Dagar myrkurs

Vissir þú að í gamla daga töluðu menn frekar um vetur og nætur, heldur en ár og daga og var veturinn talinn koma fyrstur?
Mánaðamótin október/nóvember voru því tími vetrarbyrjunar og þar með nýárs.
Á Íslandi var haldin hátíð í lok október, kölluð Veturnætur til að fagna upphafi vetrar og einnig voru haldin Dísablót á Norðurlöndum á sama tíma, til heiðurs Dísum eða Valkyrjum. Þeim voru m.a. færðar skelfilegar fórnir. Veturnætur eða Vetrarnætur eru því forn tímamót sem haldin voru hátíðleg á Norðurlöndum áður en kristin trú var tekin upp.
Kristnir menn héldu síðan áfram að halda uppá þessi tímamót, með allraheilagramessu þann 1. nóvember ár hvert.

Keltar í Skotlandi og á Írlandi héldu einnig hátíð á þessum tíma, hún hét á gelísku Samhain sem merkir “Hátíð hinna dauðu”. Hjá Keltum myndaðist hefð fyrir því að brenndum kertum væri komið fyrir í útskornum næpum (sem eru skyldar gulrófu) og einnig tíðkaðist að kveikja í bálköstum. Þá fóru ungir og aldnir á milli húsa klæddir búningum og með grímur. Þegar Keltar fluttu til Vesturheims á 19. öld. tóku þeir þessa hátíð með sér og þekkjum við hana núna sem “Halloween” eða “Hrekkjavöku”.
Héldu menn áfram að skera út en þar sem í Bandaríkjunum vaxa grasker sem eru mun stærri en næpurnar skáru menn frekar út í þau og hafa gert alla daga síðan.

Það má færa rök fyrir því að Dagar myrkurs, byggðahátíðin okkar hér fyrir austan sé því okkar Vetrarhátíð – þar sem við fögnum vetrinum og þökkum gjafir sumarsins, kíkjum inn í andaheima, látum ljósið lýsa upp myrkrið og tvinnum saman gamlar hefðir og búum til nýjar.