framtíðarlausn verði fundin. Biðlisti myndaðist á leikskólanum sökum manneklu en illa gekk að ráða menntaða leikskólakennara. Bæjarstjórn samþykkti tímabundið að koma til móts við foreldra barna á biðlista, með svokallaðri heimgreiðslu sem og að greiða flutningsstyrk tímabundið fyrir menntaða leikskólakennara sem myndu vilja flytja til okkar. Þessar lausnir báru árangur og munu tveir nýjir leikskólakennarar koma til starfa við leikskólann í janúar-febrúar. Öll börnin á biðlistanum komast því inní skólann í byrjun árs.

Viðamikil áætlun varðandi uppbyggingu göngustígakerfisins í firðinum var sett í gang á síðasta ári, sem er í raun beint framhald af þeirri vinnu sem gönguklúbbur Seyðisfjarðar lagði grunninn að, sem ég vil sérstaklega þakka hér og nú fyrir frábært framlag til göngustígagerðar. Það verkefni mun verða unnið að stórum hluta í samstarfi við framkvæmdasjóði Ferðamannastaða og spannar nokkur ár.

Umsvif á höfninni voru talsverð, af skipaumferð er það að segja að Norræna kom með um 20.000 farþega, 68 skemmtiferðaskip komu með rúmlega 59.000 farþega og áhafnir. Gullver landaði reglulega og fiskvinnslan gekk sinn vanagang. Af annarri starfsemi er það helst að segja að Stálstjörnur hafa unnið að því að smíða stóra brú sem flutt verður suður á land, áhugavert að fylgjast með því verkefni. Ýmis iðnaður og verktakaþjónusta er til staðar í bænum. Stálstjörnur, PG stálsmíði og verktakafyrirtækið Landsverk eru góð dæmi um fyrirtæki sem ná að skapa sér atvinnutækifæri innan sem utan fjarðar, þar fyrir utan eru smá iðanaðarfyrirtæki svo sem blikksmíði, kvikmynda klipping, grafísk hönnun, arkitektúr, verkfræðistofan Efla ofl. Ferðaþjónustan gekk vel og mikill fjöldi ferðamanna sótti okkur heim, verslun og þjónusta vaknar verulega til lífsins yfir sumartímann. Gömlu húsin, viðburðir og Regnbogagatan er helsta aðdráttaraflið. En Regnbogagatan er númer tvö á lista yfir vinsælustu staði á Íslandi til að ljósmynda fyrir Instagram .

Í ár samþykkti ríkisstjórnin að lýðskólar yrðu viðurkenndir sem námsleið í íslensku menntakerfi. Var það góður áfangi í uppbyggingu LungA Skólans sem er fyrsti listalýðskóli landsins. Þetta þýðir að fjárhagsgrunnurinn verður tryggari og styrkir líkurnar á að skólinn muni þróast og lifa áfram.

Í sumar var unnið að gatnagerð í miðbænum og lítilsháttar gangstétta viðgerðir fóru fram. En betur má ef duga skal og eru áform um að halda áfram næstu árin. Áætlun um uppbyggingu á svæðinu í kringum Lónið lítur vonandi dagsins ljós á vordögum, sem og endurskipulagning á hafnarsvæðinu við Ferjuhúsið. Þá er unnið að Verndarsvæði í byggð sem setur okkar húsaarf í forgang hjá hinu opinbera þegar kemur að fjárveitingum til endurbóta. Forstöðumaður Tækniminjasafnsins; Pétur Kristjánsson til áratuga hætti störfum í haust og ber að þakka Pétri fyrir hið óeigingjarna starf sem hann hefur unnið í þágu safnsins. Á árinu gekkst Hafnarsjóður við því að eiga Angró og hefur ákveðið að setja fjármagn til endurbóta á húsinu. Til safnsins var ráðinn nýr forstöðumaður og er hann um þessar mundir að vinna að endurskipulagningu. Tækniminjasafnið á mikið magn muna og hefur verið með í vörslu sinni nokkur afar merk hús sem eru í eigu kaupstaðarins. Það þarf svo sannarlega að hlúa að hinum einstaka húsaarfi okkar og tel ég að í ár hafi verið tekin nokkur mikilvæg skref í þeirri vinnu.

Til þess að reka sveitarfélag þarf gott og öflugt starfsfólk, við erum mjög heppin með starfsfólk. Það sem heftir okkur þó helst er að nánast allar starfsstöðvar eru undirmannaðar sem þýðir að þjónusta er hvorki nógu hröð eða öflug sökum manneklu. Það er allt of margt sem kemst ekki í framkvæmd sökum þessa. Má segja að sú staðreynd sé einn mikilvægasti þátturinn í því að sameining sveitarfélaga varð raunhæfur og álitlegur kostur að mínu mati.

Fjárhagslega á sveitarfélag í okkar stærðarflokki erfitt með að reka sig eitt og sér. Fjárhagur er ágætur en það er mjög þröngt skammtað og mikils aðhalds þörf á sama tíma og kröfurnar um aukna þjónustu og viðhald eru staðreynd. Í desember skilaði bæjarstjórnin af sér ágætri fjárhagsáætlun. Ég ætla ekki að fara nánar út í fjármálin hér en hvet áhugasama til að kynna sér þau, fjárhagsáætlun fyrir 2020 og greinagerð hafa verið birt á vefsíðu kaupstaðarins, seydisfjordur.is.  

Við getum leyft okkur að horfa bjartsýnum augum til framtíðar, trúin flytur fjöll eins og ég sagði hér í upphafi og göngin komin á dagskrá sem ég held að séu bestu tíðindin frá störfum bæjarstjórnarinnar á þessu ári. En það hefur verið lögð mikil vinna í að hitta ráðamenn, skrifa umsagnir, greinar, álykta og svo framvegis. Þar voru allir sammála um áherslur og einhentu sér saman í verkefnið. Eftir áratuga vinnu fjölmargra bæjarfulltrúa tókst loksins að sannfæra stjórnvöld um að setja verkefnið á dagskrá. Tel ég að sameiningarmálin hafi haft þar mjög mikið að segja. Það eru um 5000 manns sem munu búa í þessu sveitarfélagi og samgöngur eru forsenda þess að vel takist til. Á því hefur verið hamrað og nágrannar okkar hafa sett það mál á oddinn á þeim fundum sem við höfum sameiginlega átt með þingmönnum og ráðherrum um okkar mikilvægu mál. Það verður áhugavert að sjá hvað verður eftir kosningar en fyrirhugað er að þær fari fram 18. apríl næst komandi. Framundan eru miklar breytingar í stjórnkerfinu og mikið álag verður á starfsfólki við að sameina rekstur, gagnavörslu og ferla. Ég bið ykkur því bæjarbúar góðir um að sýna biðlund og umburðarlyndi ef aðlögunin hefur áhrif á þjónustu við ykkur.

Ekki er annað hægt en að minnast á og þakka alla þá sjálfboðavinnu sem bæjarbúar inna af hendi. Má þar nefna björgunarsveitina, slysavarnardeildina, lionsmenn, gönguklúbburinn, kirkjukórinn og fólk í menningar- og íþróttastarfsemi ýmis konar. Ég gleymi eflaust að nefna einhverja því það eru jú líka einstaklingar sem taka upp hjá sér að safna fyrir einhverju þörfu málefni sem er líka ótrúlega verðmætt og lýsir því best hvernig lítil samfélög virka þegar á reynir.

Mig langar líka að minnast þeirra bæjarbúa sem féllu frá á árinu. Ég vil þakka þeim samfylgdina og sendi aðstandendum mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Mig langar til þess að enda þessi fátæklegu orð mín á að hvetja ykkur til þess að vera hugrökk, að sýna hvert öðru samkennd og að standa þétt saman. Þó svo að stjórnsýslan flytji á einn stað verður Seyðisfjörður áfram hinn einstaki Seyðisfjörður. Við þurfum alltaf á samheldni að halda, nú ættum við að hugsa fyrst og fremst um það að standa vörð um okkar gildi, menningararf, atvinnulíf og starfsemi hverskonar sem gefið hefur okkur sérstöðu. Við þurfum hugrekki til þess að takast á við framtíðina, að tryggja það að hér haldist áfram blómleg byggð. Verum skapandi, hugrökk og góðar fyrirmyndir .  Leyfum okkur að þora að fara nýjar leiðir og munum að trúin flytur fjöll.

Njótið kvöldsins. Gleðilegt nýtt ár!