Tilslökun 25. maí til 21. júní
Tilslökunin tekur gildi 25. maí 2020 gildir til og með 21. júní, en aflétting eða framlenging á henni verður endurmetin af stjórnvöldum.
Í takmörkun á samkomum felst að fjöldasamkomur eru óheimilar til og með 21. júní 2020. Með fjöldasamkomum er átt við þegar fleiri en 200 einstaklingar koma saman, hvort sem er í opinberum rýmum eða einkarýmum. Enn fremur skal tryggt á öllum vinnustöðum og í allri starfsemi að ekki séu á sama tíma fleiri en 200 einstaklingar inni í sama rými, kaffihúsum, og mötuneytum.
Með rými er hér átt við það svæði sem starfsmenn þurfa að nota og ganga um við störf, þ.e. ekki mega fleiri en 200 ganga um sömu salerni, sömu fundaraðstöðu eða kaffistofu. Mögulega er hægt að nota „stundatöflu“ til að skipta í hópa vegna fundaraðstöðu eða kaffistofu ef ekki er hægt að skipta stærri vinnustað í aðskilin rými, en þá þarf að þrífa/sótthreinsa á milli hópa.
Allir einstaklingar eru hvattir til að viðhalda tveggja metra fjarlægð i samskiptum við aðra eftir því sem aðstæður leyfa. Í rýmum sem gert er ráð fyrir að almenningur eigi aðgang að, hvort sem er án skilyrða eða að uppfylltum skilyrðum, svo sem með greiðslu aðgangsgjalda eða vegna vinnusambands, skal leitast við að bjóða einstaklingum að halda 2ja metra fjarlægð frá öðrum eins og kostur er. Þar sem veitt er lögbundin þjónustua eða almenningar á ekki kost á öðru en að mæta skal vera unnt að tryggja þeim sem það kjósa að halda tveggja metra fjarlægð frá öðrum.
Hættustig almannavarna vegna COVID-19 er í gildi og því mikilvægt að hafa í huga að almennar sóttvarnarráðstafanir eru enn í gildi.
Mikilvægt er að leggja áherslu á:
• Að á vinnustöðum og í allri starfsemi sé tryggt að hægt sé að viðhalda 2 metrum á milli einstaklinga eins og kostur er.
• Þrífa skal vinnustaði eins oft og unnt er, sérstaklega algenga snertifleti.
• Aðgangur að sótthreinsandi vökva fyrir hendur sé hafður eins víða og talin er þörf á.
Nánari upplýsingar er að finna á www.covid.is
Virðingarfyllst,
Samhæfingarstöð almannavarna