1749. bæjarstjórn 15.05.19

1749. fundur bæjarstjórnar Seyðisfjarðar

Miðvikudaginn 15. maí 2019 kom bæjarstjórn Seyðisfjarðar saman til fundar í fundarsal íþróttamiðstöðvar, 2. hæð. Hófst fundurinn klukkan 16:00.

 

Fundinn sátu:

Hildur Þórisdóttir L-lista,

Arna Magnúsdóttir L-lista,

Vilhjálmur Jónsson B-lista,

Oddný Björk Daníelsdóttir D-lista,

Rúnar Gunnarsson L-lista,

Skúli Vignisson í forföllum Elvars Snæs Kristjánssonar D-lista,

Þórunn Hrund Óladóttir L-lista,

Aðalheiður Borgþórsdóttir bæjarstjóri.

 

Fundarritari var Eva Jónudóttir.

 

Gerðir fundarins:

Forseti bauð fundarmenn velkomna til fundar og setti fundinn.

 

Dagskrá:    

Gert er fundarhlé í byrjun kl. 16.03.

Dagný Erla Ómarsdóttir AMÍ mætti og kynnti ungmennaráð fyrir bæjarstjórn.

 

„Bæjarstjórn þakkar fyrir áhugaverða kynningu og hvetur Ungmennaráð áfram til góðra verka. Rödd þeirra sem munu taka við er mikilvæg.“

Fundarhléi lauk kl. 16.30.

 

1.  Ársreikningur 2018 - síðari umræða

Hér kom Hólmgrímur Bjarnason endurskoðandi kaupstaðarins til fundarins. Hann kynnti ársreikning og skýrslu endurskoðanda.

 

Helstu niðurstöður ársreiknings 2018:

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta var jákvæð um 83,8 milljónir króna en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 53,7 milljóna króna jákvæðri rekstrarniðurstöðu. Rekstrarniðurstaða A hluta var jákvæð um 12,4 milljónir króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu að fjárhæð 7,0 milljónir króna. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok er jákvætt um 409,3 milljónir króna samkvæmt efnahagsreikningi, en þar af var eigið fé A hluta jákvætt um 379,1 milljónir króna.

 

Forseti bar upp eftirfarandi tillögu:

„Bæjarstjórn samþykkir samstæðuársreikning Seyðisfjarðarkaupstaðar fyrir árið 2018.“

 

Ársreikningur samþykktur með sjö greiddum atkvæðum. 

 

Fundarhlé til að undirrita ársreikning kl. 17.05

Fundarhléi lauk kl. 17.12

Hér vék Hólmgrímur af fundi.

 

2. 2466. fundargerð bæjarráðs frá 16.04.2019

Eftirfarandi fundargerð lögð fram með fundargerðinni:
Umhverfisnefnd 08.04.2019

 

Fundargerð opnuð fyrir umræðum.

Til máls tóku formaður bæjarráðs sem kynnti fundargerðina. Oddný Björk og bæjarstjóri um lið 8 og Rúnar um lið 16 og leggur fram bókun frá meirihlutanum:

 

„Minnihlutinn hefur verið mjög upptekinn af því að benda á hversu ófaglega meirihlutinn vinnur að málum að þeirra mati og að ávíta núverandi bæjarstjóra fyrir minnstu mistök. Þessum ásökunum vísar meirihlutinn algjörlega á bug. Í ljós hefur komið að fyrrverandi bæjarstjórn og bæjarstjóri hafa skilið eftir sig ýmis óleyst mál. Áður hefur verið bent á verkið „beltun Bjólfsbakka” sem var einungis hálfnað og þar birtust óvænt útgjöld upp á kr. 50 milljónir sem engir samningar eða samþykktir voru til um.

Jafnframt vill meirihlutinn nefna það að við yfirferð ársreikninga með fjárhagsráðgjafa og endurskoðanda sveitarfélagsins kom í ljós skekkja í skilum á virðisaukaskattsskýrslu í upphafi árs 2018. Það hafði þær afleiðingar í för með sér að innskattur var ekki greiddur til sveitarfélagsins allt árið 2018 og nemur sú upphæð kr. 24,2 milljónum. Þetta tvennt hefur skapað óvænta útgjaldaaukningu og fjárhagsvanda þann sem birtist okkur nú í apríl. Vert er að geta þess að minnihlutinn gagnrýndi harðlega aðkomu ráðgjafa og kostnað sem honum fylgdi, ráðgjöf sem hefur skilað okkur 24,2 milljónum króna.“

 

Oddný Björk um lið 16 og Vilhjálmur um lið 16 og leggur fram bókun:

 

Bókun til leiðréttingar vegna bókunar frá 1746. fundi bæjarstjórnar þann 13. febrúar 2019.

„Á 1746. fundi bæjarstjórnar þann 13. febrúar s.l. undir 2. dagskrárlið lagði Aðalheiður Borgþórsdóttir bæjarstýra fram bókun vegna viðgerða á Bjólfsbakka sem unnar voru árin 2017 og 2018. Bókunin var tilbúningur byggð á rangfærslum um að ráðist hefði verið í 50 milljóna króna framkvæmd án heimildar hafnar- og bæjarstjórnar þegar um var að ræða afmörkuð viðgerðarverkefni á vegum hafnarstjórnar og innan gildandi fjárhagsáætlunar, nánar útfærð með viðaukum.

Endurskoðandi kaupstaðarins hefur nú lagt fram endurskoðunarskýrslu fyrir fjárhagsárið 2018 og gert grein fyrir endurskoðun ársreiknings kaupstaðarins 2018 með sama hætti og fyrir árið 2017 og sem fyrr. Með þeim er greinilega hafið yfir vafa að bókun Aðalheiðar var ekki í takt við raunveruleikann.“ 

 

Til máls tóku Rúnar, bæjarstjóri, Vilhjálmur og Þórunn Hrund.

 

Forseti bar upp eftirfarandi tillögu varðandi lið 3.1:

„Bæjarstjórn veitir Lónsleiru 7 jákvæða umsögn um starfsleyfi.

Starfsemin er í samræmi við útgefið byggingarleyfi og lokaúttekt hefur farið fram á húsnæðinu. Einnig er starfsemin í samræmi við skipulag.

Umsögn frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands (HAUST) liggur fyrir og er jákvæð.

Umsögn frá Brunavörnum Austurlands liggur fyrir og er jákvæð.“

 

Tillaga samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

Forseti bar upp eftirfarandi tillögu varðandi lið 3.1

„Umhverfisnefnd leggur til við bæjarstjórn að samþykkja tillögu að breytingu á landnotkun við Strandarveg 21 með landeignanúmerið L195767. Stærð lóðar er 5.390 m2. Tilgangurinn með tillögunni er að landnotkunin leyfi verslunar- og þjónustusvæði í bland við hafnsækna starfsemi á hafnarsvæði. Um er að ræða minniháttar breytingu á aðalskipulagi.“

 

Til máls tók Vilhjálmur og bar upp eftirfarandi tillögu:

„Bæjarráð samþykkti á 2466. fundi sínum þann 16. apríl síðastliðinn að leita álits Skipulagsstofnunar um lögmæti túlkunar umhverfisnefndar um hvort um minniháttar breytingu geti verið að ræða. Þar sem það álit liggur ekki fyrir leggur undirritaður til að tillögu umhverfisnefndar verði vísað til bæjarráðs til umfjöllunar með hliðsjón af samþykkt ráðsins þegar það hefur borist.“

 

Tillaga felld með fjórum greiddum atkvæðum; Hildar, Örnu, Rúnars og Þórunnar Hrundar. Einn greiddi með; Vilhjálmur. Tveir sitja hjá; Oddný Björk og Skúli.

Tillaga forseta samþykkt með sex greiddum atkvæðum; Hildar, Örnu, Rúnars, Þórunnar Hrundar, Oddnýjar Bjarkar og Skúla. Einn greiddi á móti; Vilhjálmur.

 

Forseti bar upp eftirfarandi tillögu varðandi lið 9: 

„Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að reglur og viðmiðunarfjárhæðir varðandi afslátt af fasteignaskatti verði óbreyttar fyrir 2019 og endurskoðaðar við næstu fjárhagsáætlunargerð.“

 

Enginn tók til máls.

Tillaga samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

Forseti bar upp eftirfarandi tillögu varðandi lið 11:

„Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Ósk um gögn vegna fjárhagsáætlunar 2019 - 2022 – drög að svarbréfi. 

Bæjarráð samþykkir að vísa framlögðu bréfi til samþykktar í bæjarstjórn.“

 

Til máls tók bæjarstjóri og kynnti framlagt svarbréf.

Enginn tók til máls.

 

Svarbréf samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

Fundargerð samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

 

3. 2467. fundargerð bæjarráðs frá 24.04.2019

Fundargerð opnuð fyrir umræðum.

Til máls tók formaður bæjarráðs sem kynnti fundargerðina.

 

Fundargerð samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

 

4. 2468. fundargerð bæjarráðs frá 09.05.2019

Eftirfarandi fundargerðir lagðar fram með fundargerðinni:

Velferðarnefnd frá 29.04.2019
Fræðslunefnd frá 30.04.2019
Atvinnu- og framtíðarmálanefnd frá 02.05.2019.

 

Fundargerð opnuð fyrir umræðum.

Til máls tóku formaður bæjarráðs sem kynnti fundargerðina og bæjarstjóri.

 

Forseti bar upp eftirfarandi tillögu varðandi lið 3.1:

„Bæjarstjórn samþykkir framlagt erindisbréf Öldungaráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar.“

 

Tillaga samþykkt með sex greiddum atkvæðum; Hildar, Örnu, Rúnars, Þórunnar Hrundar, Oddnýjar Bjarkar og Skúla. Einn situr hjá; Vilhjálmur.

 

Fundargerð samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

 

5. 5. fundargerð Hafnarmálaráðs frá 08.05.2019

Fundargerð opnuð fyrir umræðum.

Til máls tóku formaður hafnarmálaráðs sem kynnti fundargerðina. Oddný Björk og bæjarstjóri um lið 14.

 

Fundargerð samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

Neysluhlé kl. 18:07

Neysluhléi lauk kl. 18:20

 

6. Húsnæðisskýrsla

Til máls tóku formaður bæjarráðs sem kynnti húsnæðisskýrslu, Oddný Björk og bæjarstjóri sem lagði fram tillögu :

 „Bæjarstjóri leggur til að bæjarráð tilnefni í þriggja manna starfshóp um húsnæðismál sem og undirbúi erindisbréf fyrir hópinn.“

Tillaga samþykkt með fjórum greiddum atkvæðum; Hildar, Örnu, Rúnars og Þórunnar Hrundar. Þrír sitja hjá; Vilhjálmur, Skúli og Oddný Björk.

 

Forseti bar upp eftirfarandi tillögu:

„Bæjarstjórn samþykkir framlagða skýrslu Atvinnu- og framtíðarmálanefndar um stöðu húsnæðismála á Seyðisfirði og þakkar nefndinni vel unnin störf. Bæjarstjóra er falið að senda skýrsluna til Íbúðarlánasjóðs og birta hana á vefsíðu kaupstaðarins.“

           

Tillaga samþykkt með sex greiddum atkvæðum; Hildar, Örnu, Rúnars, Þórunnar Hrundar, Oddnýjar Bjarkar og Skúla. Einn situr hjá; Vilhjálmur.

 

 

7. Herðubreið – Skammtímasamningur

Til máls tóku bæjarstjóri sem kynnti skammtímasamning vegna Herðubreiðar, Oddný Björk, bæjarstjóri, Oddný Björk, bæjarstjóri, Vilhjálmur og bæjarstjóri.

 

Forseti bar upp eftirfarandi tillögu: 

„Bæjarstjórn samþykkir framlagðan skammtímasamning um Herðubreið við rekstraraðila sem gildir til og með 30.9.2019.“ 

 

Tillaga samþykkt með fimm greiddum atkvæðum; Hildar, Örnu, Rúnars, Þórunnar Hrundar og Skúla. Tveir sitja hjá; Vilhjálmur og Oddný Björk sem gerir grein fyrir atkvæði sínu:

„Ég sit hjá við afgreiðslu samnings kaupstaðarins við núverandi rekstraraðila Herðubreiðar þar sem um skammtímasamning ræðir. Rekstraraðilar eru búnir að vera samningslausir í nokkra mánuði og er það mér óskiljanlegt hví ekki var byrjað í tíma að ganga til langtímasamnings.“

 

 

8. Umboðsmaður Alþingis – Vegna kvörtunar Sigurðar Jónssonar

Vilhjálmur Jónsson vekur athygli á hugsanlegu vanhæfi sínu.

Forseti ber vanhæfi upp til atkvæða sem er samþykkt með sex greiddum atkvæðum; Rúnars, Örnu, Þórunnar Hrundar, Hildar og Skúla. Einn situr hjá; Oddný Björk.

 

Umboðsmanni Alþingis barst kvörtun þann 28. janúar síðastliðinn frá Sigurði Jónssyni vegna uppsagnar á samningi um störf skipulags- og byggingarfulltrúa hjá sveitarfélaginu. Eftir að hafa skoðað gögn málsins hefur Umboðsmaður vísað kvörtuninni frá.

           

Enginn tók til máls.

 

 

9. Ósk um lausn frá störfum – Elfa Hlín Pétursdóttir

Elfa Hlín Pétursdóttir óskar hér með eftir því að bæjarstjórn veiti henni varanlega lausn frá öllum störfum sínum sem kjörinn fulltrúi fyrir kaupstaðinn, af heilsufarsástæðum en þakkar jafnframt um leið fyrir gott samstarf og störf á síðustu árum.

 

„Bæjarstjórn veitir Elfu Hlín Pétursdóttur varanlega lausn frá öllum störfum sínum sem kjörinn fulltrúi fyrir kaupstaðinn og þakkar fyrir afar gott samstarf.“

 

Tillaga samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

 

10. Tilnefning aðal- og varamanns í ferða- og menningarnefnd

Davíð Kristinsson hættir sem aðalmaður frá ferðaþjónustunni í ferða- og menningarnefnd. Bóas Eðvaldsson er tilnefndur sem aðalmaður í stað Davíðs og í stað Bóasar er Ólafur Örn Pétursson tilnefndur sem varamaður.

Til máls tóku Oddný Björk og bæjarstjóri.

 

Tillaga samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

11. Samband íslenskra sveitarfélaga – 16.04.2019 – Listi yfir vinnslu þar sem krafist er mats á áhrifum á persónuvernd

Lagt fram til kynningar.

 

12. Samband íslenskra sveitarfélaga – 16.04.2019 – Opinber innkaup - breytt landslag 31. maí

Lagt fram til kynningar.

 

13. Samband íslenskra sveitarfélaga – 16.04.2019 – Fundargerð 870. fundar stjórnar sambandsins

Lögð fram til kynningar.

 

Fundargerð á 13 bls.

Fundi slitið kl. 19:38.