Hótel- og vetrartúrismi

Uppbyggingaráform á Seyðisfirði

Undirbúningur að byggingu heilsárs hótels á Seyðisfirði hefur nú staðið yfir í um tvö ár. Aðstandendur verkefnisins eru eigendur Langatanga 7 og þau Símon Ólafsson byggingaverkfræðingur og Anna Salska arkitekt. En þau eiga og reka arkitektafyrirtækið Kubbafabrikkuna, sem hefur yfirumsjón með allri hönnun. Hugmyndin gengur út á það að breyta Tunnuskemmunni (Langatanga 7) ásamt viðbyggingu í 2300 m2 hótel með 42  herbergjum og þremur svítum, veitingastað og spa. Um þessar mundir er unnið að því að finna fjárfesta en því miður bíða þeir ekki í röðum eftir að fjárfesta á landsbyggðinni. Verkefnið hefur gott vilyrði frá lánastofnun ef fjárfestar koma að verkefninu. Hótelið mun skapa allt að 14 heilsársstörf og 24 hálfsársstörf þegar það verður komið í fulla virkni.

Samhliða verkefninu hefur Aðalheiður Borgþórsdóttir stýrt klasa með lykilfólki í ferðaþjónustu á Seyðisfirði og Egilsstöðum. Klasinn hefur unnið að vöruþróun á vetrarferðaþjónustu með það að markmiði að markaðssetja Veturinn á Austurlandi. Það er forsendan fyrir því að hægt verði að reka heilsárshótel af þessari stærðargráðu á Seyðisfirði. Nú þegar hefur ein ferðaskrifstofa tekið vetrarpakka í sölu. Vefurinn www.onestopshop.is er gagnagrunnur verkefnisins, en þar má meðal annars sjá þá vetrarpakka sem verið er að markaðssetja um þessar mundir.

Hótel- og vetrartúrismi