Frá bæjarstjóra

Kæru bæjarbúar.  

Nú þegar létt er á samkomubanni er ástæða til að staldra aðeins við. Ég hvet ykkur til þess að kynna ykkur vel hvað þetta þýðir í raun. Það er fátt sem breytist; íþróttahús, sundhöll og skólar hefja starfsemi en opnun fyrir almenning bíður betri tíma. Bókasafn hefur hins vegar verið opnað og eru bæjarbúar hvattir til að nýta sér það. Fundir bæjarstjórnar, ráða og nefnda verða áfram í fjarfundi um hríð,  tveggja metra bilið verður áfram í gildi og samkomur mega ekki vera stærri en 50 manns í einu. 

Ég bið ykkur að virða þessar takmarkanir eftir fremsta megni. 

Bæjarskrifstofan verður áfram lokuð fyrir almenningi en hægt er að senda tölvupóst á sfk@sfk.is og hringja í 470-2300.  

Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur öllum fyrir að taka þátt í þessu einstaka og fordæmalausa verkefni af æðruleysi og með samkennd. 

Um þessar mundir er glíman við efnahagsvandann sem COVID hefur skapað helsta áskorunin. Það er fyrir séð að tekjutap verður talsvert á höfninni og samdráttur er í framlögum jöfnunarsjóðs og útsvarstekjum til sveitarfélagsins. Stefnan er að halda atvinnustarfsemi og þjónustustigi eins óskertu og okkur frekast er unnt. Nú leitum við allra leiða til að bregðast við aðsteðjandi vanda og að verjast. 

Samtakamáttur skiptir afar miklu máli fyrir okkar litla samfélag. Stuðningur við fjölskyldur og einstaklinga er mikilvægur, að líta til nágrannans og rétta hjálparhönd skiptir miklu máli. Eldri borgarar, erlendu íbúarnir okkar og bændur í sauðburði þurfa athygli okkar og umhyggju. 

Höldum áfram á þessari góðu vegferð, við höfum verið einstaklega heppin með það að ekki hafi komið upp smit. Þannig skulum við halda því áfram. 

Að lokum vil ég hvetja ykkur sem á þurfið að halda að hafa hiklaust samband við okkur í gegnum tölvupóst eða með því að hringja. 

 

Njótið dagsins.

- Bæjarstjóri -