Ótrúleg björgun

Kom hljóðið frá manneskju eða fugli?

Athygli hefur vakið ótrúleg björgun á ungri svissneskri konu, sem lenti í alvarlegu slysi í fjallgöngu sinni við Bjólf í vikunni. Á vef rúv má sjá viðtal og frétt, en þar segir meðal annars þetta :

"Eftirtekt og árvekni Jóhanns Sveinbjörnssonar, kylfings á níræðisaldri, kann að hafa bjargað lífi ungrar konu sem féll tugi metra í brattri fjallshlíð fyrir ofan golfvöllinn á Seyðisfirði í gærkvöld. Konan lá slösuð og bjargarlaus í hlíðinni þegar kylfingurinn heyrði hjálparköll frá henni. Hún er mikið slösuð.

Þegar björgunarsveit kom loks að konunni, sem er rúmlega tvítug og frá Sviss, lá hún slösuð og mjög kvalin á bakinu og með höfuðið á undan í brattri hlíðinni.

Kallað var á þyrlulið frá Landhelgisgæslunni en því snúið við því björgunarmenn þorðu ekki að láta konuna bíða lengur í hlíðinni. Hún var því borin niður með erfiðismunum og svo flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur.

Bjarki Borgþórsson, lögregluþjónn, hefur kannað aðstæður. Í fjallinu fann hann ýmsar föggur konunnar sem hún hafði misst þegar hún steyptist niður fjallið. Þannig gat hann rakið sig upp eftir hlíðinni og reynt að áætla hvaðan konan féll. Fallið reyndist mun lengra en björgunarmenn héldu. Bjarki áætlar gróflega að leiðin sem hún fór niður hlíðina sé um 50 metrar, og fallið, hæðarmunurinn, um 20 metrar."

 

Það er löngu vitað að Seyðisfjarðarkaupstaður býr vel þegar horft er til björgunarsveitarinnar Ísólfs og þeirra sem þar koma að málum. Í þessu tilviki er einnig um að ræða afar eftirtektarsaman bæjarbúa, Jóhann Sveinbjörnsson, sem kallar til lögregluaðstoðar. Mjög glöggt dæmi um hve gott er að hafa starfandi lögregluþjón í bænum. Seyðisfjarðarkaupstaður er afar stoltur af sínu fólki og vill koma þökkum á framfæri til allra þeirra sem tóku þátt í þessu frábæra björgunarstarfi og vonar að konunni muni heilsast sem allra best.