Bæjarstjórn 23.06.16

1713. fundur bæjarstjórnar Seyðisfjarðar

Fimmtudaginn 23. júní 2016 hélt bæjarstjórn Seyðisfjarðar fund í íþróttamiðstöðinni (fundarsal 3. hæð) og hófst fundurinn kl. 15:00.

Mætt voru : Arnbjörg Sveinsdóttir, Halla Dröfn Þorsteinsdóttir í fjarveru Þórunnar Hrundar Óladóttir, Hildur Þórisdóttir, Margrét Guðjónsdóttir, Íris Dröfn Árnadóttir, Vilhjálmur Jónsson og Örvar Jóhannsson. Fundarritari var Vilhjálmur Jónsson.

Fundargerðin var færð í tölvu.

 

Gerðir fundarins:

Forseti bauð fólkið velkomið til fundar og setti fundinn.

Dagskrá:

1. Kosning forseta- og varaforseta bæjarstjórnar.

Forseti bæjarstjórnar var kjörinn Arnbjörg Sveinsdóttir í leynilegri kosningu með 7 atkvæðum og hélt hún áfram stjórn fundarins. 

Kosinn var 1. varaforseti Elfa Hlín Pétursdóttir  í leynilegri kosningu með 7 atkvæðum.

 

2. Kosning í nefndir, ráð og stjórnir til eins árs sbr. samþykkt um stjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar, skv. 9. grein sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Kosning í bæjarráð.

Tilnefnd voru Margrét Guðjónsdóttir formaður, Vilhjálmur Jónsson og Elfa Hlín Pétursdóttir varaformaður.

Tillögur um nefndarmenn voru samþykktar samhljóða með 7 atkvæðum.

 

Kosning skrifara. Tveir aðalmenn og tveir til vara. 

Tilnefndir sem aðalmenn Svava Lárusdóttir, Þórunn Hrund Óladóttir og til vara Unnar Sveinlaugsson og Elfa Hlín Pétursdóttir.

Tillögur um skrifara voru samþykktar samhljóða með 7 atkvæðum.

 

Kosning fulltrúa og varafulltrúa á fund SSA.

Tilnefndir voru sem aðalmenn Elfa Hlín Pétursdóttir, Margrét Guðjónsdóttir og Vilhjálmur Jónsson. Til vara Þórunn Hrund Óladóttir, Svava Lárusdóttir og Unnar Sveinlaugsson. 

Tillögur um fulltrúa voru samþykktar samhljóða með 7 atkvæðum.

 

Skólaskrifstofa Austurlands, einn fulltrúi og annar til vara á aðalfund Skólaskrifstofunnar.

Tilnefndur er bæjarstjóri og til vara formaður bæjarráðs.

Tillögur um fulltrúa voru samþykktar samhljóða með 7 atkvæðum.

 

Heilbrigðiseftirlit Austurlands. Fulltrúi og varafulltrúi á aðalfund og aðra fulltrúafundi, samkvæmt samþykktum byggðasamlagsins.Tilnefndur formaður bæjarráðs og til vara bæjarstjóri.

Tillögur um fulltrúa voru samþykktar samhljóða með 7 atkvæðum.

 

3. Aðalskipulagslýsing á breytingum á aðalskipulagi á Vestdalseyri og í Langatanga - kynning á tillögunum.

Á fundinn undir þessum lið mætti Sigurður Jónsson skipulagsfulltrúi kaupstaðarins og kynnti tillöguna og svaraði fyrirspurnum.

Vegna tillögu að skipulagslýsingar í Langatanga er eftirfarandi tillaga lögð fram.

„Bæjarstjórn samþykkir framlagða tillögu að skipulagslýsingu á breytingum á aðalskipulagi í Langatanga með fyrirvara um aðgengi almennings að ánni og árbakkanum og möguleika á gerð göngustígs á árbakkanum.

Bæjarstjórn felur skipulagsfulltrúa og umhverfisnefnd að auglýsa og kynna framlagða skipulagslýsingu að breytingu á aðalskipulagi í Langatanga“.

Vegna skipulagslýsingar á Vestdalseyri er eftirfarandi tillaga lögð fram.

„Bæjarstjórn samþykkir framlagða tillögu að skipulagslýsingu á breytingum á aðalskipulagi á Vestdalseyri. Miðað verði við að tillagan nái að klettabelti næst eyrinni og út að Grýtuá.

Bæjarstjórn felur skipulagsfulltrúa og umhverfisnefnd að auglýsa og kynna framlagða tillögu að breytingum á aðalskipulagi á Vestdalseyri“.

 

4. Fundargerð bæjarráðs nr. 2360

Fundargerð opnuð fyrir umræðum.

Til máls tók bæjarstjóri sem kynnti fundargerðina, Íris um lið 5 í fundargerðinni og bæjarstjóri.

 

Fundargerð samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.

 

5. Fundargerð bæjarráðs nr. 2361

Eftirfarandi fundargerðir lagðar fram til kynningar : 

Atvinnu- og framtíðarmálanefnd frá 17.05.16. 

Velferðarnefnd frá 17.05.16.

 

Undir lið 5 í fundargerðinni er að finna eftirfarandi tillögu:

„Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að auglýst verði eftir rekstraraðila til að sjá um starfsemi félagsheimilisins Herðubreiðar á grundvelli framlagðrar útboðslýsingar“.

 

Fundargerð og tillaga opnaðar fyrir umræðum.

Til máls tóku Örvar um lið 5 í fundargerðinni og lagð fram eftirfarandi bókun og tillögu.

„Í ljósi þess að nýlega var tekin ákvörðun um sameiningu skólanna þriggja og verið er að ganga frá skólastefnu kaupstaðarins, þá tel ég það liggja ljóst fyrir að næsta skref sé að taka ákvörðun um skipulag húsnæðismála ný sameinaðs Seyðisfjarðarskóla til frambúðar. Ég tel það hljóti að vera hagkvæmast að nýta það húsnæði sem bærinn hefur yfir að ráða nú þegar, þar sem ekki er hægt að telja raunhæft að huga að nýbyggingu í nánustu framtíð, jafnframt hlýtur húsnæðismálum slíkrar stofnunar að vera best fyrirkomið á sem minnstu svæði, sé ég þar helst fyrir mér nýtingu Herðubreiðar, t.a.m. með því að færa þangað starfsemi tónlistarskólans/listadeildar Seyðisfjarðarskóla. Því legg ég fram með fylgjandi tillögu til bæjarstjórnar“.

„Bæjarstjórn Seyðisfjarðar samþykkir að rekstur félagsheimilisins Herðubreiðar verið í höndum kaupstaðarins í það minnsta þar til endanleg ákvörðun hefur verið tekin um framtíðarskipulag húsnæðismála Seyðisfjarðarskóla“  og jafnframt eftirfarandi bókun vegna tillögu bæjarráðs.

„Varðandi tillögu í lið 5 í fundargerðinni sem um er að ræða legg ég fram eftirfarandi bókun“.

„Tillagan sem hér er rætt um varðandi útboð á rekstri félagsheimilisins Herðubreiðar, er í algjörri andstöðu við mína sýn á rekstur hússins. Útboðslýsingin ber yfirbragð þess að vera hraðsoðin og vanti alla innsýn og tilfinningu fyrir því starfi sem fram fer að jafnaði í húsinu. Ég tel að þegar upp verður staðið yrði sú tilhögun sem tillagan gengur út á, mun dýrari en ef ráðinn yrði útsjónasamur fastur starfsmaður í húsið sem myndi leita leiða til að auka tekjur kaupstaðarins af húsinu.

Einnig tel ég að ef niðurstaða fundarins verður sú að bjóða út reksturinn, sé mikilvægt að tryggja, að ekki verði samið við rekstraraðila sem hætt er við að muni verja hagsmuni aðila með fasta reglubundna starfsemi í húsinu umfram hagsmuni annarra. Einnig tel ég að samning við verktaka í slíkum rekstri fyrir sveitarfélag sé óverjandi að gera til lengri tíma en út kjörtímabil sveitarstjórnar.

Það er því gegn minni sannfæringu að styðja þessa tillögu og greiði ég því atkvæði gegn henni og mæli með því að hún verði felld.“

bæjarstjóri sem kynnti fundargerðina, Margrét um lið 5, Hildur um lið 2.4., Örvar um lið 5 og 4. og bæjarstjóri um liði 4 og 5.

 

Tillaga Örvars borin upp og felld með 6 atkvæðum gegn 1.

Tillaga bæjarráðs samþykkt með 6 atkvæðum gegn 1.

 

Vegna liðar 2.4. í fundargerðinni er eftirfarandi bókun bæjarstjórnar lögð fram.

„Í ljósi þeirrar grafalvarlegu stöðu sem stjórn Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) hefur kynnt um læknaþjónustu í fjórðungnum, hefur bæjarstjóri átt fundi annars vegar með framkvæmdastjórn HSA ásamt fulltrúum annarra sveitarfélaga á Austurlandi og hins vegar með heilbrigðisráðherra og embættismönnum í Velferðarráðuneytinu ásamt bæjarstjórum Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs. Á þeim fundum hefur verið ítrekuð sú krafa að læknaþjónusta á Seyðisfirði og í fjórðungnum öllum verði tryggð árið um kring. Vegna ótryggra samgangna  til og frá Seyðisfirði yfir vetrarmánuðina og þeirrar staðreyndar að til Seyðisfjarðar koma á annað hundrað þúsund ferðamenn árlega er nauðsynlegt að hér sé órofin læknisþjónusta alla daga ársins.“

Tillagan samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.

Fundargerð samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.

 

6. Fundargerð bæjarráðs nr. 2362

Eftirfarandi fundargerðir lagðar fram til kynningar :

Fræðslunefnd frá 24.05.16.

Umhverfisnefnd frá 30.05.16.

 

Eftirfarandi tillögu má finna undir lið 1.2. í fundargerðinni vegna liðar 7 í fundargerð umhverfisnefndar „Vesturvegur 8“ um beiðni um umsögn um umsókn um leyfi til sölu gistingar:

„Með vísan til niðurstöðu umhverfisnefndar vegna umsóknar um leyfi til sölu gistingar að Vesturvegi 8, um að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag kaupstaðarins segja til um, samþykkir bæjarstjórn leyfisveitingu fyrir sitt leyti“.

 

Fundargerð og tillaga opnaðar fyrir umræður.

Til máls tók bæjarstjóri sem kynnti fundargerðina.

Tillaga samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.

Fundargerð samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.

 

7. Fundargerð bæjarráðs nr. 2363

Eftirfarandi fundargerð lögð fram til kynningar :

Ferða- og menningarnefnd frá 06.06.16.

 

Eftirfarandi tillögu má finna undir lið 3.2. í fundargerðinni.

„Bæjarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti tillögu stjórnar Brunavarna um að auka framlag kaupstaðarins sem nemur 14,74% af 4 milljóna króna aukaframlagi með fyrirvara um samþykki annarra aðildarsveitarfélaga Brunavarna á Austurlandi“.

 

Fundargerð og tillaga opnaðar fyrir umræður.

Til máls tók bæjarstjóri sem kynnti fundargerðina, Örvar um lið 2.3., 4, bæjarstjóri um lið 2.3. og 4.

 

Tillaga samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.

Fundargerð samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.

 

8. Fundargerð 5. fundar hafnarmálaráðs 2016 frá 25.04.16

 

Fundargerð opnuð fyrir umræður.

Til máls tók bæjarstjóri sem kynnti fundargerðina, Örvar um liði 6 og 11 og bæjarstjóri um lið 6 og 11.

 

Fundargerð samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.

 

9. Fundargerð 6. fundar hafnarmálaráðs 2016 frá 06.06.16

 

Eftirfarandi tillögu, v. viðhalds Ránargötu 2, má finna undir lið 2

„Hafnarmálaráð leggur til við bæjarstjórn að framkvæmdin við Ránargötu 2 verði heimiluð og hafnarmálaráði falið að undirbúa viðauka við fjárhagsáætlun vegna hennar.“

 

Fundargerð og tillaga opnaðar fyrir umræður.

Til máls tók bæjarstjóri sem kynnti fundargerðina.

 

Tillaga samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.

Fundargerð samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.

 

10.  Fundargerð 839. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 27.05.16

Lögð fram til kynningar

 

11. Fundargerð 840. Fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 02.06.16

Lögð fram til kynningar

 

12. Skólastefna Seyðisfjarðarskóla

Lögð fram drög að endurskoðaðri skólastefnu Seyðisfjarðarskóla. Hildur Þórisdóttir sem leiddi starf stýrihóps sem endurskoðaði skólastefnu Seyðisfjarðarskóla kynnti framlögð drög að endurskoðaðri skólastefnu.

Til máls tóku Hildur, Margrét, Íris, Örvar, Hildur, Margrét, Arnbjörg og Hildur.

Eftirfarandi bókun og tillaga lögð fram.

„Bæjarstjórn þakkar stýrihópnum um endurskoðun skólastefnunnar, fræðslunefnd, starfsfólki skólanna og öðrum sem komu að endurskoðun skólastefnunnar.“

„Bæjarstjórn samþykkir framlögð drög að endurskoðaðari skólastefnu kaupstaðarins“.

Til máls tóku Hildur, Margrét, Íris, Örvar, Hildur, Margrét, Arnbjörg og Hildur, Vilhjálmur, Arnbjörg Hildur.

Bókun og tillagan samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.

 

13. Svæðisskipulag Austurlands

Lögð fram tillaga starfshóps á vegum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi um áherslur og verkefni sem hópurinn leggur til að höfð verði að leiðarljósi við svæðisskipulagsgerð fyrir Austurland og vinnuskjal sem sýnir tímalínu verkefnisins og áætlaðan heildarkostnað. Af hálfu Sambands sveitarfélaga á Austurlandi er óskað eftir afstöðu bæjarstjórnar til hennar.

Til máls tók bæjarstjóri sem kynnti starf hópsins.

Eftirfarandi tillaga lögð fram.

„Bæjarstjórn samþykkir að taka þátt í svæðisskipulagsgerð svæðisskipulags Austurlands með fyrirvara um þátttöku sveitarfélaga á Austurlandi“.

Tillaga samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.

 

14. Frumkvöðlasetur á Seyðisfirði

Lögð fram drög að römmum og forsendum fyrir starfsemi frumkvöðlaseturs og drög að verksamningi.

Til máls tóku bæjarstjóri sem kynnti stöðu málsins, Íris, Arnbjörg, Margrét og bæjarstjóri.

Eftirfarandi tillaga lögð fram.

Bæjarstjórn felur bæjarráði að vinna áfram að stofnun frumkvöðlaseturs á Seyðisfirði og að ganga til samninga við Skaftfell á forsendum fyrirliggjandi ganga.

Tillaga samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.

 

15. Hafnargata 11 – Gamla ríkið

Hér vék Hildur af fundi með leyfi forseta vegna annarra starfa.

Lögð fram frumdrög að samkomulagi við Húsahótel um viðtöku og endurgerð Hafnargötu 11.

Til máls tóku bæjarstjóri, Arnbjörg, Margrét, Örvar, Arnbjörg, bæjarstjóri og Arnbjörg.

Eftirfarandi tillaga lögð fram.

„Bæjarstjórn felur bæjarstjóra og bæjarráði að vinna að lausn sem fyrst á grundvelli framlagðra gagna. Miðað verði við að ljúka gerð samkomulags fyrir 1. júlí næstkomandi“

Tillaga samþykkt samhljóða með 6 atkvæðum.

 

16. Beiðni frá Svövu Lárusdóttur um leyfi frá störfum í bæjarstjórn, velferðarnefnd, félagsmálanefnd Fljótsdalshéraðs, samráðsnefnd um skíðasvæðið í Stafdal og stjórn Skaftfells.

Eftirfarandi tillaga lögð fram.

„Bæjarstjórn samþykkir umbeðið leyfi frá störfum í bæjarstjórn og nefndum“.

Tillaga samþykkt samhljóða með 6 atkvæðum.

 

17. Sumarleyfi bæjarstjórnar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram.

„Bæjarstjórn samþykkir að sumarleyfi bæjarstjórnar hefjist 23. júní og ljúki 9. ágúst og að fyrsti fundur bæjarstjórnar eftir sumarleyfi verði 10. ágúst.Bæjarstjórn veitir bæjarráði heimild til fullnaðarafgreiðslu mála sbr. 5. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, meðan bæjarstjórn er í sumarleyfi.“

Tillagan samþykkt samhljóða með 6 atkvæðum.

    

Fundi slitið kl. 19:47.