Lög um lýðskóla samþykkt

Tryggur tilverugrundvöllur til framtíðar!
Nemendahópur, ásamt skólastjórum skólans, eina önnina. Seyðisfjörður í baksýn.
Nemendahópur, ásamt skólastjórum skólans, eina önnina. Seyðisfjörður í baksýn.

Þar til í gær, þriðjudaginn 11. júní, var engin löggjöf til á Íslandi um málefni lýðskóla. Tveir lýðháskólar hafa þó starfað á Íslandi síðustu ár, en þeir skulu nú samkvæmt nýrri löggjöf heita lýðskólar. Skólarnir sem um ræðir eru LungA-Skólinn á Seyðisfirði og Lýðháskólinn á Flateyri. Einnig eru áform um að setja á fót lýðskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni. Lagafrumvarpið var samþykkt samhljóða á Alþingi í gær.

Lunga-skólinn á Seyðisfirði er fyrsti listalýðskólinn á Íslandi. Hann var stofnaður árið 2013 og eins og skólinn á Flateyri hefur hann reitt sig á sjálfaflað fé, styrki og góðvild samfélagsins, segir Jonatan Jensen, skólastjóri og einn af stofnendum skólans. Í Lunga-skólanum er kennt á ensku og nemendur koma víða að. Skólinn hefur því leitað styrkja út fyrir landsteinana. Jonatan fagnar nýjum lögum og segir stærstu breytinguna líklega felast í því að nú verði hægt að skipuleggja starf skólans til framtíðar í stað eins árs í einu. Hann segir að sér sé létt og um leið sé hann spenntur yfir því að búið sé að festa í sessi þetta nýja og þarfa menntastig í landinu sem reynist  vel fyrir bæði nemendur og samfélag.

LungA smiðja

Mynd af nemanda á LungA hátíð. Smiðja sem stjórnað var núverandi skólastjórum LungA-Skólans.

Lýðskólunum tveimur og stjórnendum þeirra er óskað innilega til hamingju með löggjöfina, en hún mun breyta miklu fyrir skólana í framtíðinni.

Frétt fengin af vef ruv.is