2499. bæjarráð 19.02.20
2499. fundur bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar
Miðvikudaginn 19. febrúar 2020 kom bæjarráð Seyðisfjarðar saman til fundar á skrifstofu kaupstaðarins að Hafnargötu 44. Fundurinn hófst kl. 16:00.
Fundinn sátu:
Þórunn Hrund Óladóttir í stað Rúnars Gunnarssonar formanns, L-lista,
Arna Magnúsdóttir í stað Hildar Þórisdóttur L-lista,
Elvar Snær Kristjánsson D-lista,
Vilhjálmur Jónsson áheyrnarfulltrúi B-lista,
Aðalheiður Borgþórsdóttir bæjarstjóri.
Fundargerð ritaði Aðalheiður Borgþórsdóttir.
Fundargerð var færð í tölvu.
Dagskrá:
1. Fundargerðir:
1.1. Ferða- og menningarnefnd frá 10.02.2020
Varðandi liði 2 og 4 samþykkir bæjarráð að fela AMÍ fulltrúa kaupstaðarins að koma sjónarmiðum nefndarinnar á framfæri í starfshópi undirbúningsstjórnar „Íþróttir, tómstundir, menning“.
Fundargerð samþykkt.
2. Erindi:
2.1. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála – 10.02.2020 – Úrskurður vegna kæru Vilhjálms Jónssonar.
Borist hefur úrskurður um kæru Vilhjálms Jónssonar varðandi ákvörðun umhverfisnefndar frá 13. maí sl. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum innanhúss og breyttri notkun hússins að Strandarvegi 13 Seyðisfirði.
„ Niðurstaða nefndarinnar: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskuðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls, umfram aðra, og að þeir hagsmunir séu verulegir.
Málsrök kæranda lúta fyrst og fremst að almannahagsmunum en ekki liggur fyrir með hvaða hætti umdeild ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar snertir persónulega lögvarða hagsmuni hans. Kærandi á ekki heimili í nágrenni við þá fasteign sem hin breytta notkun tekur til og getur því ekki átt kæruaðild á grundvelli grenndarhagsmuna. Sú staðreynd að kærandi er starfandi sveitarstjórnarmaður veitir honum ekki að lögum aðild að kærumáli þessu án þess að hann uppfylli áðurnefnt skilyrði um lögvarða hagsmuni.
Með hliðsjón af framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi uppfyllir ekki skilyrði 3. mgr. 4. gr laga nr. 130/2011 um kæruaðild.
Úrskurðarorð: Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. „
2.2. Bæjarráð Fjallabyggðar – 06 02 2020 – Ofanflóðamál
Lagt fram til kynningar.
2.3. Nefndarsvið Alþingis - 13.02.2020 - 119. mál til umsagnar
Lagt fram til kynningar.
2.4. Gunnlaugur Sæbjörnsson – 11.02.2020 – Staðgreiðsla í jan 2020
Lagt fram til kynningar.
2.5. Tryggvi Gunnarsson –17.02.2020 – lóðarumsókn
Afgreiðslu málsins frestað og bæjarstjóra falið að setja sig í samband við umsækjanda, skipulags- og byggingarfulltrúa og skipulagsstofnun ef á þarf að halda.
3. Samstarf sveitarfélaga:
3.1. RRRáðgjöf - 14.02.2020 - Kosning yfirkjörstjórnar.
Bæjarráð leggur til að auka-bæjarstjórnarfundur verði haldinn í næstu viku þar sem kosning í yfirkjörstjórn og undirkjörstjórn verður afgreidd. Bæjarstjóra falið að boða til fundarins.
4. Samningur milli Skaftfells, SSA og Seyðisfjarðarkaupstaðar og tillaga að viðauka vegna samningsins
Bæjarráð leggur eftirfarandi tillögu fyrir bæjarstjórn:
Bæjarráð samþykkir framlagðan viðauka við fjárhagsáætlun Seyðisfjarðarkaupstaðar 2020.
Viðauki 3 - vegna hækkunar þríhliða samnings milli SSA, Skaftfells og Seyðisfjarðarkaupstaðar kr 1.000.000. Viðaukinn verður fjármagnaður af deild 31102 Viðhald ósundurliðað lykill 4990 Önnur þjónustukaup, bókaður á deild 0589 Lykill 9992 Skaftfell, miðstöð myndlistar.
Meirihluti bæjarráðs Þórunn Hrund Óladóttir og Arna Magnúsdóttir samþykkja framlagðan viðauka. Elvar Snær Kristjánsson situr hjá.
Bæjarráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti og felur bæjarstjóra að undirrita hann fyrir hönd Seyðisfjarðarkaupstaðar.
5. Samband íslenskra sveitarfélaga – 05.02.2020 - Fundargerð 878. fundar stjórnar sambands íslenskra sveitarfélaga
Undir lið 6 – uppbygging ofanflóðavarna.
Bæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar tekur undir eftirfarandi bókun Sambands íslenskra sveitarfélaga.
„Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga átelur að ekki hafi verið staðið við loforðin sem þjóðinni voru gefin um uppbyggingu ofanflóðavarna fyrir aldarfjórðungi, eftir að snjóflóðin féllu í Súðavík og Flateyri. Enn standa ólokin brýn verkefni á hættusvæðum þar sem mannslíf eru í húfi. Að óbreyttu verður þessum framkvæmdum ekki lokið fyrr en líður á síðari hluta þessarar aldar. Við það verður alls ekki unað enda býður sá hægagangur sem verið hefur í uppbyggingunni heim hættu á mannskæðum slysum í þéttbýli. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga skorar á ríkisstjórn Íslands að ljúka uppbyggingu ofanflóðavarna sem fyrst og setja sér metnaðarfull markmið í þeim efnum. Jafnframt óskar sambandið eftir að eiga beina aðkomu að vinnu starfshóps sem fara á yfir framkvæmdaáætlun ofanflóðasjóðs og leggja til áherslur við mótun fjármálaáætlunar 2021-2025. „
Bæjarráð Seyðisfjarðar minnir enn og aftur á að Seyðisfjörður er einn þeirra staða sem kallað hefur eftir vörnum bæði fyrir snjó- og aurflóðum. Sérfræðingar hafa rannsakað og skilað skýrslum, forhönnun varnargarða liggur fyrir en fjármagnið vantar. Bæjarráð Seyðisfjarðar krefst þess að ofanflóðasjóður verði fjármagnaður að fullu og gert kleift að uppfylla skyldur sínar.
7. Bankaheimild
Bæjarstjóri óskar eftir heimild til þess að endurnýja 25 milljóna króna yfirdráttarheimild hjá Landsbanka Íslands vegna bankareiknings númer 770. Um er að ræða venjubundna aðgerð til sveiflujöfnunar vegna ójafnvægis sem myndast milli innborgana og útgreiðslna af reikningum.
Bæjarráð samþykkir heimildina.
8. Flokkun sorps á Seyðisfirði
Ljóst er af því yfirliti frá Íslenska Gámafélaginu sem liggur fyrir fundinum að mikið misræmi er á milli þess og yfirlits sem barst frá Umhverfisstofnun 10.01.2020. Bæjarstjóri hefur nú þegar kallað eftir því við Íslenska Gámafélagið að það sendi leiðréttingu til Umhverfisstofnunar.
Bæjarstjóra falið að hafa samband við Umhverfisstofnun til þess að fylgja málinu eftir.
9. RRRáðgjöf - 14.02.2020 - Frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum og tekjustofnum sveitarfélaga. Umsagnarfrestur er til 27. febrúar
Lagt fram til kynningar.
10. Efla - 12.02.2020 - hönnunarsamningur
Bæjarráð óskar eftir nánari útfærslum á ýmsum þáttum samningsins og öðrum hönnunarþáttum verksins.
Bæjarstjóra falið að fylgja málinu eftir.
Fundi slitið kl.18.18
Fundargerð er á 4 bls.