1750. bæjarstjórn 03.06.19

1750. fundur bæjarstjórnar Seyðisfjarðar

Mánudaginn 3. júní 2019 kom bæjarstjórn Seyðisfjarðar saman til fundar í fundarsal íþróttamiðstöðvar, 2. hæð. Hófst fundurinn klukkan 16:00.

 

Fundinn sátu:

Hildur Þórisdóttir L-lista,

Arna Magnúsdóttir L-lista,

Vilhjálmur Jónsson B-lista,

Oddný Björk Daníelsdóttir D-lista,

Rúnar Gunnarsson L-lista,

Elvar Snær Kristjánsson D-lista,

Þórunn Hrund Óladóttir L-lista,

Aðalheiður Borgþórsdóttir bæjarstjóri.

 

Fundarritari var Eva Jónudóttir.

 

Gerðir fundarins:

Forseti bauð fundarmenn velkomna til fundar og setti fundinn.

 

Dagskrá:

1. 2469. fundur bæjarráðs frá 22.05.2019

Eftirfarandi fundargerðir lagðar fram til kynningar með fundargerðinni :
Ferða- og menningarnefnd frá 13.05.2019
Umhverfisnefnd frá 13.05. 2019

Fundargerð opnuð fyrir umræðum.
Til máls tók Rúnar, formaður bæjarráðs, sem kynnti fundargerðina.

 

Forseti bar upp eftirfarandi bókun:

„Bæjarstjórn lýsir yfir áhyggjum af langvarandi fjársvelti sýslumannsembættanna í kjölfar sameininga og gildistöku laganna nr. 50/2014. Ljóst er að sá niðurskurður sem átt hefur sér stað hefur komið niður á þjónustustigi við íbúa á svæðinu. Minnt er á þau fyrirheit sem gefin voru við aðskilnað Sýslumanns og Lögreglu um auknar fjárveitingar og verkefni.“

 

Til máls tóku Elvar Snær og Þórunn Hrund um lið 1.2.

 

Fundargerð samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

Vilhjálmur gerir grein fyrir atkvæði sínu:
Undirritaður gerir grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi bókun:

Undirritaður samþykkir fundargerð bæjarráðs númer 2469 með fyrirvara vegna liðar númer 1.2. í fundargerðinni, vegna vafa um lögmæti niðurstöðu umhverfisnefndar og þar með afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa vegna liða númer 4 og 11 í fundargerð nefndarinnar.

Vilhjálmur Jónsson.


Elvar Snær gerir grein fyrir atkvæði sínu:

Undirritaður samþykkir fundargerð bæjarráðs númer 2469 með fyrirvara vegna liðar númer 1.2. í fundargerðinni, vegna vafa um lögmæti niðurstöðu umhverfisnefndar og þar með afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa vegna liða númer 4 og 6 í fundargerð nefndarinnar. 

 

 

2. 2470. fundur bæjarráðs frá 29.05.2019

Eftirfarandi fundargerðir lagðar fram til kynningar með fundargerðinni :
Velferðarnefnd frá 21.05.2019.
Fræðslunefnd frá 27.05.2019.

Fundargerð opnuð fyrir umræðum.
Til máls tóku Rúnar, formaður bæjarráðs, sem kynnti fundargerðina, Elvar Snær og Vilhjálmur um lið 2.2.

 

Vilhjálmur leggur fram tillögu:

Tillaga vegna liðar 2.2. í fundargerðinni um fyrirspurnir sbr. fundargerð bæjarráðs nr. 2466, lið 3.1. í fundargerðinni. Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að taka saman þau gögn sem fyrirspyrjandi óskaði eftir og leggja fyrir næsta fund bæjarráðs til umfjöllunar ásamt afriti af svari Skipulagsstofnunar til fyrirspyrjanda.

 

Greinargerð.

Í bókun bæjarráðs kemur fram að svör hafi ekki borist frá Skipulagsstofnun og Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og að skoðunarskýrslur liggi ekki fyrir. Undirritaður sendi fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um sama leyti og skipulags- og byggingarfulltrúa var falið að senda fyrirspurnir vegna samþykkta bæjarráðs frá fundi 16. apríl s.l. og svar hefur löngu borist dagsett fyrst 3. maí s.l. þó svo að það lenti í yfirlestri á skrifstofu kaupstaðarins og töfum vegna þess fram yfir bæjarstjórnarfund þann 15. maí s.l. en á þeim fundi var málið á dagskrá. Þann 16. maí s.l. kom bæjarstjóri athugasemdum á framfæri við stofnunina vegna hluta innihalds svarsins en lét viðtakanda sem bréfið þó var stílað á aldrei vita um bréfið né afdrif þess. Samkvæmt bókuninni liggja skoðunarskýrslur ekki fyrir sem getur ekki verið rétt þar sem þær eiga að liggja fyrir í skjalakerfi byggingarfulltrúa sbr. gæðakerfi embættisins. Á það er bent að finnist þær ekki þar er hægt að fá þær frá Mannvirkjastofnun og það er jafnframt nauðsynlegt til að vista þær hjá embættinu.

Vilhjálmur Jónsson 
 

 

Tillaga samþykkt með þremur atkvæðum; Vilhjálms, Elvar Snæs og Oddnýjar Bjarkar. Tveir greiða á móti; Hildur og Rúnar. Tveir sitja hjá; Þórunn Hrund og Arna.

Fundargerð samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

 

3. Fjallskilasamþykkt - endurskoðun

Bæjarstjórn samþykkir endurskoðaða fjallskilasamþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

 

4. Ærslabelgur

Forseti bar upp eftirfarandi tillögu:

 ,,Bæjarstjórn samþykkir að settur verði upp ærslabelgur við hlið sparkvallar neðan við Túngötu.“

Til máls tóku Elvar Snær, Þórunn Hrund og Oddný Björk.

 

Tillaga samþykkt með sex greiddum atkvæðum; Örnu, Þórunnar Hrundar, Rúnars, Hildar, Vilhjálms og Elvars Snæs. Oddný Björk situr hjá.

 

 

5. Endurskoðun aðalskipulags, skipulagslýsing til kynningar

Enginn tók til máls.

 

Forseti bar upp eftirfarandi tillögu:
„Bæjarstjórn samþykkir auglýsingu á lýsingu vegna endurskoðunar aðalskipulags.“

 

Samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

 

6. Erindi frá blakdeild Hugins

Erindi frestað.

 

 

7. 14. fundur samstarfsnefndar um sameiningarmál frá 13.05.2019

Enginn tók til máls.

Lagt fram til kynningar.

 

 

8. 15. fundur samstarfsnefndar um sameiningarmál frá 27.05.2019

Enginn tók til máls.

Lagt fram til kynningar.

 

 

9. Umhverfisnefnd - 31.05.2019 - Austurvegur 23 - Sirkus

Afgreiðslu máls frestað til næsta fundar.

 

 

10. Skilabréf og álit samstarfsnefndar um sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Fyrri umræða

Í októbermánuði 2018 samþykktu sveitarstjórnir Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar að skipa samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna samkvæmt 1. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga.

Samstarfsnefnd hefur skilað áliti sínu til sveitarstjórna með skilabréfi dags. 29. maí. Skilabréfinu fylgja eftirtalin gögn:

· Skýrslan Sveitarfélagið Austurland-stöðugreining og forsendur dags. 27. maí 2019, sem unnin var af RR ráðgjöf ehf. að beiðni samstarfsnefndar.

· Tillaga að atkvæðaseðli vegna atkvæðagreiðslu íbúanna um tillögu um sameiningu sveitarfélaganna.

· Tillaga að auglýsingu í Lögbirtingarblaði og fjölmiðlum um atkvæðagreiðsluna.

Samstarfsnefndin hefur komið saman á 15 bókuðum fundum. Hafa fundargerðir nefndarinnar komið til umfjöllunar sveitarfélaganna og verið birtar á vefsíðu verkefnisins svausturland.is. Samstarfsnefnd skipaði 6 starfshópa sem fjölluðu um málaflokka sveitarfélaganna og lögðu fram efni og upplýsingar í greiningu og tillögugerð. Minnisblöð frá vinnu starfshópa eru aðgengileg á vefsíðu verkefnisins.

Það er álit samstarfsnefndar að fram skuli fara atkvæðagreiðsla meðal íbúa sveitarfélaganna um sameiningu sveitarfélaganna fjögurra í eitt. Kynningarefni fyrir atkvæðagreiðslu mun byggja á þeirri greiningu og forsendum sem lýst er í skýrslunni. Lagt er til að atkvæðagreiðsla fari fram 26. október 2019 í öllum sveitarfélögunum. Jafnframt leggur nefndin til að samstarfsnefnd verði falið að kynna tillöguna og helstu forsendur fyrir íbúum sveitarfélaganna.

 

Til máls tóku bæjarstjóri, Vilhjálmur, Hildur, Oddný Björk, Þórunn Hrund, Elvar Snær, Þórunn Hrund, Hildur, Vilhjálmur, Hildur og Oddný Björk.

 

Forseti bar upp eftirfarandi tillögu:

,,Bæjarstjórn samþykkir að vísa málinu til síðari umræðu í bæjarstjórn sbr. 2. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.“

 

Tillaga samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

 

11. Drög að reglum um tímabundna niðurfellingu gatnagerðagjalda vegna nýbygginga

Til máls tóku bæjarstjóri, Oddný Björk, bæjarstjóri, Rúnar, Oddný Björk, Vilhjálmur sem leggur fram eftirfarandi breytingartillögu:

 „Bæjarstjórn samþykkir að vísa til bæjarráðs fyrirliggjandi drögum að samþykktum um stuðning við húsbyggjendur til fullnaðarafgreiðslu í bæjarráði.“,

bæjarstjóri, Rúnar, Oddný Björk, bæjarstjóri, Arna sem leggur fram eftirfarandi breytingartillögu:

„Fullnaðarafgreiðslu verði frestað til næsta bæjarstjórnarfundar.“,

 og Elvar Snær.

 

Forseti bar upp breytingartillögu Örnu: 

Breytingartillaga felld með fjórum greiddum atkvæðum, Vilhjálms, Elvars Snæs, Oddnýjar Bjarkar og Þórunnar Hrundar. Einn greiðir með; Arna. Tveir sitja hjá; Hildur og Rúnar.

 

Forseti bar upp breytingartillögu Vilhjálms:

Breytingartillaga samþykkt með fimm greiddum atkvæðum, Vilhjálms, Elvars Snæs, Oddnýjar Bjarkar, Hildar og Þórunnar Hrundar. Tveir eru á móti; Arna og Rúnar.

 

                                           

12. Lántaka hjá Lánasjóði sveitarfélaga vegna framkvæmda

Til máls tók bæjarstjóri sem kynnti málið.

 

Forseti bar upp eftirfarandi tillögu:

„Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar samþykkir hér með á bæjarstjórnarfundi að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð allt að kr. 30.000.000.-,  með lokagjalddaga þann 5. október 2034, í samræmi við það lánstilboð sem liggur fyrir fundinum og sem bæjarstjórnin hefur kynnt sér.

Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Er lánið tekið til fjármögnunar á framkvæmdum við félagsheimili, gatnagerð, Seyðisfjarðarskóla og íþróttamannvirki sveitarfélagsins sem fela í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Jafnframt er Aðalheiði Borgþórsdóttur, bæjarstjóra, kt. 010758-6619, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Seyðisfjarðarkaupstaðar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita, gefa út og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.“

Til máls tóku Oddný Björk, bæjarstjóri, Vilhjálmur, bæjarstjóri, Vilhjálmur, bæjarstjóri, Rúnar, Vilhjálmur, Arna, bæjarstjóri, Oddný Björk, Elvar Snær, bæjarstjóri, Elvar Snær og bæjarstjóri.

 

Tillaga samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

 

13. Fjarðarheiðargöng

Forseti leggur fram eftirfarandi ályktun:

,,Bæjarstjórn minnir á mikilvægi þess að ríkisstjórnin taki ákvörðun um tímasetningu framkvæmda við Fjarðarheiðargöng. Samkvæmt fyrri samgönguáætlunum er gert ráð fyrir að Fjarðarheiðargöng verði næsta jarðgangaframkvæmd á eftir Dýrafjarðargöngum og því löngu tímabært að stjórnvöld efni orð sín. Samgöngur eru lykilatriði í þróun byggða en Fjarðarheiðin olli síðast verulegum vandræðum 30. maí síðastliðinn.“

 

Til máls tóku bæjarstjóri, Oddný Björk, Elvar Snær, Vilhjálmur, Rúnar og Oddný Björk.

 

Ályktun samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

Bæjarstjóra er falið að senda ályktun bæjarstjórnar á Forsætis-, Fjármála- og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Vegagerð og alþingismenn.

 

 

Fundargerð á 11 bls.
Fundi slitið kl. 18.06.