LungA aflýst
Listasmiðjum og stórtónleikum LungA hefur verið aflýst.
„Ástæðan er einföld, við getum ekki borið ábyrgð á því að stefna jafn mörgum saman og vanalega sækja hátíðina heim. Þótt Covid 19 hafi ekki enn komið upp á Seyðisfirði viljum við ekki hætta á slíkt með því að stefna saman stórum hópi í nafni listarinnar.“
Þar fyrir utan sé hvorki hægt að bjóða upp á gistingu né listasmiðjur svo það sé fjárhagslega sjálfbært á meðan tveggja metra reglunnar njóti við.
Ekki sé hægt að halda listamönnum og birgjum í óvissu lengur, auk þess sem fjártapið yrði hátíðinni endanlega að falli ef aflýsa þyrfti á síðustu stundu, „nógu þungur er róðurinn“.
Afmælisvarningur í væntanlegri netverslun
„Við munum þó reyna eftir fremsta megni að þjóna listinni og halda minni viðburði í júlímánuði fyrir Seyðfirðinga og gesti bæjarins. Þar fyrir utan munum við nýta okkur möguleikana sem netið býður upp á og erum að skipuleggja opið gallerí á veraldarvefnum. Auk þess munum við gefa út 20 ára afmælisbók LungA og afmælisvarning sem hægt verður að kaupa í væntanlegri vefverslun hátíðarinnar.“
Þeir sem hafa nú þegar keypt miða á hátíðina eru sagðir geta fengið endurgreitt eða fært miðann yfir á næsta ár ef haft er samband við tix.is.
„Eðli málsins samkvæmt er þetta gríðarlegt áfall fyrir okkur, enda mikil vinna og tilhlökkun að baki, en í ljósi aðstæðna bregðumst við við þessari fordæmalausu stöðu og snúum aftur tvíefld á næsta ári.“