BRAS
Einkunnarorð hátíðarinnar eru Þora! Vera! Gera! enda er leiðarljós hátíðarinnar að hvetja börn á Austurlandi til að þora að vera þau sjálf og framkvæma á eigin forsendum. Hátíðin er haldin frá miðjum september fram í október þar sem fram fara litlir sem stórir listviðburðir auk námskeiða og fræðslu á sviði lista og menningar. Markmiðið er að búa til vettvang þar sem öll börn á Austurlandi geta unnið saman á jafningjagrundvelli óháð móðurmáli, tungumálakunnáttu og búsetu. Unnið er þvert á þjóðerni, byggðakjarna og aldur.
Yfirskriftin í ár er "Réttur til áhrifa" og byggir á 12. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Á Seyðisfirði verður mikið um að vera og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Einnig er sérstök athygli vakin á því að opnar smiðjur verða í boði víðsvegar um allt Austurland og öllum velkomið að sækja þær.
Dagskrá viðburða má finna hér.
BRAS er menningarhátíð þar sem börnum er gefið tækifæri til að skapa og upplifa listir í víðasta samhengi. Hún var haldin í fyrsta skipti í september 2018 og sem fyrr segir hefur verið ákveðið að endurtaka leikinn í haust.
Önnur markmið með BRAS eru meðal annars þessi :
- Að börn kynnist fjölbreyttum aðferðum listanna við skapandi vinnu.
- Að opna augu barna og ungmenna á Austurlandi fyrir mikilvægi samveru, samkenndar og samstöðu.
- Að gefa börnum tækifæri til að kynnast á nýjan hátt og skilja hvert annað út frá nýjum forsendum.
- Að auka virðingu og umburðarlyndi meðal barna og ungmenna.
- Að börn meti að verðleikum fjársjóðinn sem felst í aðgengi að ólíkum menningarheimum.
- Að nota listsköpunina til að byggja brýr á milli þjóðerna, aldurshópa og byggðakjarna.
Í ljósi heimsfaraldurs verður hátíðin með öðru sniði en verið hefur. Gert er ráð fyrir því að aðlaga viðburði að þeim reglum sem í gildi verða og verður Hápunkturinn til að mynda með öðru fyrirkomulagi en í fyrra. Þátttakendur og foreldrar eru beðnir um að virða þær reglur sem í gildi eru. Í flestum tilfellum þar sem foreldrar eru með í smiðjum skal virða 1metra fjarlægðarreglu eða hafa meðferðis andlitsgrímu.