Páskakanínan 2019

Samvinnuverkefni

Páskakanínan 2019 fór fram í gær, miðvikudaginn 3. apríl, í mjög fallegu veðri. Páskakanínan er samvinnuverkefni milli kirkjunnar, foreldrafélags grunnskóladeildar, forvarnarfulltrúa, heilsueflandi samfélags og félagsmiðstöðvarinnar.

Þátttakan var eins og venjulega mjög góð og unga fólkið alls staðar sér og sínum til sóma. Markmið leiksins er ávallt að efla hópandann og kenna samvinnu og jákvæðni.

Stjórnendur vilja gjarnan þakka þeim er aðstoðuðu við þrautirnar kærlega fyrir hjálpina. Það voru Sævar í Stálstjörnum sem lét börnin skipta um ljósaperu í bíl, Gerda í Kjörbúðinni sem bað hópana að versla hollan kvöldmat fyrir þrjá fyrir ákveðna upphæð, Svandís skólastjóri sem lét þau föndra, Margrét sem lét þau búa um rúm í Við Lónið, Dagný Erla sem var með þrauta- og samvinnubraut í íþróttahúsinu, Sesselja sem var með föndur- og ritsmiðju og Sigga Rún sem var með þrautir í kirkjunni.

Einnig fá starfsmenn íþróttahúss og aðrir Seyðfirðingar sem hjálpuðu krökkunum í þrautunum góðar þakkir, en í sumum þrautunum þurftu börnin að leita aðstoðar heimamanna. Sérstakar þakkir fá Skaftfell bistró sem gaf öllum börnum pizzur í lokin og Brimberg fyrir að gefa páskaegg í verðlaun.

hsam