Niðurstaða bæjarstjórnar á fundi 18. október 2017

Húsahitun

„Í tilefni af því að RARIK ohf. hefur tilkynnt lokun Hitaveitu Seyðisfjarðar eftir tvö ár, samþykkir Bæjarstjórn Seyðisfjarðar að fela atvinnu - og framtíðarmálanefnd  að meta þá stöðu sem upp er komin í húshitunarmálum í Seyðisfjarðarkaupstað. Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að með nefndinni starfi að málinu hópur sem veitt geti breiðari sýn á stöðu, áhrif, kosti,galla og áhættur mögulegra lausna.

Hópurinn verði skipaður eftirfarandi aðilum: Elfu Hlín Pétursdóttur, Unnari Sveinlaugssyni, Páli Guðjónssyni, Vilborgu Borgþórsdóttur, Cecil Haraldssyni og Ólafi Birgissyni. Auk atvinnu- menningar -og íþróttafulltrúa starfi bæjarstjóri með nefndinni og hópnum að málinu.

Bæjarstjórn samþykkir vegna undirbúnings málsins að fela bæjarstjóra að ræða við og afla upplýsinga frá Orkustofnun, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og RARIK ohf., einnig starfsmanni Austurbrúar sem starfar að orkuskiptum og Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum.

Bæjarstjórn samþykkir að bjóða fulltrúum Fljótsdalshéraðs til fundar um stöðu málsins með hliðsjón af fyrri samskiptum um mögulega lagningu hitaveitu frá Fljótsdalshéraði til Seyðisfjarðar um Fjarðarheiðargöng.”

 

Greinargerð:

  • RARIK hefur fyrir sína hönd boðið kostnaðarþátttöku við að koma upp hitakút hjá þeim sem vilja halda áfram að nýta vatnshitakerfi húsa sinna, þegar farið er í beina rafhitun.
  • Til viðbótar hefur Orkusetur, boðið styrki til þeirra sem vilja þar að auki lækka húshitunarkostnað sinn með því að setja upp varmadælu í einhverju formi. Ljóst er að þar er um þó nokkra kosti að ræða.
  • Á almennum borgarafundi sem RARIK boðaði til mátti greina vilja hjá sumum fundarmanna til að miðlæg hitaveita yrði áfram í rekstri í kaupstaðnum.
  • Verkefni hópsins er að meta þá kosti sem fyrir hendi eru, þar á meðal hvort grundvöllur er fyrir rekstri hitaveitu, sem myndi geta þjónað húshitun á viðráðanlegu verði fyrir bæjarbúa. Ef slíkur kostur er talinn raunhæfur verði kannaður vilji bæjarbúa og fyrirtækja í bænum til að skuldbinda sig í viðskipti við slíka veitu.
  • Reynist slíkur kostur álitlegur að mati hópsins er eðlilegt að bæjarstjórn leiti leiða til að stofna slíka veitu í eigin nafni eða í samstarfi við önnur orkufyrirtæki.
  • Verði miðlæg hitaveita ekki talinn fær kostur, leggi hópurinn fram tillögur um annars vegar hvernig sveitarfélagið geti komið að ráðgjafavinnu fyrir íbúana fyrir væntanleg orkuskipti. Hins vegar meti hópurinn með hvaða hætti sé hægt að standa að sameiginlegum innkaupum í því skyni að ná sem hagkvæmustum verðum á hitakútum og varmaskiptum.

 

Sjá fundargerð bæjartjórnar hér.