Uppbyggingarsjóður Austurlands

Hæstu styrkirnir á Seyðisfjörð

Gaman er að segja frá því að nýtt sameiginlegt sveitarfélag á Austurlandi sópar til sín styrkjunum úr Uppbyggingasjóði Austurlands, sem afhentir voru í gær 19. febrúar. Fram kemur í frétt á síðu Austurfréttar að sextíu verkefni deildu með sér 57,8 milljónum króna.

Listahátíðin LungA á Seyðisfirði fær hæsta styrkinn. LungA fær þrjár milljónir króna í sinn hlut en hátíðin heldur upp á tuttugu ára afmæli sitt í ár. Tandraberg og Sinfóníuhljómsveit Austurlands fá samtals 3,5 milljónir í sinn hlut fyrir tvö verkefni 

Séu upphæðirnar greindar nánar, til dæmis eftir svæðum, kemur í ljós að Seyðisfjörður fær mest af einstökum stöðum, 12,7 milljónir eða um fimmtung heildarfjármagnsins. Þar á eftir kemur þéttbýlið á Fljótsdalshéraði með 7,4 milljónir fyrir 14 verkefni, flest allra. Þá fara um sjö milljónir í dreifbýlið á Fljótsdalshéraði til níu verkefna.

Styrkþegum er öllum óskað innilega til hamingju með styrkina og velgengni sína.