Það þarf heilt þorp
Tvo skemmtilega og fróðlega þætti um Listahátíðina LungA, sem hóf göngu sína árið 2000, má nú finna inni á ruv.is. Þættirnir varpa ljósi á fæðingu og þróun hátíðarinnar og listasmiðjanna sem ætíð hafa verið kjarni hennar. Einnig er vikið að öðrum sérkennum hátíðarinnar; sterkum tengslum við Seyðisfjörð og Austurland og metnaðarfullri tónleikadagskrá auk ýmissa áskoranna sem aðstandendur hátíðarinnar hafa glímt við í gegnum árin.
Vegna samkomutakmarkanna á Íslandi verður hátíðin því miður ekki haldin í sumar, en stefnt er á að hátíðin fari fram með óbreyttum hætti sumarið 2021.
"Tuttugu ár eru síðan listahátíðinni LungA var hleypt af stokkunum á Seyðisfirði. Í tveimur þáttum segja stofnendur og aðstandendur sögu hátíðarinnar og draga upp mynd af því hvernig LungA hefur þróast úr fáeinum listasmiðjum við aldamót í listahátíð á heimsmælikvarða. Rætt er við Aðalheiði Borgþórsdóttur, Björt Sigfinnsdóttur, Godd (Guðmund Odd Magnússon), Ívar Pétur Kjartansson, Halldóru Malin Pétursdóttur og Jonathan Spejlborg Juelsbo."