Ærslabelgur væntanlegur

Hoppum inn í haustið
Mynd fengin að láni.
Mynd fengin að láni.

Keyptur hefur verið ærslabelgur til að setja upp á Seyðisfirði. Foreldrafélög grunn- og leikskóladeildar Seyðisfjarðarskóla öfluðu styrkja til kaupa á belgnum og eru stærstu styrkirnir frá Alcoa, Lionsklúbbi Seyðisfjarðar og Seyðisfjarðarkaupstað. Sveitarfélagið hefur samþykkt að taka við belgnum sem gjöf frá foreldrafélögunum.

Búið er að sameinast um staðsetningu belgsins, en hann verður settur upp samsíða leikvellinum við Suðurgötu og þannig vera í góðum tengslum við skóla- og leiksvæði. Hugmyndin er að hafa belginn uppblásinn frá kl. 9.30 til kl. 20:00 fram á haustið, en hann mun liggja í dvala þegar snjóa tekur. Sett verður upp skilti með reglum fyrir belginn, sbr. skilti við sparkvöll.

Belgurinn verður settur upp núna fyrir haustið og verður auglýst eftir aðstoð foreldra við þá vinnu.

Skilaboð til forelda: „Mikilvægt er að foreldrar og börn hafi í huga að ærslabelgurinn er eign okkar allra og við hjálpumst í sameiningu að við að ganga vel um hann og fara eftir reglum. Allir eru á eigin ábyrgð á ærslabelgnum. Ekki er leyfilegt að hoppa í skóm, allan skóbúnað skal geyma fyrir utan belginn. Ekki þykir heldur æskilegt að hoppa með gleraugu, en það er á ábyrgð eigenda. Í rigningu og bleytu getur belgurinn orðið mjög vafasamur. Alls ekki er æskilegt að leika sér á belgnum þegar hann er loftlaus.

Sýnum hvert öðru tillitssemi og virðingu á belgnum.

Foreldrafélag grunn- og leikskóladeildar.