Fjarðarheiðargöng fyrst í nýrri áætlun

14. ágúst 2019 markar þáttaskil

Verkefnishópur skipaður af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur skilað af sér skýrslu um Seyðisfjarðargöng. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra boðaði til fundar á Hótel Héraði, Egilsstöðum í gær 14. ágúst 2019 þar sem hann kynnti skýrsluna meðal annars.

14. ágúst 2019 markar þáttaskil í baráttu Seyðfirðinga fyrir göngum undir Fjarðarheiði og eru bæjarbúar hvattir til þess að leggja þessa dagsetningu á minnið. Baráttan hefur staðið yfir síðan í mars 1975 rifjaði Þorvaldur Jóhannsson upp á fundinum á Egilsstöðum í gær. Það eru 44 ár ef mér telst rétt til. Það er langur tími og við þurfum að bíða eitthvað ennþá eftir því að geta ekið í gegnum göngin.

Það er þó þannig að nú liggur leiðarvalið fyrir og ráðherra tilkynnti það á fundinum að næstu göng yrðu Fjarðarheiðargöng. Fyrst í nýrri áætlun um gangagerð sem hann leggur fram á þinginu nú í haust. Þegar Dýrafjarðargöngum lýkur mun verða hafist handa við hönnun á Fjarðarheiðargöngum og beint í framhaldinu verður farið með verkið í útboð og svo í framkvæmd segir ráðherra. 

Önnur stórfrétt dagsins er að ráðherra tilkynnti einnig að lagt væri til að gerð yrðu göng til Mjóafjarðar og svo þaðan til Norðfjarðar. Það er mikið framfararspor fyrir samfélagið á Austurland og mun gjörbreyta búsetuskilyrðum fyrir okkur sem búum hér í fjalllendi Austurlands, til hins betra.

Gróflega áætlaður kostnaður eru 64 milljarðar. Það eru vissulega miklir peningar, hér er um brúttó fjárhæð að ræða sem dreifist á nokkur ár. Talsvert af þessum fjármunum mun skila sér aftur í ríkiskassann í formi allskyns skatta eins og lög gera ráð fyrir. Áætlað er að farin verði blönduð leið í fjármögnun á verkefninu, það er með veggjöldum og ríkisframlagi í bland.

Á fundinum ríkti mikil bjartsýni og gleðilegt að upplifa það að þarna fengu Seyðfirðingar loksins uppfyllta von um úrbætur á samgönguvanda þeim sem staðið hefur bænum fyrir þrifum svo allt of lengi. Að varnarbaráttunni væri ef til vill brátt lokið og alvöru uppbygging gæti hafist eru stórkostlegar fréttir. Björninn er þó ekki unninn og sannarlega ekki tími kominn til að halda uppskeruhátíð. En það hefur kviknað raunveruleg von. Ég vil trúa ráðherra þegar hann segir við fullan sal af fólki, mest skipaður Seyðfirðingum, að þetta sé raunverulegur möguleiki.  

Eins og nefnt var í upphafi þessarar tilkynningar þá lagði ráðherra fram skýrslu sem verkefnishópur um leiðarval vann á síðast liðnum tveimur árum. Á vef Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins er að finna umrædda skýrslu og hvet ég fólk til að lesa hana.

 

Undirrituð afhenti ráðherra undirritaða áskorun frá íbúum á Seyðisfirði, í Fellabæ og á Egilsstöðum. Það söfnuðust 1800 undirskriftir á aðeins einni viku. Það er að mínu mati fyrst og fremst táknrænn gjörningur og sýnir að göngin eru ekki bara fyrir seyðfirðinga.

 

Að lokum vil ég þakka ráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni og öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóginn í þessari 44 ára baráttu, fyrir sitt framlag í baráttuna. Þið hin vitið hver þið eruð. Baráttan heldur áfram, en nú höfum við aðeins meiri byr í seglunum að mínu mati.

 

Bæjarstjóri.