Viðtal mánaðarins - september

Hreyfing er öllu fólki lífsnauðsynleg
Borgþór á fáknum sínum. Algjörlega til fyrirmyndar, hvoru tveggja í endurskinsvesti og með hjálm.
Borgþór á fáknum sínum. Algjörlega til fyrirmyndar, hvoru tveggja í endurskinsvesti og með hjálm.

Borgþór Jóhannsson, eða Boggi eins og flestir Seyðfirðingar kalla hann, er viðmælandi septembermánaðar. Boggi hreyfir sig mikið og var meðal annars sá sem kvittaði daglega í hreyfibækurnar í Hreyfiviku á Seyðisfirði í maí og júní. Það sem fáir vita sennilega er að Boggi er fyrsti „Fjallagarpur Seyðisfjarðar“, en hann gekk á alla tindana sjö á mánaðartímabili sumarið 2007 og að hann smíðar allar stikurnar sem merkja gönguleiðir í fjöllunum hér í firðinum. 


Viðtal september

1. Hvað er langt síðan þú hættir að vinna?

Ég er ekki alveg hættur, ég vinn 2-3 mánuði á ári eða á meðan vertíðir standa yfir. Á eitt ár eftir, þangað til ég verð að hætta.

2. Hefur þú stundað hreyfingu alla tíð?

Já ég byrjaði mjög ungur að elta rollur með pabba og vinna almenn sveitarstörf, sem þá voru unnin meira með höndunum en gert er í dag. Og í skólanum, sem var heimavist, notuðum við krakkarnir öll tækifæri sem gáfust til að vera í fótbolta og öðrum íþróttum. Síðan þá hef ég oftast hreyft mig talsvert og hef mjög gaman af fjallgöngu og flestri annarri hreyfingu.

3. Hvaða hreyfingu stundar þú aðallega?

Ég hjóla mest í dag, en einnig geng ég talsvert.

4. Hversu mikilvæga telur þú hreyfingu vera fyrir fólk eftir sextugt?

Hæfileg hreyfing er öllum nauðsynleg. Það versta sem eldra fólk getur gert er að hreyfa sig ekkert.

5. Hvernig er aðstaða til þeirrar hreyfingar sem þú legg stund á hér á Seyðisfirði? Hvað mætti bæta?

Hér eru margar gönguleiðir, bæði langar og stuttar, en draumur minn er að sjá hér helstu stíga malarborna.

6. Telur þú að uppeldi í sveit hafi gert þig að þeim útivistaráhugamanni sem þú ert í dag?

Ekki spurning! Í sveitinni upplifir maður og lærir margt við að vera í svo nánum tengslum við náttúruna.

7. Þú ert duglegur að veiða bæði mink og ref – hvað fær þig til að stunda þá veiði?

Refur og minkur eru miklir skaðvaldar í náttúru landsins, svo bæði er það umhyggja fyrir fuglalífinu en einnig veiðieðlið sem hefur alla tíð loðað við mig.

8. Er rétt að þú hafir merkt margar gönguleiðirnar í firðinum okkar?

Við Gönguklúbbsfélagar höfum stikað allar gönguleiðirnar, en merkingar á gönguleiðum eru eingöngu mitt verk. Ég verð mjög sár og svekktur þegar menn eru að skrúfa spjöldin af og láta þau hverfa. En það gera gestir okkar ekki, svo mikið er víst.

9. Viltu segja frá þinni vinnu og viðkomu við að gera stikurnar, sem merkja gönguleiðirnar?

Það er hent mjög miklu af timbri sem hentar til stikugerðar. Í sumar hef ég hirt timbur úr timburgámum bæði hjá Einari og í Húsasmiðjunni, afraksturinn er um 1000 stikur. Síðustu tvo vetur hef ég notað kaldasta tímann og málað stikur í bílskúrnum. Ég legg þær í bleyti í 1-2 sólarhringa í grunnfúavörn, svo mála ég þrjár grænar umferðir og að lokum gulan eða rauðan topp.

10. Synir þínir eru allir miklir útivistar- og veiðimenn, rennur þetta í blóðinu á ykkur feðgum?

Já ég held það. Allir mínir drengir hafa byrjað ungir að fara til veiða, fyrst með mér og síðan með félögunum. Margar af mínum bestu minningum tengjast á einhvern hátt fjallgöngum, fjöruferðum eða veiði með þeim. Ég læt hér eina minningu fylgja með.

Andri var 14-15 ára og nýfarinn að skjóta, við vorum á rjúpnaveiðum við skíðaskála í Stafdal og norður í Bjólfskverk í fínni veiði. Þetta var á þeim tíma sem rjúpur voru fleiri en menn í fjallinu og um hádegi vorum við búnir að fá 64 stykki. Allt í einu heyrist þytur í lofti, allar rjúpur hverfa skyndilega og ekkert var að sjá. Vil ég við svo búið fara heim en strákur harðneitar og segir að 64 sé ljót tala og vill alla vega fá eina í viðbót. Gengum við það sem eftir var dags með birgðina á bakinu en sáum ekkert. Þegar við vorum að koma í bílinn sáum við eitt grey og urðu þær þar með 65 og allir kátir með töluna! Þetta hefur síðan sagt mér hve fljótt rjúpan getur fært sig til, á mjög skömmum tíma.

11.   Eitthvað sem þú vilt segja að lokum? 

Ég vil hvetja alla til að stunda einhverja hreyfingu, en forðast allar öfgar. Golfklúbburinn er að vinna frábært starf og þar er góður vettvangur til hollrar hreyfingar. Einnig hvet ég fólk til að nota sér frábærar gönguleiðir í nágrenni bæjarins.

 

Verkefnastjóri HSAM þakkar Borgþóri kærlega fyrir þátttökuna og fyrir algjörlega frábært starf hans í þágu útivistar og merkinga í fjöllunum í Seyðisfirði. Ferðalangar hvattir til að láta stikurnar eiga sig, en ekki skemma eins og Boggi nefnir. Bogga er óskað velfernaðar í framtíðinni með von um áframhaldandi góða heilsu og mörg ár til viðbótar í útivist og hreyfingu.

 

Höfundur : Eva Jónudóttir. Óheimilt er að nota efnið, til annars konar fréttaflutnings á öðrum fréttamiðlum, án leyfis höfundar.

hsam