Verum allsgáð og sýnum ábyrgð

Hátíð barnanna

"Höldum gleðileg jól og sköpum góðar minningar" eru einkunnarorð fræðsluátaks FRÆ; Fræðslu og forvarna um jólahátíðina og áramótin 2019. 

Börn líta áfengisneyslu öðrum augum en fullorðnir. Áfengisneysla foreldra og annarra nákominna getur valdið börnum kvíða og öryggisleysi og komið í veg fyrir að þau njóti tilhlökkunarinnar og eftirvæntingarinnar sem eru svo stór hluti hátíðanna. 

Þetta er gott að hafa í huga og muna að áfengi er val en ekki nauðsyn. 

Með því að draga úr neyslu áfengis eða vera allsgáð erum við betri fyrirmyndir, áhættan er minni og jólagleðin sannari. Sameinumst um að virða rétt barna til lífs án neikvæðra afleiðinga áfengis- og vímuefnaneyslu.

"Hátíðarhöld í tilefni jóla og áramóta eru börnum sem búa við mikla áfengisneyslu foreldra oft sérstaklega erfið og sársaukafull. Því miður kvíðir hópur íslenskra barna jólum og áramótum vegna þessa."

Einnig er lögð mikil áhersla á fjölskyldusamveru yfir hátíðarnar. Þeir sem hafa tök á að eyða tíma með börnum sínum eru því hvattir til að nota tækifærið. Marg sannað er að samvera með fjölskyldu og ástvinum er ein besta forvörn sem völ er á í nútíma samfélagi.


Fræðsla og forvarnir, frae@forvarnir.is
www.allsgad.is

hsam