2481. bæjarráð 28.08.19

Miðvikudaginn 28. ágúst 2019 kom bæjarráð Seyðisfjarðar saman til fundar á skrifstofu kaupstaðarins að Hafnargötu 44. Fundurinn hófst kl. 16:00. 

 

Fundinn sátu:

Rúnar Gunnarsson formaður L – lista.

Hildur Þórisdóttir L –lista.

Elvar Snær Kristjánsson D – lista.

Vilhjálmur Jónsson áheyrnarfulltrúi B – lista.

Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri.

 

Fundargerð ritaði bæjarstjóri.

Fundargerð var færð í tölvu.

 

 

Dagskrá:

1. El Grillo – Símafundur með  Arnoddi Erlendssyni kl. 16:00

Símafundur við Arnodd þar sem ræddir voru möguleikar á tæmingu úr olíutönkum El Grillo sem hann telur vel gerlegt.

 

2. Fundagerðir:

2.1. Velferðarnefnd - 20.08.2019

„Vegna liðar 4 samþykkir bæjarráð að formaður Velferðarnefndar sæki landsfund um jafnréttismál sveitarfélaga þann 4. og 5. September.“

Vegna liðar 2, liðnum vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

Fundargerð samþykkt.

2.2. 2480 fundargerð bæjarráðs - 15.08.2019 - liður 1. til umræðu

Með vísan í 35. gr. svetarstjórnarlaga, 5. mgr þarf samþykki allra bæjarráðsfulltrúa til fullnaðarafgreiðslu mála á fundum bæjarráðs þegar bæjarstjórn er í sumarleyfi. Það þýðir að fullnaðarafgreiðsla bæjarráðs á umsögn vegna breytingar á umsókn á gildandi rekstrarleyfi Sirkus er ógild. Umsögnin verður því tekin til fullnaðarafgreiðslu á fundi bæjarstjórnar í september.

 

Bæjarráð vísar eftirfarandi beiðni til fullnaðarafgreiðslu til bæjarstjórnar: 

„Sirkus – Beiðni um umsögn vegna breytingar á umsókn á gildandi rekstrarleyfi Sirkus – framhald frá fundi bæjarráðs nr. 2478 .

Fyrir fundinum liggur bréf frá HAUST varðandi hávaðamælingu sem fara mun fram hjá Sirkus, einnig bréf frá skipulags- og byggingarfulltrúa sem sent hefur verið til Sirkus varðandi úrbætur og fresti varðandi gám, moldarhaug á lóð og pall.

Bæjarráð veitir jákvæða umsögn um breytingar á umsókn á gildandi rekstrarleyfi Sirkus sem tekið var fyrir á fundi bæjarráðs nr. 2478. Bæjarráð samþykkir aukinn opnunartíma til kl. 03 um helgar og á lögbundnum frídögum með fyrirvara um að úrbótum sem HAUST og skipulags- og byggingarfulltrúi fara fram á, verði framfylgt og að frestur til úrbóta verði virtur.“

 

3. Erindi:

3.1. Samtök Grænkera 20.08.2019 - Áskorun vegna hamfarahlýnunar.

Lagt fram til kynningar.

3.2. Skrifstofa sveitarfélaga og byggðamála – 19.08.2019 - Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga.

Forseta bæjarstjórnar falið að leggja fram drög að umsögn fyrir bæjarráð.

3.3. Skipulagsstofnun –  21.08.2019 – Strenglagning í Austdal við Seyðisfjarðarkaupstað – Ákvörðun um matsskyldu.

Lagt fram til kynningar. 

3.4. Rarik – 22.08.2019 – Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna strenglagningar í Austdal.

Erindinu vísað til umhverfisnefndar.

3.5. Tillaga til þinsályktunar, lögþvinguð sameining.

Bæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar leggur fram eftirfarandi bókun:

Bæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar mótmælir öllum hugmyndum um lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga á Íslandi og hvetur ráðamenn til þess að virða hagsmuni íbúa og sjálfsákvörðunarrétt í eigin málefnum. Sameining sveitarfélaga getur verið ákjósanleg og skynsamleg en slíkt verður að gerast á forsendum þeirra sem um ræðir. Líkt og sameiningarviðræður sveitarfélaga á Austurlandi bera vitni um.

3.6. Alcoa – 26.08.2019 – sveitarstjórnarmönnum boðið á fund þar sem aðal áherslan er á loftslagsmál.

Lagt fram til kynningar.

 

4. Framkvæmdir í sveitarfélaginu

Bæjarstjóri fer yfir stöðu mála.

 

5. Áhaldahús - minnisblað um leka

Lagt fram til kynningar. Minnisblaðinu vísað til Hafnarmálaráðs.

 

6. Efla 21.08.2019  - Sundhöll, viðhalds- og endurbótatillögur

Úttektin er hluti af framkvæmdaáætlun ársins 2019 og fellur vel að verkefninu sem Húsafriðunarnefnd styrkti árið 2018. Húsafriðunarnefnd styrkti Seyðisfjarðarkaupstað um 2.000.000 til úttektar á Sundhöllinni. Þórhallur Pálsson hefur skilað ástandsskýrslu, en í hana vantaði kostnaðarmat á viðhaldi og endurbótum auk þess liggur fyrir fundinum úttektar og kostnaðaráætlun Eflu. Skýrslurnar þarf að skoða og samræma. Skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að bera þær saman og að koma með tillögu að næstu skrefum sem og forgangsraða í samvinnu við Minjastofnun.

 

7. Fjármálaráðstefnan

Bæjarfulltrúum og bæjarstjóra býðst að sækja fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2019 . Ráðstefnan fer fram dagana 3.-4. október.

 

8. Garðarsvöllur

Greinagerð

Áheyrnarfulltrúinn Vilhjálmur Jónsson fer fram á að bæjarstjóri geri grein fyrir stöðu verkefnisins “endurgerð knattspyrnuvallar við Garðarsveg” sem hér með birtist.

Á bæjarstjórnarfundi nr. 1743 var samþykkt með atkvæðum allra bæjarfulltrúa að fara í það að bjóða út endurbætur á Garðarsvelli og að sveitarfélagið myndi taka lán hjá Lánasjóði Sveitarfélaga upp á 35 milljónir  til verksins.

Útboðið var auglýst 11.02.2019. Það var innan tímaramma sem Efla hafði gefið út. Einungis einn aðili sótti útboðsgögn, en engin tilboð bárust í verkið. Við eftirgrennslan um ástæðu þess að verktakinn hafi hætt við tilboðið kom í ljós að hann hafði ýmsar athugasemdir við kostnaðarmat á nokkrum veigamiklum þáttum verksins.  Á fundi bæjarráðs nr. 2464 var skipulags- og byggingarfulltrúa svo falið að óska eftir tilboðum í einstaka hluta verksins. Bæjarstjóri gerði kröfu til skipulags- og byggingarfulltrúa um að endanleg heildar kostnaðaráætlun allra verkhluta lægi fyrir áður en hægt væri að leita tilboða í einstaka verkhluta eins og tillaga bæjarráðs hljóðaði uppá. Skipulags- og byggingarfulltrúi hefur tjáð bæjarstjóra að kostnaður við einstaka verkhluta væru talsvert undir raunkostnaði. Það vantar t.d. kostnaðarmat á akstri jarðefna, en það þarf t.d. að aka langar leiðir til þess að ná í sum þeirra jarðefna sem verkáætlun Eflu gerir ráð fyrir að notuð verði. Það er þá verkþáttur sem klárlega þarf að endurskoða. Það hefur verið bent á að mögulega sé hægt að fara einfaldari leiðir í efnisvali og framkvæmdinni allri. Bæjarstjóri kynnti þær hugmyndir lauslega á 1752. fundi bæjarstjórnar í síðustu viku við dræmar undirtektir.

Það er alþekkt fyrirbæri að opinberar framkvæmdir fari langt fram úr áætlun vegna vanáætlana. Nýjasta dæmið er hinn frægi Braggi í Nauthólsvík, Vaðlaheiðargöng o.s.frv. Markmið mitt er að forðast allt slíkt

Í útboðsgögnunum kemur fram að mikilvægt sé að vinna verkið í einu lagi af hagkvæmnisástæðum, verði það ekki hægt er væntanlega aukinn kostnaður við verkið. Í greinagerð sem minnihlutinn lagði fram á 1745. Fundi bæjarstjórnar 10. janúar s.l. kemur eftirfarandi fram:

 

Greinargerð

Fyrir liggur að með framangreindum breytingartillögum er framkvæmdin fjármögnuð miðað við áætlanir og samkvæmt greinargerð frá bæjarstjórnarfundi í ágúst síðastliðnum. Framkvæmdin er tilbúin til útboðs. Nokkur óvissa eru um hluta framkvæmda í framkvæmdaáætlun þar sem þær hafa ekki verið kostnaðarmetnar eða að hönnun liggi fyrir og því kann að vera að hluti þeirra gangi ekki fram innan tímamarka.”

 

Undirrituð leggur því til að kostnaðar- og verkáætlun verði tekin til endurskoðunar með tilliti til þess sem fram hefur komið. Síðan þegar endurskoðuð áætlun liggur fyrir þá fyrst sé raunhæft að kalla eftir tilboðum í einstaka verkhluta. Undirrituð leggur einnig til að veturinn sem framundan er verði notaður til þess að leita tilboða í verkhluta, undirbúa og að púsla verkefninu saman. Og að framkvæmd verksins verði frestað fram á næsta vor, nema aðrar snilldarlausnir finnist á næstu vikum. Þá þarf einnig að huga að því að styrkur KSÍ sem og lánsloforð verði fært yfir á næsta ár, 2020.

 

Skipulags- og byggingarfulltrúi hefur notað þann tíma sem hann hefur haft kost á til þess að leita lausna, hann leggur fram greinagerð um málið undir þessum lið.

 

Að það sé einhver vilji þeirrar sem undirritar þessa greinagerð eða þeirra sem sitja í bæjarstjórn til þess að þetta verk verði ekki að veruleika er vísað til föðurhúsanna. Það er afar mikilvægt að staldra við og skoða vel og vandlega hvernig best er að stíga næstu skref. Gagnrýni á tímalengd í afgreiðslu mála hjá sveitarfélaginu er ekki réttmæt að mati undirritaðrar. Við búum við það að vera undirmönnuð í mörgum deildum stofnanna sveitarfélagsins og kröfur um afkastagetu oft á tíðum í engu samræmi við þann mannafla sem við höfum. Starfsfólk kaupstaðarins er í mörgum tilfellum eitt á sinni starfsstöð. Svo ef starfsmaður þarf að fara á fund, taka sér veikinda- eða sumarfrí er engin sem leysir viðkomandi af og verkefnin hlaðast upp. Mál eru því afgreidd eins og hægt er miðað við þær aðstæður sem starfsfólki okkar eru búin hverju sinni. Kröfur um þjónustustig er í engu samræmi við getu stofnanna sveitarfélagsins og fjármagni sem er til ráðstöfunnar. Ég hvet til þess að það verði tekið til greina.

 

Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri.

 

Bæjarstjóra falið að heyra í Mannvirkjanefnd KSÍ og leita ráðgjafar varðandi málið.

 

9. Heimsókn frá stjórn og framkvæmdastjórn Rarik kl. 17:30 

Fulltrúar úr stjórn og framkvæmdastjórn Rarik settust með bæjarráði og ræddu sameinleg hagsmunamál, hitaveitumál og mögulegar lausnir og yfirtöku sveitarfélagsins á götulýsingu. Bæjarráð þakkar fulltrúum Rarik kærlega fyrir góðan fund.

 

10. Þófi og Botnar. – Fulltrúa Seyðisfjarðar býðst að fara með í ferð sérfræðinga til Sviss og Austurríkis vegna ofanflóðavarnarmála í október. 

Bæjarráð leggur til að skipulags- og byggingarfulltrúi fari í þessa ferð.

 

11. Fjallskil – Tillaga að nýjum umsjónaraðila

Á fundinum kom fram tillaga frá fjallskilastjóra Seyðisfjarðarkaupstaðar um að Guðjón Sigurðsson tæki að sér að að halda utanum smalamennsku í Seyðisfirði. Hlutverk hans yrði að stýra smölun og að safna saman mannskap til verksins.

 

Bæjarráð vísar málinu til umhverfisnefndar.

 

12. Íbúafundur um Aðalskipulag og nýtt hættumat vegna ofanflóða 

Lagt fram til kynningar.

 

13. Útsending á bæjarstjórnarfundum – útfærsla 

Frestað til næsta fundar.

 

14. Blakdeild Hugins – ósk um stuðning 

Bæjarstjóra er falið að leggja samning við aðalstjórn Hugins fyrir á næsta bæjarráðsfundi.

 

15. Smyril line

 Smyril line býður bæjarstjórn til fundar við forstjóra p/f Smyril line og framkvæmdastjóra Smyril line Íslandi í Reykjavík 24. september. Bæjarráð tekur fundarboðinu með þökkum fyrir hönd bæjarstjórnar.

 

16. Fjármál

16.1. Viðaukar.

Bæjarráð leggur til að viðaukar verði lagðir fyrir bæjarstjórn hið fyrsta.

16.2. Kostnaður vegna endurskoðunar og fjármálaráðgjafa 

Endurskoðun og ráðgjöf er komin 6,1 milljónum fram úr áætlun og ræðst það fyrst og fremst af því að mikil aukavinna fór í leiðréttingar á bókhaldi 2018 og vinnu við leiðréttingu á virðisaukaskattskýrslum. Sú leiðréttingarvinna skilaði rúmum 20 milljónum krónum í tekjur til sveitarfélagsins.

16.3. Hálfsársuppgjör, aðalbók reksturs og efnahags.

Bæjarráð leggur til að á fyrsta bæjarráðsfundi hvers mánaðar verði farið yfir aðalbók rekstrar- og efnahags sem og launaáætlun.

 

Fundi slitið kl.21:00.