Dagar myrkurs 2017

1. nóvember – 5. nóvember
Mynd fengin úr myndasafni
Mynd fengin úr myndasafni

Dagar myrkurs voru haldnir í fyrsta sinn í nóvember árið 2000 af Markaðsstofu Austurlands sem hefur hýst verkefnið allar götur síðan. Verkefnið hefur verið skipulagt með svipuðum hætti frá upphafi og er í dag hluti af markaðsstarfi Austurbrúar. 

Hátíðin
Dagar myrkurs er byggðahátíð á Austurlandi þar sem gervallur landshlutinn leggst á eitt við að gera íbúum og gestum þeirra glaða daga í svartasta skammdeginu og lýsa þá upp með skírskotun í ríkan drauga- og vættaarf. Á Dögum myrkurs er góður tími til að heimsækja söfn og sýningar, sundlaugar og bókasöfn sem öll taka vel á móti gestum með upplýsandi viðburðum tengdum jafnt myrkrinu sem ljósinu.

Þegar dagarnir styttast, skuggar lengjast, vættir fara á kreik, draugar skríða úr skúmaskotum, álfar dansa, stjörnur og norðurljós lýsa næturhimininn, er kominn tími til að draga fram kerti og spil, rifja upp sögur og sagnir, endurvekja þjóðtrúna og minnast liðinna tíma. Í myrkrinu getur líka rómantíkin dafnað. Dagar myrkurs er hátíð sem fagnar í senn myrkrinu og ljósinu. Við skipuleggjum fjölda viðburða til samveru og njótum notalegra stunda við kertaljós.

Á Dögum myrkurs höldum við kvöldgöngur og kertafleytingar, hryllingsbíó, sögustundir, förum á markað og listasýningar og hlýðum á ljóðalestur. Tónlist og myndlist eru í öndvegi, hlaðborð og þjóðlegir réttir, draugagangur og afturgöngur, bílabíó, sviðamessur, myrkra- og grímuböll, stjörnum og norðurljósum er fagnað. Verslanir og þjónustuaðilar bjóða upp á freistandi tilboð á vörum, veitingum og gistingu í tilefni daganna.

Látum hvítu ljósin loga, tákn fyrir frið og kærleika manna á millum, þar til litrík ljós aðventu taka við.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í Dögum myrkurs, eða jafnvel vilja fá meiri upplýsingar, mega gjarnan hafa samband við Dagný Erlu Ómarsdóttur, dagny@sfk.is.