Við erum öll almannavarnir!

Höldum áfram að standa okkur vel

Að gefnu tilefni eru fyrirtæki, stofnanir og verslanir á Seyðisfirði hvött til að gæta áfram vel að þeim leiðbeiningum sem gefnar hafa verið út vegna covid-19.

Að hafa spritt sýnilegt fyrir viðskiptavini, bjóða upp á hanska, virða tveggja metra regluna og fjöldatakmarkanir skiptir áfram miklu máli. Þá er sprittnotkun á snertifleti mikilvæg sem fyrr, svo sem á innkaupakerrur, hurðarhúna og borð í verslunum og á veitingastöðum. Slíkar varúðarráðstafanir eru einnig mikilvægar á tjaldsvæðum og að leiðbeinandi sé fjögurra metra fjarlægðarregla milli tjaldstæða.

Hafnaryfirvöld sjá til þess að í ferjuhúsinu séu fjarlægðarmörk virt, spritt er víða um húsið og starfsmenn gæta þess af fremsta megni að öllum öryggisreglum sé framfylgt.

Þess má einnig geta að Smyril Line gerir sitt allra besta til að tryggja öryggi farþega sinna, íbúa Seyðisfjarðar og Íslands.

Allir farþegar eru beðnir um að svara nokkrum spurningum um heilsufar sitt og svo hitamældir áður en þeim er hleypt um borð í Norrænu. Fólk með flensueinkenni og hita fá ekki að sigla. Passað er uppá smit á meðan á siglingu stendur, spritt er víða um borð, öryggis er gætt í hlaðborðum og sum afþreying er ekki í boði sem er talin valda smithættu. T.d. líkamsrætin er lokuð og ekki verða tónleikar í boði. Starfsmenn skipsins passa uppá að halda fjarlægð við gesti svo þeir beri ekki smit á milli. Sem og þeir eru beðnir að halda sig innan Færeyja í sínum fríum. Allir sem eru að koma frá Danmörku eru skimaðir af heilbrigðis starfsmönnum og fá fyrirmæli um að halda sig til hlés þar til niðurstöður berast. Starfsmenn Smyril Line á Seyðisfirði passa einnig vel uppá hreinlæti og fjarlægðir við þá farþega sem þarf að þjónusta við komuna.

Höldum áfram að standa okkur vel og fara varlega!

Við erum öll almannavarnir!

hsam