Endurskoðað hættumat fyrir Seyðisfjörð og hættumat fyrir Vestdalseyri

Endurskoðað hættumat fyrir Seyðisfjörð og hættumat fyrir Vestdalseyri var kynnt á íbúafundi sem haldinn var fimmtudaginn 29. ágúst síðast liðinn. Hættumatskort og skýrslur sem lýsa forsendum matsins munu liggja frammi á skrifstofu Seyðisfjarðarkaupstaðar og á vef Veðurstofu Íslands til kynningar í fjórar vikur. Skriflegum athugasemdum er hægt að skila til bæjarskrifstofunnar á Hafnargötu 44 eða í tölvupósti til sfk@sfk.is til 30. september 2019 merktum "Athugasemd við ofanflóðahættumat á Seyðisfirði". 

Athugið að skrifstofa kaupstaðarins er opin frá klukkan 10 - 12 og 13 - 14 alla virka daga. 

Bæjarstjóri.

 

Af gefnu tilefni er vakin athygli á eftirfarandi:

Hættusvæði í suðurbænum undir Neðri-Botnum stækka talsvert frá fyrra mati vegna þess að hætta af völdum stórra skriðna úr þykkum, lausum jarðlögum er metin meiri en áður. Þessi niðurstaða kallar á varnaraðgerðir fyrir íbúðabyggðina og aukna vöktun á skriðuhættu fyrir þetta svæði.

Seyðisfjarðarkaupstaður vinnur að undirbúningi varnaraðgerða í samvinnu við Ofanflóðasjóð og innlenda og erlenda sérfræðinga. Forathugun á varnarkostum var unnin á árunum 2015 og 2016 (sjá skýrslur á vef Veðurstofunnar)  og hópur sérfræðinga mun halda áfram þessum undirbúningi haustið 2019. 

Skriðuhætta er vöktuð af ofanflóðavakt Veðurstofunnar sem fylgist með veðurspá og úrkomumælingum og er í samráði við athugunarmenn Veðurstofunnar á þeim stöðum sem eru í mestri ofanflóðahættu. Stórar skriður úr Neðri-Botnum falla að öllum líkindum í kjölfar stórrigninga sem koma skýrt fram í veðurmælingum.

Rétt er að undirstrika að skriður af þessari stærð eru mjög sjaldgæfar. Slíkar skriður hafa ekki fallið úr Neðri-Botnum frá því land byggðist.