Til hamingju!

Eyrarrósin 2019

Í gær, þriðjudaginn 12. febrúar, hlaut listahátíðin List í ljósi Eyrarrósina 2019, en Eyrarrósin er veitt árlega fyrir afburða menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins.

Síðan árið 2016 hefur listahátíðin List í ljósi verið haldin á Seyðisfirði. Um er að ræða hátíð sem umbreytir Seyðisfjarðarbæ í ljóslifandi kraumandi suðupott vel skipulagðra listviðburða, innlendra og erlendra listamanna. Hátíðin er alltaf haldin í febrúar vegna endurkomu sólarinnar í bæinn eftir þriggja mánaða fjarveru. 

Í umsögn dómnefndar segir að listahátíðinni hafi vaxið ásmegin ár frá ári. „[Hátíðin] laðar nú að sér breiðan hóp listafólks og gesta til þátttöku í metnaðarfullri og fjölbreyttri dagskrá...Sérstök ljósalistahátíð er nýnæmi í íslensku menningarlandslagi og er List í ljósi þegar farin að hafa áhrif langt út fyrir Seyðisfjörð, til að mynda með áhugaverðu samstarfi við Vetrarhátíð í Reykjavík. Það er einstaklega ánægjulegt að sjá listaverkefni á landsbyggðinni taka leiðandi hlutverk á landsvísu á sínu sviði. “

Aðstandendum List í ljósi er óskað innilega til hamingju með verðskuldaðan árangur. Þessi verðlaun minnka síst spenninginn fyrir komandi helgi, en hátíðin hefst næst komandi föstudag. Meira um hátíðina má sjá hér.

Gaman er að geta þess að List í ljósi er þriðja verkefnið frá Seyðisfirði sem hlýtur Eyrarrósina. En áður hafa bæði LungA, Listahátíð ungs fólks og Skaftfell, menningarmiðstöð hlotið rósina.

Upplýsingar fengnar á vef RÚV