Samfélagsverkefni með stóru S-i

Heimasaumaðir fjölnotapokar
Anna Guðbjörg að skila fyrstu pokunum í Kjörbúðina, júní 2017.
Anna Guðbjörg að skila fyrstu pokunum í Kjörbúðina, júní 2017.

Algjörlega frábært samfélagsverkefni hefur verið í gangi á Seyðisfirði núna í tæpt ár, en það er "margnotapoka verkefnið". Það hófst í raun formlega þann 21. júní 2017 þegar Anna Guðbjörg Sigmarsdóttir fór með 30 heimasaumaða taupoka í Kjörbúðina. Verkefnið, sem er sjálfbært, hefur verið í gangi síðan þá og hafa fjölmargir komið að því, með ýmsu móti. Til að byrja með var einnig hægt að bjóða upp á fría aðstöðu í Herðubreið þar sem hist var og saumað. 

Samkvæmt forsprakkanum og saumakonunni Önnu Guðbjörgu er draumurinn að koma upp varanlegri aðstöðu með saumavélum, þar sem hægt er að geyma allt sem þarf til að sauma pokana. Þannig að hver og einn geti komið þegar hentar og sniðið eða saumað. Þeir sem ekki treysta sér til að sauma geta veitt mikla aðstoð með því að koma og sníða í pokana.

En til að halda verkefninu lifandi þarf fólk að vera duglegt að skila pokum í Kjörbúðina. Hins vegar er vert að minna á að allar breytingar taka tíma og það tekur tíma að venja sig á nýja siði. En ­­því oftar sem fólk notar taupoka í stað plastpoka, þeim mun tamara verður fólki að velja á milli. Bæjarbúar mega einnig alveg hnippa góðlátlega hvert í annað og minna á að skila pokum en alltaf á jákvæðum nótum, því þessu verkefni er alls ekki ætlað að verða að neikvæðu nöldri.

Leiðin að plastpokalausu samfélagi mun taka tíma, en tekst vonandi á endanum. Gaman er að geta þess að verkefnið skorar hátt í heilsueflandi samfélagi. Einnig er verkefnið algjörlega frábært dæmi um mátt samfélagsins og samvinnu samfélagsþegna sem láta sig málin varða.

Mikið af upplýsingum um plast má fá á vef Umhverfisstofnunar.

hsam