Lögreglan og heilsueflandi samfélag

Umferðin yfirleitt til fyrirmyndar

Gaman er að segja frá því að heilsueflandi samfélag og lögreglan á Seyðisfirði voru í samvinnu síðast liðið vor og haust varðandi umferðareftirlit við grunnskólann á Seyðisfirði. Að því loknu gefur lögreglan frá sér eftirfarandi mat á umferðarmenningu bæjarbúa.

Lögreglan fór í haust að sinna morguneftirliti við grunnskólann, framhald frá vori 2019, og varð þess áskynja að umferðarmenning þar hefur batnað verulega og erum við ánægð með það.  Það heyrir orðið til undantekninga ef börnum er hleypt út úr bílum þannig að þau þurfi að fara yfir götuna til að komast í skólann. 

Lögreglan vill benda á þá augljósu staðreynd að afskaplega lítil slysahætta skapast við skólann ef foreldrar / skutlarar haga skutlinu þannig að barnið þurfi ekki að þvera umferðargötu framan við skólann, sérstaklega í myrkrinu sem umlykur morgnana þessa dagana.

Við höfum líka orðið þess vör að bílbelti, börn í bílstól / bílbelti hefur snarskánað, heyrir nú til undantekninga og á ekki að sjást.

Þannig að ef við drögum þetta saman og ræðum umferðarmenningu á Seyðisfirði er lögreglan mjög sátt við bæjarbúa sem aka um af varkárni, sýna tillitssemi og eru yfirleitt til fyrirmyndar.

hsam