Eyrarrósin 2018

Enn og aftur er seyðfirskt verkefni tilnefnt - nú LungA Skólinn!

LungA skólinn er tilnefndur til Eyrarrósarinnar 2018, en LungA skólinn er eini lýðháskólinn á landinu. LungA skólinn er tilraunakenndur jarðvegur fyrir sköpun, listir og fagurfræði sem rekinn hefur verið af miklum metnaði á Seyðisfirði frá vorönn 2014 í góðum tengslum við LungA hátíðina. 

Eyrarrósin er viðurkenning sem árlega er veitt framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Að verðlaununum standa í sameiningu Byggðastofnun, Air Iceland Connect og Listahátíð í Reykjavík. Eyrarrósinni er ætlað að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Alls bárust 33 umsóknir um viðurkenninguna í ár hvaðanæva af landinu.

Á Eyrarrósarlistanum 2018 birtast nöfn þeirra sex verkefna sem eiga möguleika á að hljóta verðlaunin í ár. Sjálfri Eyrarrósinni fylgir tveggja milljón króna verðlaunafé en að auki munu tvö verkefnanna hljóta 500 þúsund króna verðlaun.

Eyrarrósarlistinn 2018:

  • Aldrei fór ég suður, Ísafirði
  • Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Norðanáttin (Nothern Wave), Snæfellsbæ 
  • Ferskir vindar – alþjóðleg listahátíð í Garði
  • LungA skólinn, Seyðisfirði
  • Rúllandi snjóbolti, Djúpavogi
  • Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda, Patreksfirði

 

Eyrarrósin verður afhent við hátíðlega athöfn þann 1. mars næstkomandi í Neskaupsstað, heimabæ þungarokkshátíðarinnar Eistnaflugs sem er handhafi Eyrarrósarinnar frá síðasta ári. Frú Eliza Reid, verndari Eyrarrósarinnar mun afhenda verðlaunin.

Nánar má lesa um Eyrarrósarlistann hér.
Nánar má lesa um LungA Skólann hér.