Sviðslistaverkið Skarfur

Frumsýnt í Herðubreið 7. febrúar 2020
Hjónin Katla Rut og Kolbeinn, sem skipa Lið fyrir Lið.
Hjónin Katla Rut og Kolbeinn, sem skipa Lið fyrir Lið.

Sviðslistaverkið Skarfur, sem á að frumsýna í Herðubreið þann 7. febrúar, er afar áhugavert verk. Verkið verður eins og áður segir frumsýnt á Seyðisfirði og verða sýndar tvær sýningar í Herðubreið áður en verkið flyst suður, þar sem það verður sýnt í Þjóðleikhúsinu. Að neðan má lesa nánar um verkið og fyrirtækið Lið fyrir Lið.

Sviðslistafélagið Lið fyrir Lið var stofnað af hjónunum Kötlu Rut Pétursdóttur og Kolbeini Arnbjörnssyni. Gamall draumur um að stofna leikfélag, reka saman og skapa rættist þegar þau fluttu til Seyðisfjarðar. En hvað er Skarfur? Skarfur er sérstakur sjófugl, ættkvísl fugla af skarfaætt, þrjótur, óþokki eða slæpingi en einnig er það heitið á sviðslistaverkinu.

Verkið er ferðalag frá skynjun til sköpunar þar sem náttúran í manninum og maðurinn í náttúrunni eru höfð að leiðarljósi. Flytjandi er Kolbeinn Arnbjörnsson, en leikstjóri er Pétur Ármansson fellbæingur, leikstjóri og nýráðinn dramatúrg við Borgarleikhúsið. Hljóðheimur er í höndum Benna Hemm Hemm, sem Seyðfirðingar þekkja mjög vel.

Æfingar fara fram í Herðubreið og eiga stýrur Herðubreiðar, Lungaskólastjórar, leikfélag Seyðisfjarðar og Seyðisfjarðarkaupstaður miklar þakkir skilið. Slíkur samtakamáttur og hjálpsemi er ekki sjálfgefið samkvæmt þeim hjónum.

Tvö ný verkefni eru í mótun hjá Lið fyrir Lið, svo Seyðfirðingar eiga von á góðu frá félaginu í framtíðinni. Þau hjónin eru einnig opin fyrir allskonar samstarfi og alltaf til í kaffibolla og spjall.