Fréttatilkynning

Gatnagerðargjöld felld niður tímabundið

Bæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar samþykkti á fundi sínum 06.06.2019 að fella tímabundið niður gatnagerðargjöld af tilbúnum lóðum.

Skortur á íbúðarhúsnæði í Seyðisfjarðarkaupstað og talsvert framboð af tilbúnum lóðum til byggingaframkvæmda er ástæða þessa tímabundna verkefnis. Það er von bæjarstjórnar að það ýti undir nýbyggingar íbúðahúsnæðis í bænum. Eins og kemur fram í meðfylgjandi reglum eru gatnagerðargjöldin tímabundið felld niður og gildir í 12 mánuði.

Einnig má geta þess að nýverið voru birtar niðurstöður úr húsnæðiskönnun sem gerð var meðal íbúa í bænum þar kemur fram talsverð þörf á íbúðahúsnæði. Íbúðalánasjóður tilnefndi Seyðisfjarðarkaupstað sem eitt af tilraunasveitarfélagögunum og bindur bæjarstjórn vonir við að það verkefni muni jafnframt ýta undir nýbyggingar í bænum. Þær lausnir sem íbúðalánasjóður mun koma með til stuðnings nýbygginga hafa ekki enn litið dagsins ljós en þær hugmyndir sem hafa verið viðraðar lofa góðu.