Dagar myrkurs á Seyðisfirði
Kæru Seyðfirðingar – Dagar myrkurs nálgast!
Dagar myrkurs verða haldnir dagana 28.október – 1.nóvember 2020.
Dagar myrkurs er byggðahátíð á Austurlandi þar sem gervallur landshlutinn leggst á eitt við að gera íbúum og gestum þeirra glaða daga í svartasta skammdeginu og lýsa þá upp með skírskotun í ríkan drauga- og vættaarf þegar skuggar lengjast og vættir fara á kreik. Á Dögum myrkurs er tími til kominn að draga fram kerti og spil, rifja upp sögur og sagnir, endurvekja þjóðtrúna og minnast liðinna tíma.
Hér á Seyðisfirði höfum við svo sannarlega haldið Daga myrkurs hátíðlega í gegnum árin og hlakkar undirrituð til að sjá Seyðisfjörð myrkvaðan enn eitt árið, þó að öll umgerð verði að lúta að gildandi tilmælum og lögum yfirvalda vegna covid-19. Dagskráin mun því taka mið af því.
Afturgangan verður ekki haldin eins og verið hefur þar sem ekki er leyfilegt að safnast saman í stærri hóp en 20 manns. Íbúar eru hins vegar hvattir til þess að ganga aftur sjálfir í myrkrinu og leita að myrkraverkum.
Íbúar og fyrirtæki eru jafnframt hvattir til þess að lýsa upp sínar byggingar og skreyta glugga sem snúa út að götu – þemað getur verið af ýmsum toga; draugagluggi, tröllagluggi, rómantískur gluggi eða Hrekkjavökugluggi.
Íbúar eru svo að sjálfsögðu hvattir til að ganga um hverfin sín og njóta fjölbreyttra gluggaútstillinga. Hvatt er til þess að sem flestir takir myndir af sínum gluggum og setji á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #dagarmyrkurs.
Í ljósi aðstæðna verður í ár lögð áhersla á að nýta tæknina, t.d. verður hægt að hlusta á sögur af vættum og draugum í hlaðvörpum, fyrirhugað er að halda bílabíó og hryllingsmyndabíó!
Samvera fjölskyldunnar er í forgrunni á Dögum myrkus. Tilvalið er að koma saman og skera út í grasker og/eða rófur, eins og gert var til forna og setja ljóstýru inn í hryllileg listaverkin. Innvolsið má svo nýta í hroðalega súpu eða fyrir fugla og mýs. Myndir af listaverkunum er svo upplagt að setja á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #dagarmyrkurs.
Föstudaginn 30.október verður búningadagur á öllu Austurlandi.
Þennan dag eru fyrirtæki, skólar og aðrar stofnanir sérstaklega hvattar til þess að gera sér glaðan dag og að starfsmenn klæði sig upp í eitthvað alveg hræðilegt! Hér gildir auðvitað líka að taka myndir og setja á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #dagarmyrkurs.
Á Dögum myrkurs höldum við kvöldgöngur og kertafleytingar, hryllingsbíó, sögustundir, hlýðum á draugasögur og jafnvel á ljóðalestur. Tónlist og myndlist eru í öndvegi, draugagangur og afturgöngur, bílabíó, sviðamessur, myrkra- og grímuböll, stjörnum og norðurljósum er fagnað.
Verslanir og þjónustuaðilar bjóða vonandi upp á hryllilega freistandi tilboð á vörum, veitingum og gistingu í tilefni daganna.
Dagskrá Daga myrkurs verður birt von bráðar hér á vefnum – fylgist með!
Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í Dögum myrkurs, eða jafnvel vilja fá meiri upplýsingar, mega gjarnan hafa samband við Jónína Brá á jonina.arnadottir@mulathing.is