Frá lögreglunni

Skilaboð

Bjartar sumarnætur, ilmurinn af nýslegnu grasi, börnin úti að leika sér, grill, útilegur, bæjarhátíðir, langir dagar og stuttar nætur. Við elskum íslenska sumarið. Rútínan verður minni og frelsið tekur við. Það er frábært. En þótt frelsið sé yndislegt þá fríar það okkur ekki allri ábyrgð. Við berum til dæmis áfram ábyrgð á börnunum okkar og unglingum. Þótt skólinn sé farinn í sumarfrí þá skiptir ennþá jafn miklu máli að við vitum hvar unglingurinn okkar er. Með hverjum hann er. Hvað hann er að gera.

Þegar daginn fer að lengja og skólar fara í frí, slakar gjarnan á taumhaldi foreldra. Því fylgir viss áhætta. Rannsóknir sýna okkur að sumarið er áhættutími í lífi ungmenna. Margir unglingar byrja í fyrsta sinn að neyta áfengis og vímuefna á sumrin og líkurnar á því að unglingar leiti út á áður ókönnuð svæði aukast. Því skiptir miklu máli skiptir að foreldrar haldi vöku sinni og haldi vel utan um unglingana sína.

Slagsmál ungmenna er áhættuhegðun sem við hjá lögreglunni höfum töluverðar áhyggjur af enda hafa rannsóknir sýnt að ofbeldismenning er útbreidd meðal ungmenna á Íslandi. Síðustu misseri hafa sprottið upp síður á samfélagsmiðlum sem sýna ungmenni jafnvel í  grófum slagsmálum á meðan aðrir standa aðgerðarlausir í kring eða hvetja þau til dáða. Þátttakendur í þessu eru bæði strákar og stelpur, oftast unglingar á grunnskólaaldri. Í þessum slagsmálum eru endurtekin högg og spörk í höfuð og búk andstæðingsins algeng, sem augljóslega skapar mikla hættu fyrir þann sem fyrir verður. Því miður höfum við dæmi um að líkamsárásir af þessu tagi hafi haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, bæði fyrir þolendur og gerendur.

Lögreglan vill hvetja foreldra og forráðamenn til að vera vakandi yfir slíkri hegðun. Ræðið við unglinginn ykkar um þessi mál. Ræðið við þau um þá ábyrgð sem fylgir því að taka þátt í svona atburðum og hættuna sem því fylgir. Ræðið þá ábyrgð að hafa jafnvel bara verið á staðnum sem áhorfandi ef eitthvað alvarlegt myndi gerast. Hvetjið þau til að taka alls ekki þátt í slagsmálum, fylgja ekki ofbeldissíðum, horfa ekki á slagsmálamyndbönd á samfélagsmiðlum og alls ekki taka þau upp eða dreifa þeim. Ef þau verða vör við eða frétta af svona slagsmálum er réttast af þeim að ganga í burtu og láta lögreglu vita í 112. Það gæti jafnvel bjargað mannslífi.

Lögreglan hefur markvisst verið að skoða ofbeldismyndbönd á netinu undanfarið og mun halda áfram að vakta þessa hegðun. Við þurfum að snúa við því útbreidda viðhorfi meðal ungmenna að líkamsárásir sem þessar séu eðlileg og jafnvel eftirsóknarverð hegðun. Þetta verk hvílir ekki bara á herðum  lögreglunnar. Við þurfum að takast á við þetta verkefni saman. Það er íslenska módelið í forvörnum. Við erum nefnilega öll forvarnir.