Dagar myrkurs 2016

HITT OG ÞETTA Á DÖGUM MYRKURS

LEIKSKÓLINN SÓLVELLIR Í þemastarfi og öllu almennu starfi þessa viku er unnið með ljós og skugga, myrkur, dökka liti, svartan og hvítan. Myrkrastund: Foreldrum og börnum er boðið í útkennslustofuna kl. 8 í morgunmat þessa viku. Dagsetning fer eftir veðri og verður auglýst síðar.

BÓKASAFNIÐ býður upp á hina árlegu Myrkragetraun á Dögum Myrkurs og bækur um Myrkraverk og drauga liggja frammi. Hægt er að taka þátt á opnunartíma bókasafnsins.

3.NÓVEMBER - FIMMTUDAGUR

SKAFTFELL – MIÐSTÖÐ MYNDLISTAR í samstarfi við RIFF bjóða upp á kvikmyndasýningu í bíósal Herðubreiðar kl. 20:00, fimmtudagskvöldið 3.nóvember. Til
sýningar verða pólsk og íslensk kvikmynd. Aðgangur er ókeypis.

4.NÓVEMBER - FÖSTUDAGUR

AFTURGANGA Gangan hefst við Tækniminjasafnið kl. 20:00. Götuljósin eru slökkt í bænum og bæjarbúar eru hvattir til að myrkva hús sín á meðan að gangan
fer fram. Göngufólk er hvatt til þess að koma með luktir, blys eða kyndla með sér í gönguna. Einnig að skreyta sig með ljósaseríum eða klæðast einhverju skuggalegu. Gangan fer fram frá Tækniminjasafni um Hafnargötu, Austurveg yfir brúna, um Norðurgötu og endar inn í kirkju, þar sem búast má við óvæntri uppákomu. Á leiðinni frá Tækniminjasafninu verður komið við í Bókabúðinni, en þar ætla börnin á leikskólanum Sólvöllum að sýna afrakstur af listsköpun sinni í vetur en þau hafa m.a. unnið með þema List án landamæra sem í ár er “List fyrir skynfærin”. Sýningin verður í Bókabúð - verkefnarými Skaftfells.

GULLABÚIÐ myrkraverð á velvöldum vörum á föstudag, 4.nóvember og laugardag 5.nóvember.

5.NÓVEMBER - LAUGARDAGUR

BÓKABÚÐ – VERKEFNARÝMI SKAFTFELLS Börnin á Sólvöllum ætla að sýna afrakstur af listsköpun sinni í vetur en þau hafa m.a. unnið
með þema List án landamæra sem í ár er “List fyrir skynfærin”. Sýningin verður í Bókabúð - verkefnarými Skaftfells á laugardaginn 5.nóvember frá kl. 12:00-16:00.

GULLABÚIÐ myrkraverð á velvöldum vörum á föstudag, 4.nóvember og laugardag 5.nóvember.

SKAFTFELL BISTRÓ Útgáfa á glæpasögunni Valdamiklir menn eftir Jón Pálsson verður fagnað í Skaftfell Bistró laugardaginn 5. nóvember kl. 16:00. Höfundur mun lesa upp úr nýútkominni bók sinni ásamt Sólveigu Sigurðardóttur og Árna Elíssyni. Jón hefur áður sent frá sér ljóðabækur og skáldsögur en Valdamiklir menn er fyrsta glæpasagan hans þar sem spennandi atburðarás fléttast saman við leiðangur um íslensk samfélag 21. aldar. Bókin er gefin út af Höfundaútgáfunni.

SUNDHÖLLIN Rökkur og rómantík svífur yfir lauginni á Dögum Myrkurs og laugin verður upphituð á laugardaginn 5.nóvember, opið frá kl.13:00–16:00. Konukvöld í Sundhöllinni laugardagskvöldið 5. nóvember, snarl og bolla í boði. Unnur Óskarsdóttir býður upp á huggulega stemmningu á sinn einstaka máta. 1000 kr. þátttökugjald.

ÍÞRÓTTAMIÐSTÖÐIN Hið árlega karlakvöld verður haldið í íþróttahúsinu laugardagskvöldið 5.október – nánar auglýst síðar.

NORDIC RESTAURANT býður upp á ,,blindan” kvöldverð laugardaginn 5. nóvember. Einstakt tækifæri til að upplifa mat á annan hátt en hefðbundið er. Gestir munu fá að reyna á skynfæri sín með því að stíga út fyrir þægindarammann sem ljósið veitir þeim annars. Salurinn verður myrkvaður og bundið fyrir augu gestanna meðan þeir gæða sér á fimm réttum með víni sem sérstaklega er valið með. Takmarkaður sætafjöldi er í boði. Vinsamlegast hafi samband við Hótel Ölduna í síma 472-1277 og fylgist með Nordic Restaurant á Facebook. Skráningu líkur 31. október.

ORÐSENDING VEGNA AFTURGÖNGUNNAR!

Bæjarbúar geta tekið virkan þátt í Afturgöngunni með því að myrkva hús sín eins mikið og mögulegt er, slökkva útiljós og vera ekki á ferðinni í bílum sínum á milli klukkan 20 og 22.