El Grillo og Landhelgisgæslan
Eins og bæjarbúar hafa tekið eftir hefur varðskipið Þór verið við bryggju síðastliðna viku. Hafa þeir verið við aðgerðir til að loka fyrir olíulekann sem var valdur að fugladauða síðasta sumar.
Yfirhafnarvörður hefur verið tengiliður Seyðisfjarðarhafnar við Landhelgisgæsluna og Umhverfisstofnun og setið reglulega stöðufundi um gang mála. Verkið hefur gengið vonum framar og þrátt fyrir minni háttar skakkaföll hafa ekki orðið tafir á áætlun. Fyrstu dagar verksins fóru í undirbúning og hreinsun á því svæði sem steypa á yfir. Í ljós komu rör sem þurfti að fjarlægja og í kjölfarið þurfti að stækka steypumótið sem fer yfir lúguna sem lekur. Einnig lentu kafarar í basli með búnað sem notaður var við að fjarlægja rörin og gaman er að segja frá því að það var leyst með því að fá lánaða sög hjá Stálstjörnum. Steypuvinnan hefur gengið ágætlega og er gert ráð fyrir að verkinu verði lokið um helgina, að öllu óbreyttu á sunnudag eða mánudag.
Þá má geta þess að vikuna fyrir komu varðskipsins til Seyðisfjarðar komu 3 menn frá Landhelgisgæslunni með fjarstýrðan kafbát sem notaður var til að gera sónarmynd af El Grillo. Seyðisfjarðarhöfn mun fá eintak af myndinni þegar hún er tilbúin sem vonandi verður sem fyrst.
Með samstilltu átaki Seyðisfjarðarhafnar, Landhelgisgæslunnar og Umhverfisstofnunar hefur verið brugðist við þeim vanda sem kom upp síðasta sumar. Hins vegar eru líkur á að frekari lekar geti komið í ljós og verður brugðist við þeim strax. Landhelgisgæslan mun verða með reglulegt eftirlit með flakinu og vonandi verður með því hægt að finna leka áður en þeir verða mjög alvarlegir.
Frétt á vef Landhelgisgæslunnar um sama mál má sjá hér.