Opnar í lok júní
Gaman er að segja frá því að bensínstöðin við Austurveg mun opna í lok júní. Jonathan Moto og Ida Feltendal munu reka stöðina. Áætlun þeirra til að byrja með er að bjóða upp á kaffi, kökur og mögulega morgunverð, ásamt almennum viðhaldsvörum fyrir bifreiðar, gaskúta fyrir grillið og fleira.
Framtíðarplön þeirra eru svo að bjóða upp á nýja hluti, en ekki það sem fólk myndi kalla "týpíska" vegasjoppu. Þau munu halda áfram að nýta staðinn sem bækistöð til að sækja ávaxta- og grænmetiskassa frá Austurlands Food coop, sölu á súrdeigsbrauðum og hugsanlega annars konar þurrvörum (baunir, hrísgrjón oþh).
Einnig vilja þau bjóða upp á stað þar sem fólk getur komið og haft það huggulegt með prjónana sína, fengið sér kaffibolla og lesið blöðin, unnið á tölvuna eða bara sest niður og lesið bók eða vafrað um internetið. Börnin verða mjög velkomin, en þau fá sér leikpláss. Með tíð og tíma vonast þau einnig eftir því að geta boðið upp á eins konar veisluþjónustu og aðstöðu fyrir "workshop".
Þau hjónin hafa fullt af alls konar hugmyndum. Þau þiggja allar góðar hugmyndir og ráð frá íbúum, en einnig væri kærkomið að fá hjálparhendur við að koma staðnum í opnunarhæft ástand. Næstu daga verða þau á staðnum að mála og gera huggulegt.
Þau hvetja íbúa til að koma og kíkja við - allir eru velkomnir og þau vilja gjarnan ræða málin.