FRISBÍGOLF á Seyðisfirði

Seyðfirðingar hvattir til að prófa
Hér sjást Gunnar Sveinn og Dagný Erla, ásamt hluta af aðstoðarfólkinu.
Hér sjást Gunnar Sveinn og Dagný Erla, ásamt hluta af aðstoðarfólkinu.

Frisbí-golf er skemmtileg almenningsíþrótt sem nýtur sívaxandi vinsælda á Íslandi. Leikið er á svipaðan hátt og venjulegt golf, en í stað golfkylfa nota menn frisbídiska. Folfdisknum er kastað frá teigsvæði í átt að körfu sem er „holan“. Hér má lesa sér nánar til um íþróttina.

Atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúi hefur unnið að því að leita leiða til að fjármagna slíkan völl og nú í haust tókst ætlunarverkið og pantaðar voru 6 körfur frá Fuzz frisbígolfverslun. Fyrsta sunnudaginn í nóvember var ákveðið að setja völlinn upp og leiddi Gunnar Sveinn Rúnarsson þá vinnu. Kallað var eftir aðstoð frá bæjarbúum með stuttum fyrirvara og mættu vaskir menn snemma morguns í snjó og kulda að hjálpa til. Þeim eru hjálpuðu til eru færðar kærar þakkir fyrir, það er ómetanlegt að finna stuðning í verki og samstöðu frá bæjarbúum.

Völlurinn er staðsettur á útisvæðinu hjá Dagmálalæknum. Brautirnar eru meðal annars inn á milli trjánna, en einnig við útikennslustofuna og hjá skólagörðunum. Það á eftir að merkja völlinn og brautirnar, en það verður gert þegar snjóa leysir í vor. Stefnt er að því að halda námskeið fyrir áhugasama og mun kaupstaðurinn kaupa nokkra frisbídiska, sem hægt er að fá lánaða eða leigða ef fólk vill prófa. Það verður auglýst nánar síðar.

Ef vel tekst til þá er ekki útilokað að kaupa fleiri körfur og jafnvel setja þær á annan stað, jafnvel nær bænum. Allar ábendingar og hugmyndir eru vel þegnar og mega berast til atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúa, dagny@sfk.is.

Seyðfirðingar eru hér með eindregið hvattir til að kynna sér frisbí-golf íþróttina og taka einn hring á vellinum, í fallegu umhverfi og náttúru.

hsam