Viðtal mánaðarins - nóvember

Ég myndi vilja hvetja fólk til minnka stressið, slappa af og hvíla sig og passa að hafa gaman líka
Mynd tekin við sumarhús stórfjölskyldunnar á Melrakkasléttu - þar sem maður og náttúra verða eitt.
Mynd tekin við sumarhús stórfjölskyldunnar á Melrakkasléttu - þar sem maður og náttúra verða eitt.

Elfa Hlín Pétursdóttir er viðmælandi nóvembermánaðar. Elfa Hlín hefur meðal annars starfað af krafti í bæjarmálum fyrir Seyðisfjarðarkaupstað. Hún hóf störf vorið 2018 sem formaður bæjarráðs og fulltrúi í bæjarstjórn, en þurfti svo að taka sér veikindaleyfi og í kjölfarið að segja sig frá flestum sínum verkefnum. Verkefnastjóri fékk að heyra hennar sögu og tengsl hennar veikinda við kulnun.


Viðtal - nóvember :

1. Hvað er „kulnun“ - getur það ástand hent alla?

Ein fræðileg skilgreining er svona:Kulnun er alvarlegt langtíma neikvætt ástand hjá einstaklingi sem er tilkomið vegna viðvarandi streitu tengdri vinnu og samanstendur af tilfinningalegri örmögnun, mikilli líkamlegri þreytu og vitsmunalegri stignun (Shirom og Melamed, 2006).“ Nýjustu rannsóknir og kenningar leggja áherslu á ekki sé eingöngu horft til vinnunnar, heldur samspils óhóflegs álags í vinnu og einkalífi. Einstaklingar með kulnun upplifa tilfinningalega og líkamlega örmögnun auk þess sem oft verða þeir neikvæðari en áður gagnvart vinnu, samstarfsfélögum og verkefnum auk þess sem þeim finnst þeir standa sig verr í starfi, og gera það stundum því hæfileikinn til að takast á við verkefni og vandamál skerðist.

2. Viltu segja okkur frá því hvernig kulnun lýsti sér hjá þér?

Mín saga og þau einkenni sem ég glími við eru kannski ekki að öllu dæmigerð og forsagan líklegast lengri en hjá flestum. Þannig er að í febrúarlok 1999 þá veikist ég illa, blóðtappi hafði skotist upp í heila með þeim afleiðingum að ég missti máttinn vinstra megin, var með tvísýni og ýmis önnur einkenni. Flest þeirra gengu fljótt til baka en í nokkur ár á eftir var ég óeðlilega þreytt oft og úthaldslítil, fékk einhvers konar „draugatilfinningu“ í vinstri helming líkamans og afskaplega viðkvæm fyrir hljóðum og öðru áreiti og tilfinningalega viðkvæm. Með tímanum minnkuðu þessi einkenni mikið þó þau hafi kannski aldrei horfið alveg en ég náði að haga mínu lífi þannig að þau voru vel viðráðanleg. Fyrir um einu og hálfu ári, í kringum síðustu sveitarstjórnarkosningar fór aftur að bera á þessum einkennum og tíðni þeirra og „styrkur“ jukust eftir því sem leið á sumarið. Ég hitti fjölda lækna, gerðar voru á mér ýmsar prófanir og prufur teknar en allt kom vel út. Þann 21. nóvember á síðasta ári var ég svo skrifuð í tveggja vikna veikindaleyfi til að sjá hvort það hefði eitthvað að segja og því miður er staðan sú að núna ári síðar er enn ekki fyrirsjáanlegt hvenær ég mæti aftur út á vinnumarkaðinn.

Það sem ég áður gerði næstum án þess að leiða að því hugann tekur nú oft mikið á. Ég t.d. þríf ekki íbúðina okkar í einu lagi, það er 2 til 3 daga verkefni og almennt þarf ég að hafa litla dagskrá. Að fara til Reykjavíkur eða eitthvað aðeins út úr þeim daglega ramma sem ég hef skapað mér getur tekið mikið á og er oft mjög erfitt. Erfiðast er þegar ég finn að ég hef ekki orku til að sinna stelpunni minni fjögurra ára en það gerist því miður oft og ég á t.d. erfitt með að vera með hana ein heila helgi. Algerlega úr karakter við mig sem hef alltaf verið mjög virk, haft gaman af áskorunum í vinnu og tekið af heilum hug þátt í félagslífi ýmis konar. Núna getur verið átak fyrir mig að fara í bókaklúbb eina kvöldstund og næstum kvíðavaldandi að ætla að halda barnaafmæli.

3. Veistu hvað gerði útslagið? Hefðir þú átt að sjá einkennin fyrr?

Ég hefði kannski ekki átt að sjá þetta fyrir en vissulega voru háværar viðvörunarbjöllur farnar að klingja. Ég var í starfi sem oft var talsvert álag í, með lítið barn og tók mikinn þátt í bæjarpólitíkinni. Vinnan mín var þannig að ég hafði mörg mismunandi verkefni og oft voru ótal boltar í lofti í einu og oft tímapressa. Skemmtileg og krefjandi en líka streituvaldandi, sérstaklega þegar álagið var orðið það mikið að ég náði ekki að sinna mínum verkefnum eins vel og ég vildi. Síðasta vor, í kosningunum og ekki síður eftir þær, fór svo streitustuðulinn upp úr öllu valdi. Það voru óendanleg verkefnin sem þurfti að huga að og ég upplifði mig að einhverju leyti sem ég væri komið með bæjarfélagið í fangið. Auðvitað var ég ekki ein en þetta var mín tilfinning. Þá bætti ekki úr skák hvernig samskipti okkar í hinum nýja meirihluta og minnihlutans þróuðust. Ég er friðarins kona og þarna sýndi pólitíkin virkilega hvað hún getur orðið ljót og í raun mannskemmandi. Það var orðið þannig að ég kveið því að mæta á fundi og eiga samskipti við samstarfsfólk mitt úr öðrum flokkum ofan á það mikla álag sem fylgdi nýjum skyldum, verkefnum og ábyrgð. Ég gæti haldið langa ræðu um vinnuumhverfi sveitarstjórnarfólks sem flest sinnir sínum skyldum meðfram fullu starfi og tel fulla þörf á að þar verði breytingar á, en það er tilefni í annað viðtal.

Ég persónulega keyrði allt of lengi á tómum tanki og hef stundum líst mínu ástandi þannig að ég hafi í raun eyðilagt í mér hleðslubatteríin, þau hlaðast illa og halda engri hleðslu.

4. Hvernig vinnur maður sig aftur til baka úr kulnun?

Það er engin ein leið til þess og líklegast oft mjög persónubundið. Hvíld og aftur hvíld er það sem er boðað en einnig hreyfing eftir getu, jóga, útivera og talsverð áhersla er lögð á núvitund og hugleiðslu. Allt þetta hef ég nýtt mér, hef tileinkað mér að hugleiða og vera í núinu, fer í jóga og göngur eftir því sem heilsan leyfir og þarf að passa mig vel að hvíla mig. Þá les ég og hlusta á uppbyggilegt efni og reyni að nýta tímann til að byggja mig sjálfa upp og skoða ýmsa þætti í mínu lífi og fari sem þurfa frekari skoðunar við með hjálp þar til gerðra sérfræðinga en ekki síður með góðum samtölum við vini og fjölskyldumeðlimi.

5. Verða varanlegar afleiðingar hjá þér vegna þessara veikinda?

Ég get ekki svarað því í dag, ég er klárlega veikari fyrir eftir heilablóðfallið fyrir tveimur áratugum síðan og verð það alltaf. Ég náði mér þokkalega á strik eftir það á sínum tíma þó það tæki nokkur ár og ég verð að vona að svo verði líka núna. Þó er það alveg á hreinu að ég þarf alltaf að gæta mín og setja mér mörk og hlúa að eigin heilsu eftir fremsta megni. Sérstaklega að passa að koma mér ekki í svona viðvarandi streituástand eins og ég var í, næstum án þess að gera mér grein fyrir því. Mér finnst líklegt að staða mín á vinnumarkaði breytist eitthvað og sé ekki fyrir mér í dag að ég fari aftur í fulla vinnu, en það verður bara að koma í ljós.

6. Hver er staðan þín núna?

Hún er að mörgu leyti svipuð og fyrir ári síðan, ég á mína ágætu daga en svo koma verri tímabil inn á milli. Veikindi mín sjást ekki utan á mér, sem er stundum erfitt. Við sambýlingarnir erum saman í þessu því að hann á líka við veikindi að stríða sem einfaldar ekki hlutina, fyrir hvorugt okkar. Ég er hjá Virk sem heldur utan um mitt endurhæfingarferli og reyni að passa upp á að hlúa að mér með hvíld, hreyfingu og hugleiðslu eins og ég sagði áður. Hvort og hvenær ég kemst aftur í vinnu er algerlega óskrifað blað og ég reyni að dvelja ekki allt of mikið við það. Vera í deginum í dag og reyni að njóta þess sem ég hef og eiga sem besta daga og halda í jákvæðnina. Sem betur fer hefur mér tekist það meir en hitt.

7. Hefurðu einhver skilaboð til fólks út frá þinni reynslu?

Það er óskemmtileg reynsla að missa heilsuna, ýmislegt getum við gert til að hlúa að henni með hreyfingu við hæfi og almennri sjálfsumhyggju. Held það sé samt mikilvægt að muna að við höfum ekki stjórn á nema litlum hluta af heilsunni, en það er oft stutt í sjálfsásökunina þegar veikindi banka upp á.  „Ég hefði ekki átt að gera þetta svona og hefði átt að gera meira af þessu eða hinu“ hugsanir geta orðið háværar og engum til góðs.
Þá er ljóst að langvinnt streituástand getur haft alvarlegar heilsufarsafleiðingar og skerðir lífsgæði okkar. Mikilvægt er að gera það sem maður getur til að minnka stressið eins og hægt er. Því myndi ég vilja hvetja fólk til að huga vel að því, slappa af og hvíla sig og passa að hafa gaman líka.

 

Verkefnastjóri HSAM þakkar Elfu Hlín kærlega fyrir að segja sína sögu. Henni er óskað þess innilega að ná fullum bata og bjartrar framtíðar. Kulnun virðist því miður vera of algeng í nútíma samfélaginu og fólk oft ekki að átta sig á alvarleika veikindanna. Verkefnastjóri leggur áherslu á skilaboð Elfu Hlínar til fólks að reyna að minnka stress / álag og muna að hafa gaman - ekki síst í desembermánuði sem fram undan er.

Hér má lesa grein um "Kulnun eða þrot" af www.doktor.is

 

Höfundur : Eva Jónudóttir. Óheimilt er að nota efnið, til annars konar fréttaflutnings á öðrum fréttamiðlum, án leyfis höfundar.

hsam