1758. bæjarstjórn 12.02.20

1758. fundur bæjarstjórnar Seyðisfjarðar

Miðvikudaginn 12. febrúar 2020 heldur bæjarstjórn Seyðisfjarðar fund í íþróttamiðstöðinni (fundarsal 2. hæð) og hefst fundurinn kl. 16:00. 

 

Fundinn sátu:

Hildur Þórisdóttir forseti L-lista,

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir í stað Þórunnar Hrundar Óladóttur L-lista,

Arna Magnúsdóttir L-lista,

Vilhjálmur Jónsson B-lista,

Oddný Björk Daníelsdóttir D-lista,

Rúnar Gunnarsson L-lista,

Elvar Snær Kristjánsson D-lista,

Aðalheiður Borgþórsdóttir bæjarstjóri.

 

Fundarritari var Eva Jónudóttir.

 

Gerðir fundarins:

Forseti bauð fundarmenn velkomna til fundar og setti fundinn.

 

Dagskrá:

 

1. 2496. fundur bæjarráðs frá 22.01.2020

Eftirfarandi fundargerð lögð fram með fundargerðinni:

Ferða- og menningarnefnd frá 09.01.2020

 

Fundargerð opnuð fyrir umræðu.

Til máls tók Rúnar formaður bæjarráðs sem kynnti fundargerðina.

Elvar Snær um lið 4 sem leggur fram bókun :

„Fram kemur í bókun bæjarstjóra frá fundi bæjarráðs númer 2496 að ástæða sé til að leiðrétta alvarlega rangfærslu. Eftir yfirlestur bókunnarinnar fæst ekki séð að útskýringu sé þar að finna. Hér að neðan er frekari rökstuðningur á orðalaginu „almennir styrkir“.

Við fjárhagsáætlunargerð eru samþykktir fjölmargir styrkir til ýmissa málefna. Það er hins vegar bara ein deild (2159 - ýmis útgjöld), sem er ekki eyrnamerkt sérstöku málefni. Undir þessari deild er lykill númer 9991, styrkir og framlög. Hann hefur verið nýttur í tiltölulega lágar óvæntar styrktarbeiðnir sem koma jafnt og þétt út árið. Á þennan lykil var samþykkt að setja kr. 3.000.000 í fjárhagsáætlun. Viðaukinn sem bæjarstjórn samþykkti þann 15. janúar fór af þessum lykli yfir á Lunga skólann (deild 04591). Þess vegna lítum við svo á að þriðjungur af þeirri upphæð sem ætlað er til almennra styrkja hafi runnið til Lunga skólans sem aukastyrkur og að svo kallaðar útskýringar bæjarstjóra séu einbeittur vilji til misskilnings.

Elvar Snær Kristjánsson
Oddný Björk Daníelsdóttir“

Forseti leggur fram bókun fyrir meirihlutann :

„Meirihlutinn vísar dylgjum minnihlutans á bug og vísar til fundar bæjarráðs númer 2496 þar sem rangfærslum var svarað. Meirihlutinn hvetur fulltrúa minnihlutans til uppbyggilegri vinnubragða sem geta stuðlað að framgangi brýnna verkefna bæjarbúum til heilla.“

Til máls tóku Rúnar, Elvar Snær og bæjarstjóri.

 

Fundargerð samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

2. 2497. fundur bæjarráðs frá 29.01.2020

Eftirfarandi fundargerð lögð fram með fundargerðinni:

Velferðarnefnd frá 21.01.2020

 

Tillaga í lið 3 tekin fyrir sem liður 4 í fundargerð bæjarstjórnar

 

Fundargerð opnuð fyrir umræðu.

Til máls tók Rúnar formaður bæjarráðs sem kynnti fundargerðina. Oddný Björk, Hildur og Elvar Snær um lið 5.

 

Fundargerð samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

3. 2498. fundur bæjarráðs frá 06.02.2020

Eftirfarandi fundargerð lögð fram með fundargerðinni:

Fræðslunefnd frá 30.01.2020

 

Fundargerð opnuð fyrir umræðu.

Til máls tók Rúnar formaður bæjarráðs sem kynnti fundargerðina.

 

Fundargerð samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

4. Afsláttur af fasteignaskatti fyrir 2020

Bæjarráð leggur eftirfarandi tillögu fyrir bæjarstjórn:

„Bæjarstjórn samþykkir framlagða tillögu að fjárhæðum og reglum um afslátt af fasteignaskatti fyrir 2020 samkvæmt umræðum á  fundinum.“

 

Reglur um afslátt af fasteignaskatti hjá Seyðisfjarðarkaupstað árið 2020.

1. gr.

Tekjulágum eftirlauna- og örorkulífeyrisþegum sem eiga lögheimili á Seyðisfirði er veittur afsláttur af fasteignaskatti af samþykktu íbúðarhúsnæði, samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar Seyðisfjarðar ár hvert og reglum þessum, sbr. heimild í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

2. gr.  

Rétt til afsláttar eiga íbúðareigendur á Seyðisfirði sem búa í eign íbúð og:

a) eru 67 ára við upphaf álagningarárs, eða eldri.

b) hafa verið úrskurðaðir 75% öryrkjar fyrir upphaf álagningarárs samkvæmt vottorði.

c) hafa ekki leigutekjur af viðkomandi húsnæði.

d) hafa ekki fullvinnandi einstakling/einstaklinga, aðra en maka búsetta á heimilinu.

e) hafa skilað inn með umsókninni staðfestu afriti af skattframtali síðast liðins árs

f) ásamt yfirliti yfir fjármagnstekjur sama árs.

3. gr.

Hjón og samskattað sambýlisfólk fær fullan afslátt þó að einungis annar aðilinn uppfylli skilyrði 2.gr. Ef um fleiri en einn íbúðareiganda er að ræða að sömu eign, sem ekki uppfylla skilyrði 1.mgr., er veittur afsláttur til þeirra sem uppfylla skilyrði 2. gr., í samræmi við eignarhluta þeirra.

4. gr.

Afsláttur af fasteignaskatti er tekjutengdur og er allt að kr. 91.000.

Afsláttur er hlutfallslegur að teknu tilliti til allra skattskyldra tekna, þ.m.t. eignatekna og 50% fjármagnstekna síðast liðins árs, samkvæmt skattframtali.

Miðað er við sameiginlegar tekjur hjóna og samskattaðs sambýlisfólks (tekjur í reitum 2.7 og 3.10 á skattframtali).

5. gr.

Tekjumörk eru sem hér segir:

Einstaklingar:

Fullur afsláttur skv. 4. gr. með tekjur allt að kr. 3.087.000

Engan afslátt með tekjur yfir kr. 4.051.000

Hjón og samskattað sambýlisfólk:

Fullur afsláttur skv. 4 gr. með tekjur allt að kr. 4.341.000

Engan afslátt með tekjur yfir kr. 5.500.000

Ef tekjur eru á framangreindu bili er veittur hlutfallslegur afsláttur.

6. gr.  

Sækja skal um afslátt af fasteignaskatti á eyðublöðum frá Seyðisfjarðarkaupstað. Hægt er að sækja umsóknareyðublöð á heimasíðu kaupstaðarins www.sfk.is.

Með umsókn skal skila:

a) afriti af skattframtali vegna síðast liðins árs, staðfestu af skattstjóra, með útfylltu yfirliti fyrir fjármagnstekjur.

b) afriti af örorkuskírteini ef umsækjandi er 75% öryrki.

7. gr.

Bæjarstjórn Seyðisfjarðar endurskoðar reglurnar tímanlega fyrir álagningu hvers árs.

 

Tillaga samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

5. Endurnýjun þríhliða samnings við Skaftfell miðstöð myndlistar

Á fundi ferða- og menningarnefndar mánudaginn 10. febrúar var eftirfarandi bókun gerð:  „Nefndin leggur til við bæjarstjórn að gerður verði viðauki vegna hækkunar samnings, úr 4 milljónum í 5 milljónir.“

 

Forseti ber upp eftirfarandi tillögu:

Bæjarstjórn felur bæjarráði fullnaðarafgreiðslu á málinu og bæjarstjóra að gera viðauka vegna einnar milljónar sem hækkun samningnsins gerir ráð fyrir.“

 

Tillaga samþykkt með sjö greiddum atkvæðum.

 

6. Eyrarrósin

Afhending Eyrarrósarinnar sem fara átti fram föstudaginn 14. febrúar hefur verið aflýst vegna veðurs og mun fara fram á Bessastöðum þann 26. febrúar. Listahátíðinni List í ljósi hefur veirð flýtt um einn dag vegna veðurs.

Bæjarstjórn Seyðisfjarðar óskar framkvæmdastjórum „List í ljósi“ til hamingju með 5. hátíðina og vonar að sem flestir Austfirðingar komi og njóti hátíðarinnar með okkur.

 

Fundargerð á 7 bls.
Fundi slitið kl. 16.40.