1768. bæjarstjórn 01.10.20
1768. fundur bæjarstjórnar Seyðisfjarðar
Fimmtudaginn 1. október 2020 hélt bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar fjarfund í Zoom og hófst fundurinn kl. 16:00.Fundurinn var tekinn upp og verður birtur á vef kaupstaðarins að fundi loknum.
Fundinn sátu:
Hildur Þórisdóttir forseti L-lista,
Þórunn Hrund Óladóttir L-lista,
Benedikta G. Svavarsdóttir L-lista,
Oddný Björk Daníelsdóttir D-lista,
Rúnar Gunnarsson L-lista,
Elvar Snær Kristjánsson D-lista,
Aðalheiður Borgþórsdóttir bæjarstjóri,
Vilhjálmur Jónsson B-lista, var fjarverandi vegna tæknilegra vandamála.
Fundarritari var Eva Jónudóttir.
Gerðir fundarins:
Forseti býður fulltrúa velkomna og setur fundinn.
Dagskrá:
1. 2523. fundur í bæjarráði frá 16.09.2020
Eftirfarandi fundargerðir lagðar fram með fundargerðinni :
Velferðarnefnd 01.09.2020
Ferða- og menningarnefnd 07.09.2020
Fræðslunefnd 07.09.2020
Til máls tóku Rúnar formaður bæjarráðs sem kynnti fundargerðina, Elvar Snær og bæjarstjóri um lið 9
Fundargerð samþykkt með sex greiddum atkvæðum.
2. 2524. fundur í bæjarráði frá 23.09.2020
Eftirfarandi fundargerð lögð fram með fundargerðinni :
Umhverfisnefnd 17.09.2020
Fundargerð samþykkt með sex greiddum atkvæðum.
3. Aðalskipulagsbreyting vegna námu í Stafdal
Lögð fram tillaga að skipulags- og matslýsingu vegna breytingar á Aðalskipulagi Seyðisfjarðarkaupstaðar 2010-2030 vegna efnistökusvæðis í Stafdal:
„Bæjarstjórn samþykkir tillögu að skipulags- og matslýsingu og felur skipulagsfulltrúa að kynna hana og afla umsagna skv. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.“
Tillaga samþykkt með sex greiddum atkvæðum.
4. HMS lánsvilyrði
Tilkynning hefur borist frá HMS varðandi samþykki umsóknar um leiguíbúðalán málsnúmer. 202005264.
Lagt fram til kynningar.
5. Íbúðakjarni staða mála
Bæjarstjóri og formaður bæjarráðs lögðu fram minnisblað frá fundum með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), Verkís og Sigurði Álfgeiri þar sem farið var yfir ýmis mál tengd íbúðakjarnanum. Það hefur komið í ljós að ekki er heimilt að bjóða stofnframlagið út sem þýðir að sú leið að fara með verkefnið í heild sinni í útboð er ekki fær nema ef sveitarfélagið sjálft verði eigandi Húsnæðis sjálfseignarstofnunar (HSES).
Sauðárkrókur og Vesturbyggð eru um þessar mundir að ganga frá samningi við einkarekið HSES um byggingu íbúða með stofnframlagi frá HMS. Hér er um fyrirmyndagjörning að ræða sem bæjarstjóri og forseti bæjarstjórnar mæla með að litið verði til varðandi íbúðakjarna á Seyðisfirði.
Forseti leggur fram eftirfarandi tillögu:
„Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar leggur til við bæjarstjórn nýs sameinaðs sveitarfélags að fylgja málinu eftir.“
Til máls tók bæjarstjóri.
Tillaga samþykkt með sex greiddum atkvæðum.
6. Snjóflóðavarnir, Aldan og Bakkahverfi, skipulagsvinna
Forseti ber upp eftirfarandi tillögu:
„Bæjarstjórn samþykkir að hefja skipulagsvinnu vegna snjóflóðavarna á Seyðisfirði, Aldan og Bakkahverfi og láta vinna verkefnislýsingu vegna breytinga á aðalskipulagi.“
Tillaga samþykkt með sex greiddum atkvæðum.
7. Framkvæmdasýsla ríkisins – 28.09.2020 – Snjóflóðavarnir á Seyðisfirði, Aldan og Bakkahverfi, tillaga að töku tilboðs
Tilboð í framkvæmdir við Snjóflóðavarnir á Seyðisfirði – Aldan og Bakkahverfi – Verðkönnun í hönnun varnargarða, en tilboð voru opnuð þann 22. september sl.
Þrjú tilboð bárust og sjást yfirfarnar niðurstöðutölur tilboðanna á tilboði sem lá fyrir fundinum. Lægsta tilboðið átti Hnit verkfræðistofa hf. og mælir Framkvæmdasýsla ríkisins með að því tilboði verði tekið.
Forseti ber upp eftirfarandi tillögu:
„Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar samþykkir tillögu Framkvæmdasýslunnar að taka tilboði Hnit verkfræðistofu hf.“
Tillaga samþykkt með sex greiddum atkvæðum.
8. Fjarðarheiðargöng , skipulagsvinna
Forseti ber upp eftirfarandi tillögu:
„Bæjarstjórn samþykkir að hefja skipulagsvinnu vegna vegstæðis Fjarðarheiðarganga, Seyðisfjarðarmegin og láta vinna verkefnislýsingu vegna breytinga á aðalskipulagi.“
Tillaga samþykkt með sex greiddum atkvæðum.
9. Gamla ríkið, hugmyndasamkeppni
Fjórar umsóknir bárust inn í hugmyndasamkeppnina um Gamla ríkið, Hafnargötu 11. Þrjár umsóknir eru til efnislegrar skoðunar. Vinnuhópur Gamla ríkisins kallar eftir upplýsingum frá bæjarstjórn varðandi leigu eða sölu eignarinnar.
Forseti ber upp eftirfarandi tillögu:
„Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar leggur til við sveitarstjórn nýs sameinaðs sveitarfélags að fela heimastjórn á Seyðisfirði að halda utan um þetta verkefni þar sem málið er á byrjunarstigi og er mál sem snertir nærsamfélagið á Seyðisfirði.“
Til máls tóku bæjarstjóri, Oddný Björk, bæjarstjóri, Elvar Snær, bæjarstjóri, Rúnar, Oddný Björk og bæjarstjóri.
Tillaga samþykkt með fjórum greiddum atkvæðum; Hildar, Rúnars, Þórunnar Hrundar og Benediktu. Tveir greiddu á móti; Elvar Snær og Oddný Björk.
10. Ljósleiðari og samstarf við Mílu
Fyrir fundinum liggur minnisblað varðandi ljósleiðaravæðingu hjá Seyðisfjarðarkaupstað en Míla sér um framkvæmdina.
Hugrún Hjálmarsdóttir sem er nýr umhverfis- og framkvæmdastjóri sameinaðs sveitarfélags kom til fundar við bæjarstjóra og byggingarfulltrúa varðandi málið og saman sátu þau fund með Mílu varðandi framkvæmdir sem eru í gangi um þessar mundir.
Áfangarnir sem eru á dagskrá eru eftirtaldir:
- Langitangi, 6 staðir, kostnaðaráætlun 5.575.000 kr. , styrkur fékkst að fjárhæð 1.975.000 kr.
- Dvergasteinn, 3 staðir, kostnaðaráætlun 12.526.000 kr., þar af áætlað að styrkur yrði 10.726.000 kr.
- Hánefsstaðir-Skálanes, 2 staðir, kostnaðaráætlun 40.590.000 kr., þar af áætlað að styrkur yrði 39.390.000 kr. Í þessum verkþætti var einnig lagt til sú leið að sem hluti af ljósleiðaralögn yfir í Mjóafjörð og áfram í Norðfjörð yrðu þessir staðir tengdir. Þá lækkar kostnaðaráætlun í 9.750.000 kr, þar af áætlað að styrkur yrði 8.550.000 kr. Hánefsstaðir eru þegar tengdir og hagkvæmast er að tengja Skálanes með þráðlausri lausn.
Lagt fram til kynningar.
11. Menning og listir
Hildur, Rúnar, Benedikta, Þórunn Hrund, Oddný Björk og Vilhjálmur leggja fram eftirfarandi bókun:
Seyðisfjarðarkaupstaðar brýnir nú á síðasta fundi sínum fyrir ríki og sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar nokkur atriði er snúa að menningu, listum, safna- og menntamálum á Seyðisfirði.
Greinargerð með bókun
Að lokum ber forseti bæjarstjórnar upp eftirfarandi kveðjur:
Megi gæfan fylgja Seyðisfjarðarkaupstaði í nýju sameinuðu sveitarfélagi sem mun vonandi færa okkur aukinn styrk og sóknarfæri. Ég óska þeim fulltrúum sem hlutu kjör í nýja sveitarstjórn til hamingju og megi störf ykkar einkennast af heilindum í þágu íbúa nýs sveitarfélags.
Fundargerð á 7 bls.
Fundi slitið kl. 17:35