2520. bæjarráð 19.08.20

2520. fundur bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar

Miðvikudaginn 19.08.2020 kom bæjarráð Seyðisfjarðarsaman til fundar í Zoom fjarfundi. Fundurinn hófst kl. 16:00.  

Fundinn sátu:

Rúnar Gunnarsson formaður, L –lista,

Hildur Þórisdóttir, L -lista,

Elvar Snær Kristjánsson, D – lista,

Vilhjálmur Jónsson áheyrnarfulltrúi, B - lista,

Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri.

 

Fundargerð ritaði Aðalheiður Borgþórsdóttir.

Fundargerð var færð í tölvu.

  

Gerðir fundarins:

1. Íbúðakjarni og næstu möguleg skref. Fulltrúar frá Hrafnshól; Ómar og Sigurður mæta undir þessum lið til að kynna tillögu. 

 

Málið áfram í vinnslu. 

 

2. Sala eigna í Hamrabakka – Undir þessum lið kemur Eva Jónudóttir þjónustufulltrúi inn á fundinn kl. 17:00 til þess að fara yfir félagsleg úrræði og önnur húsnæðismál í kaupstaðnum. Eva yfirgefur fundinn kl. 17:15
 

Bæjarstjóra og þjónustufulltrúa er falið að koma íbúðunum að Hamrabakka 8 og 12 í söluferli. 

 

3. Erindi:
3.1. Samgöngu- og sveitastjórnaráðuneytið - 05.08.2020 – leiðrétt áætlun vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti 2020.

Lagt fram til kynningar. 

3.2. Samband íslenskra sveitarfélaga – 17.08.2020 – Minnkandi starfshlutfall – Atvinnuleysi

Lagt fram til kynningar. 

 

4. Kennslustofur, svar til Vilhjálms við fyrirspurn á 1766. fundi bæjarstjórnar. 


Bæjarstjóri leggur fram eftirfarandi svar við spurningum Vilhjálms Jónssonar varðandi færanlegarkennslustofur í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar á 1766. fundi sínum 12.08.2020: 

 

Bókun Vilhjálms Jónssonar frá 1766. fundi bæjarstjórnar frá 12. 08.2020 og svör bæjarstjóra við spurningum þeim er þar koma fram. Spurningar Vilhjálms eru ská- og feitletraðar. 

Til máls tók Vilhjálmur og leggur fram bókun: 

„Undirritaður gerir alvarlega athugasemd við að umfjöllun á bæjarstjórnarfundi um húsnæðismál Seyðisfjarðarskóla skuli fara fram fyrir luktum dyrum og þegar gögn er enn í dag að berast og málið ekki fullunnið eða afgreitt frá bæjarráði og leggur fram eftirfarandi fyrirspurnir og óskir um upplýsingar.  

Hvenær var og af hverjum tekin ákvörðun um að fela skólastjóra Seyðisfjarðarskóla að afla tilboða í viðbótarkennslustofur (einingahús. „

Skólastjóri ásamt bæjarstjóra, bæjarverkstjóra og byggingarfulltrúa höfðu verið að skoða möguleika á færanlegum skólastofum um nokkra hríð, kölluðu til smiðina Vilhelm Daða og Guðmund Gunnarsson til að skoða möguleika og ástand á því sem þurfti og við átti. Það var einungis um óformlega könnun og eftirgrennslan að ræða. 

Spyrja má til baka hversvegna Vilhjálmur spyrji þessara spurninga nú þar sem færanlegar skólastofur eru í fjárfestingaáætlun kaupstaðarins eins og sjá má í greinagerð með fjárhagsáætlun 2020 og því ekkert óeðlilegt að þessi mál séu skoðuð. Skólastjóra var ekki „falið“ formlega að afla tilboða í kennslustofur, en henni var málið skylt. 

Umræddir starfmenn höfðu verið á útkikkinu bæði eftir viðunandi lausn miðað við þarfir skólans sem skólastjóri hafði hvað besta yfirsýn yfir. Á endanum leiddi margra mánaða eftirgrennslan skólastjóra til Orteka ehf, þar kom fram tilboð sem skólastjóri lagði áherslu á að yrði skoðað alvarlega sbr. tölvupóst og bréf frá skólastjórnendum þar um sem lagðir voru fyrir 1766. fund bæjarstjórnar. 

Líkt og önnur verkefni í fjárfestingaáætlun sveitarfélagsins er starfsmönnum ætlað að koma þeim í framkvæmd: bæjarstjóra, bæjarverkstjóra, skipulags- og byggingarfulltrúa og öðrum forstöðumönnum stofnana eftir því sem við á. Við vinnum oft saman sem teymi og reynum að hjálpast að við lausn mála  í verkefnum sem þessum. 

Hvenær og hvar var auglýsing eftir tilboðum í viðbótarkennslustofur (einingahús) birt og eða hvernig fór val á bjóðendum fram og hverjum gafst færi á að bjóða. „

Þar sem framkvæmdin er undir þeim viðmiðum sem settar eru í reglum um opinber innkaup var ekki auglýst eftir tilboðum. Skólastjóri leitaði eftir aðstoð við að finna notaðar einingar þegar henni þótti sýnt að ekki var neitt að hafa hér í nærsamfélaginu eða á Íslandi sem hentaði. Sjá bréf frá skólastjórnendum sem lagt var fram á 1766. fundi bæjarstjórnar. 

Bæjarstjóri óskaði fyrst og fremst eftir verðhugmyndum frá tveimur aðilum, Hrafnshól og Hoffelli. En þeir aðilar hafa verið að flytja inn einingar. Þeir gátu ekki útvegað notaðar einingar á þessum tímapunkti en gáfu verðhugmyndir í nýjar einingar og leigu á einingum sem lagðar voru fyrir bæjarstjórn að skoða á 1766. fundi sínum.

Hvaða viðmið og eða skilmálar voru sett fyrir tilboðsgerðina sem tilboðin þurftu að uppfylla og hvaða frávik voru heimiluð.“ 

Fjármagnið sem var til ráðstöfunar til kaupa var helsta viðmiðið sem og viðmið um opinber innkaup. Bæjarstjóri kallaði hinsvegar eftir verðhugmyndum frá Hrafnshóli og Hoffelli til viðmiðunar við tilboð frá Orteka.  

Hver óskaði eftir stuðningsyfirlýsingu stjórnenda Seyðisfjarðarskóla við eitt tilboðið í viðbótarkennslustofur (einingahús) fyrir þennan bæjarstjórnarfund og hvernig hún samræmist 10 gr. siðareglna kjörinna fulltrúa kaupstaðarins. „ 

Stuðningsyfirlýsing varðandi eitt tilboð er eitthvað sem aldrei var beðið um. Forseti bæjarstjórnar óskaði hins vegar eftir skriflegum rökstuðningi frá skólastjórnendum hvaða lausn þeim hugnaðist best sem yrði lagt fram sem fundargagn fyrir fundinn. Skólastjórnendur höfðu frumkvæði að og óskuðu eftir að einingarnar frá Orteka ehf. yrðu keyptar og lögðu fram greinargerð þess efnis.. Tilboðið bar brátt að og hafði stuttan líftíma og því þurfti að bregðast hratt við. 

Það var talið mikilvægt að viðhorf skólastjórnenda yrði dregið fram og lagt fyrir bæjarfulltrúa þar sem skólastjórnendur og starfsfólk skólans þekkja best þarfir skólastarfsins. Sjá bréf frá skólastjórnendum sem lagt var fram á 1766. fundi bæjarstjórnar. 

Bæjarstjóri er tengdur eigendum Orteka ehf. og lýsti sig strax vanhæfa gagnvart tilboðinu frá þeim og gerði skólastjórnendunum Svandísi og Þórunni ljóst að þær yrðu að fylgja málinu eftir án aðkomu bæjarstjóra. Tilboðið var skoðað af skólastjórnendum sem og Gunnlaugi bæjarverkstjóra og Vilhelmi Daða smið ásamt öðrum valmöguleikum sem þá lágu fyrir. Byggingarfulltrúi ásamt bæjarverkstjóra og Vilhelm Daða tóku síðan saman kostnaðaráætlun varðandi uppsetningu á einingunum sem lögð verður fyrir bæjarráð. 

Á fundi bæjarstjórnar nr. 1766 gafst Vilhjálmi Jónssyni bæjarfulltrúa kostur á að spyrja og ræða allar þær hugmyndir sem lágu fyrir fundinum og þær hugrenningar sem hér birtast á prenti hefði hann þá fengið svör við,  en hann kaus að þegja þunnu hljóði sem vekur furðu.Fundinum var lokað fyrir þennan lið einmitt í þeim tilgangi að leyfa bæjarfulltrúum að spyrja og ræða fyrirliggjandi tilboð og verðkannanir líkt og venju samkvæmt er jafnan gert á bæjarráðsfundum, en þeir eru ávallt haldnir fyrir luktum dyrum. Svandís skólastjóri mætti sérstaklega undir þeim lið til þess að sitja fyrir svörum. 

Varðandi 10. gr siðareglna kjörinna fulltrúa kaupstaðarins þá hljóðar hún svona: 

„10. Staðfesting. Samþykkt í bæjarstjórn 11. júní 2013, eftir aðra umræðu. Reglurnar voru teknar til umfjöllunar í fyrri umræðu bæjarstjórnar á fundi 8.05.2013.“  Ekki er augljóst hvernig bæjarfulltrúinn tengir þessa grein við málið. 

Óskað er eftir að fyrirspurnir þessar og svör við þeim verði færðar í fundargerðina. Einnig er óskað eftir að þarfagreining og umfjöllun fræðslunefndar um hana verði afhent bæjarfulltrúum ásamt auglýsingu eftir tilboðum í viðbótarkennslustofur (einingahús) fyrir næsta fund bæjarráðs. 

Vilhjálmur Jónsson

 

Eiginleg formleg þarfagreining hefur ekki farið fram, en í bréfi skólastjórnenda sem lá fyrir 1766. fundi bæjarstjórnar er ástandinu lýst mjög vel, í úttekt Líf og Sál kom það berlega fram að mikilvægt væri að bæta úr húsnæðisvanda skólans og þess vegna var það sett á fjárfestingaáætlun ársins 2020. Það er löngu ljóst að þörf er á að byggja nýjan skóla eða  klára að byggja rauða skóla. Hér er einungis um bráðalausn að ræða sem réðst fyrst og fremst af því að finna lausn fyrir þá fjármuni sem voru til staðar. En eins og bæjarfulltrúa Vilhjálmi Jónssyni á að vera fullljóst þá voru það skilyrði fyrir kaupunum að Steinholt yrði selt og andvirðið sett í að kaupa færanlegar kennslustofu/ur. Auglýsing verður ekki lögð fyrir fund bæjarráðs þar sem framkvæmdin var aldrei auglýst eins og kemur fram hér ofar. Fræðslumálaráð hefur rætt þessi mál ítrekað en ekki bókað sérstaklega um málið nema á 7. fundi nefndarinnar 2019. 

Að lokum. 

Það er ástæða til þess að benda bæjarfulltrúanum Vilhjálmi Jónssyni á að í þessu máli hafa starfsmenn sveitarfélagsins unnið að lausn mikilvægs máls af drengskap, háttvísi og heiðarleika með hagsmuni sveitarfélagsins og sameiginlegum velferðarmálum bæjarbúa að leiðarljósi. 


Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri. 

 

Vilhjálmur leggur fram eftirfarandi  bókun við lið nr. 4

"Á bæjarstjórnarfundi 8. ágúst s.l. lagði undirritaður fram fyrirspurnir um undirbúning vegna kaupa á viðbótarkennslustofum (einingarhúsum) og óskaði eftir að svör yrðu færð til bókar en málið hafði ekki verið afgreitt af bæjarráði þar sem það var í vinnslu og beðið upplýsinga.

Svör hafa nú borist og er fyrir það þakkað.  Ef til vill í óþarflega löngu máli miðað við einfaldar fyrirspurnir sem þær voru.

Það vekur athygli að svör frá stjórnsýslu kaupstaðarins virðast lituð af fordómum í garð bæjarfulltrúa og að þau séu unnin af aðila í stjórnsýslunni sem áður hafði vikið sæti vegna vanhæfis við úrvinnslu málsins. Reyndar án þess að gera grein fyrir í hverju vanhæfið fælist.

Ásamt fyrirspurnunum var óskað eftir að lögð yrðu fyrir næsta bæjarráðsfund þarfagreining vegna kaupa á viðbótarkennslustofum (einingahúsum) og umfjöllun fræðslunefndar. Nú er komið á daginn að hvorugt liggur fyrir sem er hálf vandræðalegt ef ekki ámælisverð stjórnsýsla".

 

5. Starfsmannamál

Uppsagnabréf frá Kristínu Klemensdóttur lá fyrir fundinum.Bæjarráð þakkar vel unnin störf og felur AMÍ fulltrúa að auglýsa starfið. 

Uppsagnabréf frá Filippo Trivero lá fyrir fundinum. Bæjarráð þakkar vel unnin störf og felur AMÍ fulltrúa að auglýsa starfið.

 

6. Sparkvöllur – staða mála

Búið er að semja við verktaka um að skipta um dúk á vellinum, framkvæmdin fer fram í september. 

 

7. Afmælisnefnd – uppgjör

Bæjarráð þakkar afmælisnefndinni þeim Jónínu Brá, Davíð Kristinssyni og Ósk Ómarsdóttur, LungA teyminu og Tækniminjasafninu kærlega fyrir vel unnin störf og góða úrfærslu á hinni lágstemmdu en frábæru afmælishátíð sem haldin var í skugga COVID. 

 

Fundi slitið kl. 18:15

Fundargerð er á 5 bls.