Bæjarráð 26.04.17
2394. fundur í bæjarráði Seyðisfjarðar
Miðvikudaginn 26.04.17 kom bæjarráð Seyðisfjarðar saman til fundar á skrifstofu bæjarins að Hafnargötu 44. Fundurinn hófst kl. 16:00.
Mætt: Elfa Hlín Pétursdóttir, Margrét Guðjónsdóttir og Vilhjálmur Jónsson sem ritaði fundargerð.
Fundargerðin var færð í tölvu.
Gerðir fundarins:
1. Fundargerðir:
1.1. Fundargerð ferða- og menningarnefndar frá 24.04.17.
Liður nr. 3 í fundargerðinni tekinn fyrir undir lið nr. 8 á dagskrá.
Fundargerðin samþykkt.
1.2. Fundargerð umhverfisnefndar frá 24.04.17.
Bæjarráð samþykkir vegna liðar 2 í fundargerðinni „Vesturvegur 8. Gistileyfi í flokki II. – Minna gistiheimili“ að vísa neikvæðri umsögn umhverfisnefndar til afgreiðslu í bæjarstjórn.
Fundargerðin samþykkt.
2. Erindi:
2.1. Heilbrigðiseftirlit Austurlands 21.04.17. Breyting á starfsleyfi fyrir Hafölduna ehf.
Lagt fram til kynningar.
2.2. Austurbrú ses. 23.04.17. Fundarboð til fulltrúa á ársfund Austurbrúar ses.
Ásamt fundarboði og dagskrá þar sem boðað er til ársfundar Austurbrúar 8.maí 2017, eru lagðar fram tillögur starfsháttanefndar Austurbrúar ses. um stjórnar- og nefndarkjör.
Bæjarráð samþykkir að Arnbjörg Sveinsdóttir verði fulltrúi kaupstaðarins á fundinum, til vara verði bæjarstjóri.
2.3. Samband sveitarfélaga á Austurlandi 24.04.17. Stjórnsýsla í umhverfi Heilbrigðiseftirlits Austurlands.
Ásamt erindinu er lagt fram minnisblað frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands þar sem fjallað er um stjórnsýslu í umhverfi eftirlitsins og flutning verkefna frá því til stofnana ríkisins.
Bæjarráð tekur undir bókun stjórnar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og lýsir yfir áhyggjum af fyrirhuguðum tillögum að breytingum á verksviði heilbrigðisnefnda og -eftirlits sveitarfélaga og áréttar ályktun frá aðalfundi sambandsins 2016 um málið og eftirfylgni hennar.
2.4. Bæjarráð Fljótsdalshérað 25.10.17. Boð til bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar um fund.
Lagt fram boð frá bæjarráði Fljótsdalshéraðs um sameiginlegan fund bæjarráðanna þann 3. maí næstkomandi.
Bæjarráð samþykkir að sækja fundinn og felur bæjarstjóra að undirbúa hann í samvinnu við bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs.
3. Samstarf sveitarfélaga:
3.1. Fundargerð 8. fundar stjórnar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi frá 18.04.17.
Lögð fram til kynningar.
Vegna liðar 2 í fundargerðinni „Fulltrúar frá Djúpavogshreppi“ tekur bæjarráð undir bókun Sambands sveitarfélaga á Austurlandi um mögulega sameiningu Djúpavogshrepps við Hornafjörð og Skaftárhrepps. Bæjarráð deilir áhyggjum stjórnar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi um brottflutning Djúpavogshrepps úr Austfirsku samstarfi og samfélagi. Bæjarráð áréttar sérstaklega, eins og fram kemur í bókuninni, að samgöngur gegna lykilhlutverki í íbúa- og byggðaþróun landsbyggðanna, að samstaða innan landshlutans um forgangsröð í uppbyggingu samgangna er mikilvæg og að niðurstöður þar um verði virtar af aðildarsveitarfélögunum.
4. Fjármál 2017.
4.1. Upplýsingamiðstöð, hönnun og innréttingar.
Kynnt hönnun og tilboð í innréttingar í bókasafn. Áfram í vinnslu.
4.2. Fjármálalegar upplýsingar.
Bæjarstjóri kynnti ýmsar upplýsingar er varða þróun tekna og fjárhag kaupstaðarins á fyrsta ársfjórðungi ársins.
5. Húsnæðismál – reglur um stofnframlög.
Lögð fram drög að reglum um stofnframlög hjá Seyðisfjarðarkaupstað. Þeim er ætlað að stuðla að húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga á Seyðisfirði, sbr. lög um almennar íbúðir nr. 52/2016. Áfram í vinnslu.
6. Fjárhagsáætlun 2018.
Farið yfir drög að fjárhagsrömmum fyrir fjárhagsáætlun 2018. Áfram í vinnslu.
7. Verklagsreglur og leiðbeiningar vegna umsókna um gistirekstur.
Lögð fram drög að verklagsreglum og leiðbeiningum vegna umsókna um gistirekstur.
Bæjarráð samþykkir að vísa drögunum til kynningar og umfjöllunar byggingarfulltrúa.
8. Ríkisfjármálaáætlun – breyting á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu.
Tekin fyrir liður 3 úr fundargerð ferða- og menningarnefndar um áhrif hækkunar virðisaukaskatts á ferðaþjónustu úr 11% í 24%. Jafnframt farið yfir upplýsingar frá atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúa og fleiri aðilum um málið. Umsögn bæjarráðs er eftirfarandi:
„Áform ríkisstjórnar Íslands um að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu mun hafa afgerandi neikvæð áhrif á ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Hækkun virðisaukaskatts mun óhjákvæmilega leiða til hækkunar á verði, sem getur leitt til enn frekari styttingar dvalar ferðamanna á Íslandi. Styttri dvöl ferðamanna þýðir að mun færri munu leggja leið sína til þeirra staða sem fjærst eru Keflavíkurflugvelli, til dæmis á Austurland. Vonir og væntingar höfðu staðið til þess að hægt væri að byggja upp heilsársstarfsemi og auka þar með byggðafestu úti á landi. Fyrirhuguð áform um hækkun á virðisaukaskatti draga verulega úr líkum þess að svo geti orðið. Sterk staða krónunnar og gengisþróun gerir það ómögulegt að hækka verð í ferðaþjónustu frekar en orðið er, til að koma til móts við hækkun á virðisaukaskatti. Bæjarráð telur jákvætt að einfalda skattkerfi almennt þ.m.t. hvað varðar virðisaukaskatt. Hins vegar sé full ástæða til að meta áhrif þess gaumgæfilega og í víðu samhengi í samráði við sveitarfélög og atvinnugreinina“.
9. Sumarlokun bæjarskrifstofu.
Bæjarráð samþykkir að sumarlokun bæjarskrifstofu verði frá og með 10. júlí til og með 8. ágúst 2016.
Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 17:58.