Húsahitun

Til upplýsinga

Þann 14. nóvember hittist atvinnu- og framtíðarmálanefnd ásamt hópnum sem starfar með nefndinni um lausn húshitunarmála ásamt Guðmundi Davíðssyni, framkvæmdastjóra Hitaveitu Egilsstaða og Fella og Birni Ingimarssyni, bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs. Á fundinum var rætt um möguleika á samstarfi við Hitaveitu Egilsstaða og Fella, mögulegar leiðir og lausnir.

Mánudaginn 27. nóvember hittist hópurinn á vinnufundi ásamt Vilhjálmi bæjarstjóra sem hafði verið í sambandi við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Í ráðuneytinu var ákveðið að stofna teymi sem myndi meta stöðuna á Seyðisfirði og fara yfir hvaða aðilar væru best til þess fallnir að fara yfir miðlægar lausnir fyrir húshitun út frá tæknilegum og rekstrarlegum forsendum. Í teyminu eru Ingvi Már Pálsson, Hreinn Hrafnkelsson og Sveinn Þorgrímsson frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og fulltrúar frá Orkumálastofnun og Nýsköpunarmiðstöð. Vilhjálmur Jónsson mun vera tengiliður frá Seyðisfjarðarkaupstað við teymið. Mikilvægt er fyrir Seyðfirðinga að fá óháð mat á því hvað er hagkvæmast, að fá kosti og galla í hverri lausn fyrir sig og mögulegt orkuverð. Reynt verður að hraða fyrirhuguðum athugunum og ráðgert að kynna niðurstöðu hennar á íbúafundi.