Bæjarráð 05.07.17

2401.  fundur í bæjarráði Seyðisfjarðar

Miðvikudaginn 5.07.17 kom bæjarráð Seyðisfjarðar saman til fundar á skrifstofu bæjarins að Hafnargötu 44. Fundurinn hófst kl. 10:00. 

Mætt: Elfa Hlín Pétursdóttir, Margrét Guðjónsdóttir og bæjarstjóri sem ritaði fundargerð.

Fundargerðin var færð í tölvu.

 

Gerðir fundarins:

 

1. Ráðstefna samtakanna Ungt Austurland í apríl 2017.

Á fundinn undir þessum lið mætti Margrét Árnadóttir formaður samtakanna Ungt Austurland. Margrét kynnti þau málefni sem voru til umfjöllunar á ráðstefnu samtakanna á Borgarfirði í apríl síðastliðnum og ályktanir og niðurstöður hennar. Bæjarráð fagnar einstaklega skynsamlegri ályktun og stuðningi samtakanna um jarðgangagerð til Seyðisfjarðar. Að lokinni yfirferð var Margréti þakkað fyrir komuna og kynningu á áhugaverðum niðurstöðum ráðstefnunnar.

 

2. Erindi:

2.1. Viðlagatrygging Íslands 15.06.17. Skráning mannvirkja sem vátryggð eru hjá Viðlagatryggingu Íslands.

Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til byggingarfulltrúa til yfirferðar og tillögugerðar tengdri uppfærslu endurstofnverðs.

2.2. Síldarvinnslan hf. 21.06.17. Aðalfundur félagsins.

Í erindinu er tilkynnt um arðgreiðslu til kaupstaðarins fyrir árið 2016 sem nemur 73.675 krónum að frádregnum fjármagnstekjuskatti.

2.3. Sýslumaðurinn á Seyðisfirði 22.06.17. Umsókn um rekstrarleyfi til veitingu veitinga í flokki III – Austurvegur 4.

Auk umsóknargagna er lögð fram umsögn frá Skipulags- og byggingarfulltrúa. Samkvæmt henni er starfsemin í samræmi við skipulag og reglur kaupstaðarins.

Bæjarráð samþykkir að veita jákvæða umsögn um umsóknina.

2.4. Sýslumaðurinn á Austurlandi 26.06.17. Umsókn um tækifærisleyfi – Gleðiganga Seyðisfirði.

Fyrir liggur umsögn Heilbrigðiseftirlits Austurlands sem telur starfsemina ekki starfsleyfisskylda. Umsóknin rúmast innan skipulagsskilmála.

Bæjarráð samþykkir að veita jákvæða umsögn um umsóknina.

2.5. Héraðsskjalasafn Austfirðinga 28.06.17. Fundargerðir og áætlanir frá Héraðsskjalasafni.

Lagðar fram fundargerðir stjórnar Héraðsskjalasafns Austfirðinga frá 19.06.17 og frá 20.05.17. Einnig fjárhagsáætlun og áætlun um framlög aðildarsveitarfélaga fyrir árið 2018.

2.6. Íbúðalánasjóður 28.06.17. Fasteignir sjóðsins.

Í erindinu býður Íbúðarlánasjóður Seyðisfjarðarkaupstað til viðræðna um fasteignir sjóðsins á Seyðisfirði.

Bæjarráð samþykkir að þiggja boð um viðræður.

2.7. Fljótsdalshérað 4.07.17. Davíðsstaðir – skipulagslýsing til umsagnar.

Bæjarráð hefur engar athugasemdir við skipulagslýsingu fyrir breytingu á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 samkvæmt framlagðri verkefnalýsingu fyrir tillögu að breyttu Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 vegna Davíðsstaða (áður Hleinagarðs II).

 

3. Samstarf sveitarfélaga:

3.1. Fundargerð 33. fundar stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga frá 30.05.17.

Lögð fram til kynningar.

3.2. Fundargerð 34. fundar stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga frá 7.06.17.

Lögð fram til kynningar.

 

4. Gjaldskrá bæjarskrifstofu.

Lögð fram frá aðalbókara tillaga um breytingu á gjaldskrá bæjarskrifstofu.

Bæjarráð samþykkir tillöguna.

 

5. Seyðisfjarðarskóli, starfsmannamál.

Farið yfir nokkur atriði varðandi starfsmannamál Seyðisfjarðarskóla.

Bæjarstjóra falið að vinna að málinu í samræmi við umræður á fundinum.

 

6. Vestdalseyri – Breyting á aðalskipulagi – fornleifaskráning.

Bæjarráð staðfestir samkomulag við Fornleifastofnun um fornleifaskráningu á Vestdalseyri í samræmi við kostnaðaráætlun og skilgreiningu verksins.

 

7. Verndarsvæði í byggð – Seyðisfjörður, fornleifaskráning og húsakönnun.

Bæjarráð staðfestir samkomulag við Fornleifastofnun um fornleifaskráningu í Verndarsvæði í byggð - Seyðisfjörður í samræmi við kostnaðaráætlun og skilgreiningu verksins.

 

8. Atburðir vegna vatnsveðurs og skriðufalla 23. og 24.06.17.

Bæjarstjóri gerði grein fyrir undirbúningi hreinsunar og ráðstafana vegna afleiðinga vatnsveðursins.

 

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 12:05.