1753. bæjarstjórn 04.09.2019

Miðvikudaginn 4. september 2019 kom bæjarstjórn Seyðisfjarðar saman til fundar í fundarsal íþróttamiðstöðvar, 2. hæð. Hófst fundurinn klukkan 16:00.

 

Fundinn sátu:

Hildur Þórisdóttir L-lista,

Ágúst T. Magnússon L-lista í fjarveru Örnu Magnúsdóttur,

Vilhjálmur Jónsson B- lista,

Oddný Björk Daníelsdóttir D-lista,

Rúnar Gunnarsson L-lista,

Elvar Snær Kristjánsson D-lista,

Þórunn Hrund Óladóttir L-lista,

Aðalheiður Borgþórsdóttir bæjarstjóri.

Fundarritari var Inga Þorvaldsdóttir.

 

Gerðir fundarins:

Forseti bauð fundarmenn velkomna til fundar og setti fundinn. Forseti óskaði eftir að bæta inn afbrigði, Rarik – 22.08.2019  Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna strenglagningar í Austdal sem lið 11 á dagskrá. Hlíðarvegur 12 – Umsókn um stækkun á byggingareit sem lið 12, Jafnréttisáætlun sem lið 13 og Fjallskil – Tillaga að nýjum umsjónaraðila sem lið 14 í fundagerð.

Forseti gefur orðið laust.

Afbrigðin samþykkt með sjö greiddum atkvæðum

 

Dagskrá:

1. 2481. fundur bæjarráðs frá 28.08.2019.

Með fundargerðinni er lögð fram til kynningar fundargerð Velferðarnefndar frá 20.08.2019 og 2480. fundargerð bæjarráðs frá 15.08.2019, liður 1 til umræðu.

Til máls tóku bæjarstjóri v/liðar 7 og 15,  Oddný v/liðar 8, bæjarstjóri v/liðar 8, Elvar v/liðar 7,15,1 og 8 og leggur fram bókun:

Bókun minnihluta:

Minnihlutinn lýsir yfir vonbrigðum með það að lítið sem ekkert hafi gerst í málefnum knattspyrnuvallarins frá 28. mars síðastliðnum og ákvörðun bæjarráðs ekki náð fram að ganga. Á bæjarráðsfundi 28. mars sl. var ákveðið að fela byggingarfulltrúa að leita verktilboða í einstaka verkþætti við endurgerð knattspyrnuvallarins og fyrir liggur samþykkt fjárhagsáætlun sem öll framboðin í bæjarstjórn stóðu að vegna þessa.“

 Greinargerð:

 Á fundi bæjarráðs nr. 2464 þann 28. mars síðastliðinn fól bæjarráð byggingafulltrúa að leita eftir verðtilboðum frá verktökum í einstaka verkþætti við endurgerð fótboltavallarins á forsendum verklýsingar Eflu. Af því hefur ekki orðið enn af ástæðum sem byggingarfulltrúi hefur gert grein fyrir í minnisblaði.

Oddný Björk Daníelsdóttir, bæjarfulltrúi D lista, óskaði eftir í tölvupósti dagsettum 19. ágúst að fá upplýsingar um stöðu framkvæmda við fótboltavöllinn. Forseti bæjarstjórnar varð sem eðlilegt var við þeirri beiðni og var málið tekið fyrir og rætt á bæjarstjórnarfundi nr. 1752 þann 21. ágúst síðastliðinn.  Í umræðunni kom fram af hálfu bæjarfulltrúa að full samstaða var um verkefnið af hálfu bæjarstjórnar. Jafnframt kom fram að áhersla var lögð á að ekki yrði slakað á gæðakröfum verksins. Undir dagskrárliðnum var ekkert bókað.

Vilhjálmur Jónsson, bæjarfulltrúi B lista óskaði eftir að málið yrði tekið á dagskrá 2481. bæjarráðsfundar og að þar yrðu lagðar fram upplýsingar frá bæjarstjóra og byggingarfulltrúa um stöðu málsins og eftirfylgni og vinnslu málsins þ.e. við hvaða verktaka hefði verið rætt og annað sem skipti máli til að taka mætti málið áfram og koma í framkvæmd. Það gerði bæjarstjóri með langri greinargerð sem var færð til bókar á fundi bæjarráðs nr. 2481. Í greinargerðinni fer bæjarstjóri yfir víðan völl og ýmsar hindranir sem á vegi málsins hafa verið. Bæjarstjóri hefur áður lýst sér sem aktívista sem vill láta hlutina gerast hratt og að vinna í lausnum og því er mikils að vænta um framgang málsins standi bæjarstjórnin heil að baki sínum fyrri samþykktum m.a. framkvæmdaáætlun fjárhagsáætlunar.  Þó að lítilsháttar frumkvæði hafi stundum komið frá minnihluta bæjarstjórnar þegar hann hefur brostið þolinmæði á undirbúningstímabilinu er það samstaða og einhugur allrar bæjarstjórnarinnar sem hefur drifið málið áfram og mikilvægt fyrir framgang þess að svo verði áfram. Bakgrunnur verkefnisins teygir sig aftur fyrir bæjarstjórnarkosningar og í þau fyrirheit sem öll framboðin gáfu um verkefnið í aðdraganda kosninganna. Það er ánægjulegt að við þau fyrirheit sé staðið og stefnt að fullum efndum.

Oddný Björk Daníelsdóttir D lista - Vilhjálmur Jónsson B lista - Elvar Snær Kristjánsson D lista.

 

Bæjarstjóri v/liðar 8, Vilhjálmur v/liðar 8 og leggur fram eftirfarandi tillögur ásamt greinagerð:

Tillögur vegna liðar nr. 8 í fundargerð bæjarráðs nr. 2481  

Bæjarstjórn samþykkir að unnin verði úttekt á stjórnun og stjórnsýslu kaupstaðarins. Bæjarstjórn felur bæjarstjóra og bæjarráði að afla tilboða í slíka úttekt frá þar til bærum aðilum fyrir næsta fund bæjarstjórnar.“

Bæjarstjórn samþykkir að fenginn verði aðili til að hafa umsjón með framkvæmdinni endurgerð Garðarsvallar og felur bæjarstjórn bæjarstjóra og bæjarráði að afla tilboða frá þar til bærum aðilum vegna framkvæmdarinnar og að semja drög að erindisbréfi vegna þess verkefnis sem verði lögð fyrir næsta fund bæjarstjórnar“

Greinargerð með tillögum Vilhjálms:

Með vísan til bókunar bæjarstýru Seyðisfjarðar sem lögð var fram undir dagskrárlið númer 8 á 2481. fundi bæjarráðs og niðurlags hennar þar sem fjallað er um tafir og tímalengd afgreiðslu mála og undirmönnun er nauðsynlegt að bregðast við með skilvirkum hætti. Greinargerð byggingarfulltrúa sem lögð var fram undir sama dagskrárlið er á sömu lund og bæjarstýru sem styður þær ráðstafanir sem gert er ráð fyrir í tillögunni enn frekar.

 

Rúnar v/liðar 8, Oddný v/liðar 16.2 og leggur fram bókun :

Á því rúma hálfa ári sem liðið er af þessu fjármálaári liggur fyrir að yfirkeyrsla bæjarins sé þegar orðin töluverð. Ef teknir eru aðeins þrír liðir út fyrir sviga, byggingarfulltrúi, fjármálaráðgjöf og fundarkostnaður umhverfisnefndar hleypur framúrkeyrslan á annan tug milljóna.

Meirihlutinn boðaði ,,ábyrga fjármálastjórnun“ í stefnuskrá sinni fyrir kosningar 2018 og flækist það fyrir mér hvernig sú fjármálastjórnun sem nú er við lýði geti á einhvern hátt talist ábyrg.

Oddný Björk Daníelsdóttir“

 

Bæjarstjóri v/liðar 16.2 og leggur fram bókun:

Það er mjög óeðlilegt að bæjarfulltrúi tíni til einstaka liði úr aðalbók til þess að sýna fram á óábyrga fjármálastjórnun. Rétt er að benda á að eftir er að bókfæra ýmsa tekjuliði og þegar upp er staðið verður A-sjóður í plús. Komið hefur í ljós að framúrkeyrsla vegna endurskoðunar er tilkomin vegna óreiðu í bókhaldi bæjarins frá 2018, en óinnheimtur innskattur sem dagaði uppi frá því í febrúar 2018 upp á rúmlega 20 milljónir voru m.a. þess valdandi. Bæjarstjóri vísar þessum ásökunum, sem eingöngu er til þess ætlað að vekja tortryggni, því algerlega á bug.“

 

Elvar, bæjarstjóri, Rúnar og forseti v/liðar 16.2.

Forseti ber upp fyrri tillögu Vilhjálms:

Tillaga felld með atkvæðum Þórunnar, Hildar, Rúnars og Ágústs. Elvar, Oddný og Vilhjálmur greiða atkvæði með tillögunni.

Forseti ber upp seinni tillögu Vilhjálms:

Tillaga felld með atkvæðum Þórunnar, Hildar og Rúnars. Ágúst situr hjá. Elvar, Oddný og Vilhjálmur greiða atkvæði með tillögunni.

 

2.  Sirkus – Beiðni um umsögn vegna breytingar á umsókn á gildandi rekstrarleyfi Sirkus

Forseti ber upp eftirfarandi tillögu:

„Bæjarstjórn veitir jákvæða umsögn um breytingar á umsókn á gildandi rekstrarleyfi Sirkus sem tekið var fyrir á fundi bæjarráðs nr. 2480. Bæjarstjórn samþykkir aukinn opnunartíma til kl. 03 um helgar og á lögbundnum frídögum með fyrirvara um að úrbótum sem HAUST og skipulags- og byggingarfulltrúi fara fram á, verði framfylgt og að frestur til úrbóta verði virtur.“

 

Til máls tóku: Elvar, Þórunn og Oddný sem leggur fram breytingartillögu svohljóðandi:

Bæjarstjórn samþykkir að fresta umsögn vegna rekstarleyfis Sirkus þangað til að hávaðamæling frá HAUST liggur fyrir.“

Forseti ber upp tillögu Oddnýjar: Tillaga felld með fjórum atkvæðum Hildar,  Rúnars, Þórunnar og Ágústs. Vilhjálmur, Oddný og Elvar greiða atkvæði með tillögu.

 

Bæjarstjóri tekur til máls. Forseti lokar mælendaskrá og ber upp upphaflega tillögu:

„Bæjarstjórn veitir jákvæða umsögn um breytingar á umsókn á gildandi rekstrarleyfi Sirkus sem tekið var fyrir á fundi bæjarráðs nr. 2480. Bæjarstjórn samþykkir aukinn opnunartíma til kl. 03 um helgar og á lögbundnum frídögum með fyrirvara um að úrbótum sem HAUST og skipulags- og byggingarfulltrúi fara fram á, verði framfylgt og að frestur til úrbóta verði virtur.“

Samþykkt með fjórum atkvæðum Hildar, Rúnars, Þórunnar og Ágústs. Vilhjálmur, Oddný og Elvar greiða atkvæði á móti tillögu.

 

3. Ofanflóðamál

Bæjarstjóri leggur fram eftirfarandi greinargerð:

,,Vegna kynningar á endurskoðuðu ofanflóðahættumati fyrir Seyðisfjarðarkaupstað sem fram fór 29. ágúst sl. er rétt að minna á nokkur atriði.  Skriðuhætta er vöktuð á náttúruvárvakt Veðurstofunnar, en hún fylgist með veðurspá og úrkomumælingum. Náttúruvávaktin er í samráði við eftirlitsmann sinn hér á staðnum. Bjarki Borgþórsson er eftirlitsmaður Veðurstofunnar á Seyðisfirði. Það er gert ráð fyrir því að stórar skriður úr Neðri Botnum geri boð á undan sér, að þær falli í kjölfar stórrigninga. Skriður af þessari stærð eru afar sjaldgæfar en slíkar skriður hafa ekki fallið síðan land byggðist. Almannavarnarteymið hér á staðnum mun funda um þessi mál á næstunni og í framhaldinu senda frá sér tilkynningu. Von er á svissneskum sérfræðingum til þess að skoða svæðið sunnan fjarðar og í október fara út sérfræðingar á sviði ofanflóðamála frá Íslandi til þess að skoða ofanflóðavarnir fyrir aurflóð í Sviss og Austurríki. Með sérfræðingahópnum fer fulltrúi frá sveitarfélaginu. Lögð verður áhersla á að verja svæðið og að þeirri vinnu verði hraðað eins og kostur er í samráði við ofanflóðasjóð.“

Forseti gaf orðið laust

Til máls tóku Oddný, bæjarstjóri, Þórunn, bæjarstjóri.

 

4. Sameiginlegur bæjarráðsfundur Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 26.08.2019

Lagt fram til kynningar.

Forseti gaf orðið laust

Til máls tók Elvar Snær.

 

5. Pottasöfnun – staða mála

Lagt fram til kynningar.

Forseti gaf orðið laust

Til máls tóku Oddný og bæjarstjóri.

 

6. Umferðaöryggisáætlun – staða mála

Lagt fram til kynningar.

Forseti gefur orðið laust.

Til máls tóku bæjarstjóri og  Ágúst.

 

7. Endurgerð knattspyrnuvallarins við Garðarsveg

Greinargerð lögð fram af meirihluta og bæjarstjóra:

„Á bæjarstjórnarfundi nr. 1743 var samþykkt með atkvæðum allra bæjarfulltrúa að fara í það að bjóða út endurbætur á Garðarsvelli og að sveitarfélagið myndi taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga upp á 35 milljónir  til verksins. Útboðið var auglýst 11.02.2019. Það var innan tímaramma sem Efla hafði gefið út. Einungis einn aðili sótti útboðsgögn, en engin tilboð bárust í verkið. Við eftirgrennslan um ástæðu þess að verktakinn hafi hætt við tilboðið kom í ljós að hann hafði ýmsar athugasemdir við kostnaðarmat á nokkrum veigamiklum þáttum verksins.  Á fundi bæjarráðs nr. 2464 var skipulags- og byggingarfulltrúa svo falið að óska eftir tilboðum í einstaka hluta verksins. Bæjarstjóri gerði kröfu til skipulags- og byggingarfulltrúa um að endanleg heildarkostnaðaráætlun allra verkhluta lægi fyrir áður en hægt væri að leita tilboða í einstaka verkhluta eins og tillaga bæjarráðs hljóðaði uppá. Skipulags- og byggingarfulltrúi hefur upplýst um að kostnaðarmat við einstaka verkhluta væru talsvert undir raunkostnaði. Það vantar t.d. kostnaðarmat á akstri jarðefna, en það þarf t.d. að aka langar leiðir til þess að ná í sum þeirra jarðefna sem verkáætlun Eflu gerir ráð fyrir að notuð verði. Bent hefur verið á að mögulega sé hægt að fara einfaldari leiðir í efnisvali og framkvæmdinni, sem borin var fram á fundi bæjarstjórnar, við dræmar undirtektir. Það er þekkt fyrirbæri að opinberar framkvæmdir fari langt fram úr áætlun vegna vanáætlana. Nýjasta dæmið er hinn frægi Braggi í Nauthólsvík, Vaðlaheiðargöng o.s.frv. Í útboðsgögnunum kemur fram að mikilvægt sé að vinna verkið í einu lagi af hagkvæmnisástæðum, verði það ekki hægt er væntanlega aukinn kostnaður við verkið. Lagt er því til að kostnaðar- og verkáætlun verði tekin til endurskoðunar með tilliti til þess sem fram hefur komið.“

Forseti gaf orðið laust

Til máls tóku Elvar, bæjarstjóri, Oddný, bæjarstjóri, Elvar, Villhjálmur, bæjarstjóri, Þórunn.

 

8. Íbúðalánasjóður - 20.08.2019 - Fréttabréf íbúðalánasjóðs

Lagt fram til kynningar.

 

9. Aron Thorarensen persónuverndarfulltrúi – 29.08.2019 – Að láta álagningaskrá RSK liggja frammi á bæjarskrifstofunni

Lagt fram til kynningar.

 

10. Samband íslenskra sveitarfélaga – 30.08.2019 – Sjávarútvegsfundur 2019, Samtök sjávarútvegssveitarfélaga

Lagt fram til kynningar.

Til máls tók Vilhjálmur.

 

11. Rarik – 22.08.2019 – Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna strenglagningar í Austdal

Forseti ber upp eftirfarandi tillögu:

„Rarik sækir um framkvæmdarleyfi vegna lagningu háspennustrengs og ljósleiðara sem mun koma í stað loftlínu í Austdal. Bæjarstjórn samþykkir að veita Rarik framkvæmdaleyfi vegna verksins.“

Forseti gefur orðið laust.

Til máls tók bæjarstjóri.

 

Tillaga samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

12. Hlíðarvegur 12 – Umsókn um stækkun á byggingareit

Forseti ber upp eftirfarandi tillögu.

,,Margrét Guðjónsdóttir kt. 141281-5779 sækir um stækkun fyrirhugaðs byggingareits á lóð við Hlíðarveg 12. 

Skipulagsfulltrúi sveitarfélagsins leggur til að stækka frekar lóðina sjálfa á kostnað næstu lóðar þar sem annars væri fyrirhugaður byggingareitur kominn mjög nálægt aðliggjandi læk. Bæjarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti að fyrirhuguð lóð verði stækkuð um 3 m til norðurs og verður þá lóðin 1020,6 m2 að stærð. Bæjarstjórn samþykkir stækkun lóðarinnar.“

 Forseti gaf orðið laust.

Til máls tóku Elvar og bæjarstjóri.

 

Tillaga samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

13. Jafnréttisáætlun

Forseti ber upp eftirfarandi tillögu:

,,Bæjarstjórn samþykkir framlagða Jafnréttisáætlun 2019-2023.“

 Forseti gefur orðið laust

Tillaga samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

14. Fjallskil – Tillaga að nýjum umsjónaraðila

Forseti ber upp eftirfarandi tillögu:

,,Bæjarstjórn samþykkir tillögu fjallskilastjóra Seyðisfjarðarkaupstaðar um að Guðjón Sigurðsson taki við fjallskilastjórn.“

Forseti gefur orðið laust.

Til máls tóku Oddný, Vilhjálmur, bæjarstjóri, Oddný,

Elvar leggur fram breytingatillögu:

,,Bæjarstjórn samþykkir tillögu fjallskilastjóra Seyðisfjarðarkaupstaðar um að Guðjón Sigurðsson taki við fjallskilastjórn samkvæmt fjallaskilasamþykkt Múlasýslna og Þórunn Sigurðardóttir verði fjallskilastjóri til vara.“

 

Tillaga samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

Fundargerð á 8 bls.
Fundi slitið kl. 19.21