Lions selur garðbekki

Viltu kaupa garðbekk í góðgerðarskyni?

Í tilefni af 100 ára afmæli Lionshreyfingarinnar í heiminum var ákveðið að gera eitthvað táknrænt. Lionsklúbbur Seyðisfjarðar valdi að bjóða til sölu vandaða garðbekki. 

Fimm bekkir hafa þegar verið seldir. Tveir voru seldir í Neskaupsstað, einn til Skóræktarfélagsins og verður sá bekkur staðsettur innst á Múlavegi. Einn bekkur var seldur Þorvaldi Jóhannssyni, sá bekkur verður staðsettur við Golfskálann. Einn bekkur var seldur Bóasi Eðvaldssyni, sá bekkur verður staðsettur við Norðursíld. HSSA ætlar að kaupa einn bekk og staðsetja hann fyrir utan hjúkrunardeildina Fossahlíð og einnig ætlar Gönguklúbbur Seyðisfjarðar að kaupa einn bekk, sem eftir á að ákveða staðsetningu á.

Bekkirnir eru u.þ.b.100 kg að þyngd og því engin hætta á að þeir fjúki. Timbrið í þeim er alveg viðhaldsfrítt og hver bekkur kostar 150.000 krónur. Hægt er að hafa samband við Snorra Jónsson, sími 864-4242, til að kaupa bekk. Ágóði sölunnar fer að lang mestu leyti í verkefni í heimabyggð, meðal annars í hjúkrunardeildina Fossahlíð, sjúkrahúsið og ýmis önnur verkefni hér í bæ. Einnig hefur klúbburinn tekið þátt í jólaaðstoð kirkjunnar á Austurlandi.

Til gamans má geta þess að í fyrsta sinn síðan Lions var stofnað verður kona forseti hreyfingarinnar á heimsvísu árið 2019 og sú kona er íslensk. Fyrir um það bil 10 árum var ákveðið að reyna að efla þátttöku kvenna í Lions, og jafna kynjahlutfallið, en ekki tókst betur til en það að í dag eru aðeins u.þ.b. 30% meðlima konur. 

Lionsklúbbur Seyðisfjarðar vonast eftir góðri þátttöku í garðbekkjasölunni og vill einnig nota tækifærið og bjóða kvenfólk sérstaklega velkomið í klúbbinn!